Skipulag

Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem annast eftirlit samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 og daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Þá annast fjölmiðlanefnd þau hlutverk sem henni eru falin í öðrum lögum. Starfsemin heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar fimm manns í fjölmiðlanefnd til fjögurra ára í senn. Tveir fulltrúar eru skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar Íslands, einn samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins og einn samkvæmt tilnefningu Blaðamannafélags Íslands en þann fimmta skipar ráðherra án tilnefningar. Varamenn eru skipaðir á sama hátt.

Ákvörðunum fjölmiðlanefndar er ekki hægt að skjóta til æðra stjórnvalds en aðilum er heimilt að höfða mál til ógildingar ákvörðun fjölmiðlanefndar fyrir dómstólum, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar, líkt og gildir um aðrar stjórnvaldsákvarðanir.

Fjölmiðlanefnd sinnir þeim verkefnum sem henni eru falin lögum samkvæmt. Fjölmiðlanefnd tekur mál til meðferðar, hvort heldur er á grundvelli aðsendra erinda eða að eigin frumkvæði, sem leitt geta til stjórnvaldsákvörðunar. Fjölmiðlanefnd tekur ákvörðun um það hvort erindi sem berst henni gefi nægar ástæður til meðferðar.

Við afgreiðslu mála er fjölmiðlanefnd heimilt að raða málum í forgangsröð. Þá er fjölmiðlanefnd heimilt að taka upp mál að eigin frumkvæði. Fjölmiðlanefnd skal, eins fljótt og við verður komið, taka ákvörðun í málum vegna erinda sem til hennar er beint.

Fjölmiðlanefnd á að gæta trúnaðar við meðferð upplýsinga og gagna sem hún aflar eða henni berast á grundvelli fjölmiðlalaganna um hagi einstakra fjölmiðla. Þótt fjölmiðlanefnd afhendi upplýsingar til annarra sambærilegra stjórnsýslustofnana, sem fara með fjölmiðlamál innan Evrópu, ríkir sami trúnaður. Þá ber fjölmiðanefnd að tryggja að tölulegar upplýsingar séu ekki rekjanlegar til einstakra fjölmiðlafyrirtækja.

Formleg erindi þar sem farið er fram á aðgerðir á grundvelli fjölmiðlalaga eða annarra laga sem fjölmiðlanefnd er ætlað að hafa eftirlit með skulu vera skrifleg og undirrituð. Greint skal frá nafni, heimilisfangi og kennitölu þess sem sendir erindið. Ef um lögaðila er að ræða skal greina stuttlega frá því hvers kyns starfsemi hann stundar. Jafnframt skal greina frá þeim lögaðila eða einstaklingi sem erindið beinist að.

Þegar kvartað er yfir meintu broti skal greina frá dagsetningu og tímasetningu miðlunar efnisins, eftir því sem við á, og gefa nákvæma lýsingu á atvikum. Þá skal rökstutt hvers vegna atvikið er talið vera brot á lögum.

Starfsreglur fjölmiðlanefndar

Leiðbeiningar um kvartanir til fjölmiðlanefndar og rétt til andsvara

Persónuverndarstefna fjölmiðlanefndar