Starfsfólk

  • Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri, elfa [hjá] fjolmidlanefnd.is  

Elfa Ýr er fjölmiðla- og fjarskiptafræðingur að mennt. Hún lauk B.A.-námi í bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1994, prófi í hagnýtri fjölmiðlun við sama skóla árið 1995 og hefur lokið tveimur meistaragráðum í fjölmiðlun og boðskiptum. Elfa Ýr lauk meistaraprófi í fjölmiðlunar-, margmiðlunar- og fjarskiptafræðum frá Georgetown University í Bandaríkjunum árið 2000, með sérstakri áherslu á stefnumótun í fjölmiðla- og fjarskiptamálum. Einnig lauk hún meistaranámi í fjölmiðla- og ímyndarfræðum frá University of Kent í Bretlandi árið 1996. Frá 2006 til 2011 starfaði Elfa Ýr sem deildarstjóri fjölmiðladeildar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu en starfaði áður m.a. við dagskrárgerð og blaða- og fréttamennsku í lausamennsku. Elfa Ýr hefur verið stundakennari við Háskóla Íslands í 15 ár og kennt m.a. menningarfræði, fjölmiðlafræði og fjölmiðlarétt. Hún hefur birt fjölda ritrýndra greina og blaðagreina á sviði fjölmiðlafræði og fjölmiðlaréttar, bæði hér á landi og erlendis. Elfa Ýr leiddi stefnumótunarvinnu ráðuneytisins á sviði fjölmiðlamála í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, ásamt því að stýra fjölda verkefna. Elfa Ýr er einn höfunda fjölmiðlafrumvarps sem varð að lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 og kom að gerð frumvarps til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, sem varð að lögum nr. 23/2013. Elfa Ýr var starfsmaður útvarpsréttarnefndar um tveggja ára skeið og starfaði í fjölmiðladeild sænska menningarmálaráðuneytisins og í sænska fjölmiðlaeftirlitinu á árinu 2010. Hún var formaður stýrinefndar Evrópuráðsins um fjölmiðla og upplýsingasamfélagið árin 2016-2017 og hefur einnig verið varaformaður nefndarinnar 2011 og 2018-2019. Í stýrinefnd Evrópuráðsins sitja fulltrúar allra 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Elfa Ýr hefur haldið fjölmörg erindi og stýrt málþingum um tjáningarfrelsi, frelsi til upplýsinga og fjölmiðlalöggjöf í ríkjum álfunnar sem fjölmiðlasérfræðingur á vegum Evrópuráðsins á undanförnum 12 árum. Elfa hóf störf hjá fjölmiðlanefnd 2011.

  • Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, lögfræðingur, heiddis [hjá] fjolmidlanefnd.is 

Heiðdís Lilja er lögfræðingur og píanókennari að mennt. Hún lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2014 og píanókennaranámi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1998. Lokaritgerð hennar við Háskólann í Reykjavík fjallaði um réttinn til að gleymast. Hún starfaði við blaða- og fréttamennsku um þrettán ára skeið, 2001-2014, fyrst á Nýju lífi sem blaðamaður og ritstjóri en einnig á 24 stundum, Fréttatímanum og á fréttastofu RÚV meðfram laganámi. Hún var stundakennari í áfanganum Fjölmiðlar, siðferði og lög við Háskólann á Bifröst á vorönn 2017 og 2018. Heiðdís hóf störf hjá fjölmiðlanefnd 2014.

  • Anton Emil Ingimarsson, lögfræðingur, anton [hjá] fjolmidlanefnd.is 

Anton Emil er lögfræðingur að mennt. Hann lauk meistaraprófi í lögfræði frá Lagadeild Háskóla Íslands árið 2018. Hann hefur sérhæft sig í lögfræði og tækni, persónuvernd og mannréttindum. Lokaritgerð Antons Emils við Háskóla Íslands fjallaði um auðkennisþjófnað (e. identity theft) í samhengi íslenskra laga með áherslu á slíka háttsemi á internetinu, þá sérstaklega samfélagsmiðlum. Anton hóf störf hjá fjölmiðlanefnd 2019.