Stjórnsýsla

Af sögulegum ástæðum hefur verið mun meira eftirlit með hljóð- og myndmiðlum en prentmiðlum. Stjórnsýslustofnanir/nefndir þær, sem eiga að framfylgja lögum um fjölmiðla, hafa margar hverjar aðeins það hlutverk að framfylgja lögum um hljóð- og myndmiðla, en þó eru ýmis dæmi um að þeim sé jafnframt falið að framfylgja tilteknum lögum sem varða fjölmiðla í víðtækari skilningi, t.d. banni við auglýsingum á áfengi og tóbaki. Ástæða þessa er sú að löggjöfin sem gildir um prentmiðla er mun minni í sniðum en löggjöfin fyrir sjónvarp og hljóðvarp. Í fjölmiðlalögum eru því líkt og í lögum nágrannaríkja okkar fjölmörg ákvæði sem aðeins eiga við um hljóð- og myndmiðla.

Stjórnsýslustofnanir innan EES hafa yfirleitt það hlutverk að veita leyfi til hljóð- og myndmiðlunar; hafa eftirlit með efnisinnihaldi (svo sem reglum um auglýsingar, efni sem inniheldur klám og ofbeldi; að lýðræðislegum grundvallarreglum sé fylgt í fréttum og fréttatengdu efni); hafa eftirlit með því að fjölmiðlar starfi lögum samkvæmt og geti gripið til viðeigandi aðgerða (svo sem áminninga, sekta og leyfissviptinga) fari fjölmiðlaþjónustuveitendur ekki að lögum. Þá hafa þessar stofnanir einnig hlutverki að gegna við skipulagningu og samræmingu starfsumhverfis fjölmiðla í hverju landi fyrir sig.

Öll lönd Evrópu hafa sjálfstæðar fjölmiðlastofnanir/nefndir sem njóta sjálfstæðis að því leyti að þær eru ekki hluti af ráðuneytum og njóta sjálfstæðis gagnvart hinu pólitíska valdi. Slíkt sjálfstæði er reynt að tryggja með því að lágmarka eins og kostur er vald ráðherra við skipun stjórna/nefnda og með því að úrskurðir slíkra stofnana séu fullnaðarúrlausnir á stjórnsýslustigi eða einungis kæranlegar til sjálfstæðra áfrýjunarnefnda. Slíkar sjálfstæðar stjórnsýslustofnanir/nefndir hafa eflst með aukinni samkeppni á fjölmiðlamarkaði, m.a. þegar útvarpsrekstur var gefinn frjáls í mörgum löndum Vestur-Evrópu upp úr 1980. Þess ber að geta að Ísland er síðasta ríkið í Evrópu sem hefur komið á fót sjálfstæðri stjórnsýslunefnd sem sér um eftirfylgni löggjafar um fjölmiðla.

Stjórnsýslustofnanir/nefndir í fjölmiðlamálum eiga það svo flestar sameiginlegt að hafa eftirlit með bæði einkareknum og ríkisreknum fjölmiðlum. Stjórnsýslustofnanir/nefndir á sviði fjölmiðlamála eru ólíkar að formi. Í sambandsríkjum eins og Þýskalandi eru hljóð- og myndmiðlunarleyfisveitingar t.d. í höndum sambandsríkjanna þar sem stofnanir í hverju sambandsríki um sig sjá um að framfylgja lögum. Í flestum Evrópuríkjum er þó aðeins ein stjórnsýslustofnun/nefnd sem hefur eftirlit með og vinnur að stefnumörkun á sviði fjölmiðla. Þá er mikill munur á stærð slíkra eftirlitsaðila. Í fjölmennustu löndum ESB eru rúmlega 1.000 manns að störfum en aðeins nokkrir starfsmenn eru að störfum í slíkum stofnunum/nefndum í fámennustu ríkjunum innan EES.

Starfsreglur fjölmiðlanefndar

Málsmeðferðarreglur fjölmiðlanefndar

Leiðbeiningar um kvartanir til fjölmiðlanefndar og rétt til andsvara

Persónuverndarstefna fjölmiðlanefndar