Óþarfar umferðarreglur?

Takmarkað starfsöryggi blaðamanna dregur úr ritstjórnarlegu sjálfstæði og einsleitni stjórnenda hefur áhrif á fréttamat. Þetta var á meðal þess sem fram kom á málþingi fjölmiðlanefndar og Blaðamannafélags Íslands um ritstjórnarlegt sjálfstæði þann 18. september 2014.

Erindi á málþinginu fluttu Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands, Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri 365 miðla, Hallgrímur Thorsteinsson, ritstjóri DV, og Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar. Arna Schram, fjölmiðlanefndarmaður og fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands, stýrði umræðum.

Eftir framsöguerindi spunnust líflegar umræður þar sem m.a. var rætt um uppsagnir ritstjóra, starfsöryggi blaðamanna, uppsagnir eldri blaðamanna og ráðningar ungs fólks á ritstjórnir fréttamiðla, niðurskurðarkröfur til fjölmiðla, álag á ritstjórnum og mikilvægi þess að blaðamenn fari eftir eigin sannfæringu við fréttamat. Þá kom fram að stjórnvöld þurfi að sýna meiri áhuga á því að viðhalda fjölmiðlum sem séu fjölbreyttir og tryggja margræði á markaði, lýðræðisins vegna.

Samantekt á erindum kvöldsins má lesa hér: Málþing BÍ og fjölmiðlanefndar um ritstjórnarlegt sjálfstæði.