Álit fjölmiðlanefndar um brot Ríkisútvarpsins vegna umfjöllunar um einkalíf barns í hljóðvarpsþættinum Grínistar hringborðsins á Rás 2 Ríkisútvarpsins

Fjölmiðlanefnd ákvað á fundi sínum þann 5. mars sl. að senda frá sér álit vegna brots Ríkisútvarpsins ohf. á ákvæði 26. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla sem fjallar um lýðræðislegar grundvallarreglur. Brotið varðar umfjöllun um einkalíf barns í hljóðvarpsþættinum Grínistar hringborðsins á Rás 2 Ríkisútvarpsins.

Upphaf málsins má rekja til þess að fjölmiðlanefnd barst kvörtun sem leiddi til þess að nefndin ákvað að taka til skoðunar hvort Ríkisútvarpið hefði brotið gegn 26. gr. laga um fjölmiðla. Var sú ákvörðun m.a. tekin í ljósi þess að Ríkisútvarpið á í starfsháttum sínum skv. 4. tölul. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu að virða friðhelgi einkalífs í fréttum og dagskrárefni nema lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins og upplýsingaréttur almennings krefjist annars. Kvörtunin varðaði umfjöllun um einkalíf barns í þættinum Grínistar hringborðsins á Rás 2 en í umfjölluninni kom m.a. fram nafn barnsins auk þess sem tilgreindur var bekkur þess og skóli í tengslum við lýsingu á þjófnaði.

Var það álit fjölmiðlanefndar að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn ákvæði 26. gr. laga um fjölmiðla. Að mati nefndarinnar var friðhelgi einkalífs barnsins ekki virt með umræðunni auk þess sem umfjöllunin hafi ekki verið réttlætt með vísan til lýðræðishlutverks fjölmiðlaveitunnar né upplýsingaréttar almennings þar sem umfjöllunin tengdist ekki á nokkurn hátt almennri þjóðfélagsumræðu.

Það var því álit fjölmiðlanefndar að með umfjöllun í þættinum Grínistar hringborðsins þann 14. september 2013 hafi Ríkisútvarpið brotið gegn friðhelgi einkalífs þess barns sem fjallað var um og þar með brotið gegn ákvæði 26. gr. laga um fjölmiðla.

Álitið í máli Ríkisútvarpsins ohf. má nálgast hér.