Starfsfólk

  • Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri, elfa [hjá] fjolmidlanefnd.is  

Elfa Ýr er fjölmiðla- og fjarskiptafræðingur að mennt. Hún lauk B.A.-námi í bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 1994, prófi í hagnýtri fjölmiðlun við sama skóla árið 1996 og hefur lokið tveimur meistaragráðum í fjölmiðlun og boðskiptum, þ.e. í fjölmiðlunar-, margmiðlunar- og fjarskiptafræðum frá Georgetown University í Bandaríkjunum árið 2000 og í fjölmiðla- og ímyndarfræðum frá University of Kent í Bretlandi árið 1995.

Frá 2006 til 2011 starfaði Elfa Ýr sem deildarstjóri fjölmiðladeildar í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, en starfaði áður m.a. við dagskrárgerð, blaða- og fréttamennsku. Hún hefur leitt stefnumótunarvinnu ráðuneytisins á sviði fjölmiðlamála undanfarin ár og stýrt fjölda verkefna. Hún m.a. starfsmaður útvarpsréttarnefndar um tveggja ára skeið og stundakennari í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands um 12 ára skeið. Þá var hún kosin formaður Stýrinefndar Evrópuráðsins um fjölmiðla og upplýsingasamfélagið í lok ársins 2015 en í nefndinni sitja fulltrúar allra 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. 

  • Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, lögfræðingur, heiddis [hjá] fjolmidlanefnd.is 

Heiðdís Lilja er lögfræðingur og píanókennari að mennt. Hún lauk meistaraprófi í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2014 og píanókennaranámi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1998. Hún starfaði við blaða- og fréttamennsku frá árinu 2001-2014, fyrst á Nýju lífi sem blaðamaður og síðar ritstjóri, en svo á 24 stundum, Fréttatímanum og á fréttastofu RÚV. Hún hefur jafnframt starfað sem stundakennari við Háskólann á Bifröst.

  • Helga María Pálsdóttir lögfræðingur, helgamaria  [hjá] fjolmidlanefnd.is 

Helga María er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið tveimur meistaragráðum frá Háskólanum í Lundi. Annars vegar meistaraprófi í evrópskum viðskiptarétti og hins vegar meistaraprófi í stjórnun. Helga María hefur jafnframt aflað sér réttinda til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum og hefur starfað sem lögmaður og lögfræðingur um árabil. Lokaritgerð Helgu Maríu við Háskólann í Lundi fjallaði um hvort nýjasta dómaframkvæmd Evrópudómstólsins benti til þess að dómstóllinn væri að reyna að opna á möguleikann á að Evrópusambandið gerðist aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu, en hún birtist í EU Law Review, Vol. I, 2017.