Bretar eru klofnir í afstöðu sinni til nýrrar siðanefndar, IPSO, sem hóf störf í septemberbyrjun. Nefndin er rekin af fjölmiðlafyrirtækjunum sjálfum og var sett á laggirnar í kjölfar Leveson-rannsóknarinnar á símhlerunum og öðrum ólögmætum aðferðum breskra blaðamanna við fréttaöflun. Á meðal gagnrýnenda IPSO eru rithöfundurinn J.K. Rowling og Hugh Grant. Þau segja starfsemi nefndarinnar bitlausa.
Forsaga nýju siðanefndarinnar, IPSO (e. Independent Press Standards Committee), er sú að árið 2011 skipaði David Cameron, forsætisráðherra Bretlands rannsóknarnefnd undir forystu Brians Leveson lávarðs. Nefndinni var ætlað að rannsaka bresk dagblöð, gæði þeirra og siðferðileg viðmið. Kveikja rannsóknarinnar voru hneykslismál sem tengdust síðdegisblöðum í eigu Rupberts Murdoch en blöðin höfðu meðal annars orðið uppvís að því að birta fréttir sem aflað var með ólögmætum símhlerunum. Í hópi þeirra sem urðu fyrir barðinu á slíkum hlerunum voru dægurstjörnur, stjórnmálamenn og meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar. Einnig komst upp að blaðamenn News of the World hefðu hlerað talhólf Milly Dowler, táningsstúlku sem hafði verið myrt, og jafnframt eytt skilaboðum úr talhólfi stúlkunnar en það gaf foreldrum hennar falskar vonir um að stúlkan væri ef til vill ennþá á lífi.
Hundelt af blaðamönnum
Tugir vitna voru leiddir fyrir rannsóknarnefnd Leveson frá nóvember 2011 til júní 2012. Í þeirra hópi var rithöfundurinn J.K. Rowling sem upplýsti meðal annars að blaðamaður hefði reynt að setja sig í samband við hana með því að lauma bréfi í skólatösku fimm ára gamallar dóttur hennar. Leikkonan Sienna Miller lýsti því hvernig hún hafði verið hundelt af 10-15 blaðamönnum að næturlagi og Hugh Grant sagði farir sínar í samskiptum við breska fjölmiðla heldur ekki sléttar.
Svört rannsóknarskýrsla
Eftir ítarlega rannsókn skilaði Leveson 2000 blaðsíðna skýrslu í nóvember 2012. Þar fengu breskir prentmiðlar falleinkunn fyrir að hafa hunsað eigin siðareglur um langt skeið. Leveson sagði þáverandi siðanefnd, Press Complaints Commission, hafa brugðist hlutverki sínu og lagði til að sett yrði á fót ný, sjálfstæð nefnd til að hafa eftirlit með breskum prentmiðlum og taka við kvörtunum um fjölmiðlaumfjallanir. Sagði hann að fjölmiðlum ætti ekki að líðast þau vinnubrögð að „gefa sér einkunn fyrir eigið heimanám“. Jafnframt taldi Leveson mikilvægt að hlutverk slíkrar nefndar yrði bundið í lög og að hún fengi lagaheimild til að sekta fjölmiðla um allt að eina milljón punda.
Breska stjórnin klofnaði í afstöðu sinni
Frá því Leveson skýrslan kom út hafa verið skiptar skoðanir á því í Bretlandi hvort breska ríkið ætti yfir höfuð að hafa afskipti af prentmiðlum eða hvort nýja nefndin ætti að vera á vegum blaðanna sjálfra. Þá hefur verið ágreiningur um það hvort hlutverk nefndarinnar ætti að vera bundið í lög og þá með hvaða hætti. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði að að slíkar lagasetningar gætu ógnað frelsi fjölmiðla en Nick Clegg, leiðtogi Frjálslyndra demókrata taldi lagasetningu nauðsynlega til að tryggja sjálfstæði fjölmiðlanna.
Í mars 2013 náðu þrír stærstu stjórnmálaflokkar Bretlands loks samkomulagi um breytingar á eftirliti með prentmiðlum. Niðurstaðan var sú að gerður var svokallaður „Royal Charter“ samningur um hlutverk eftirlitsnefndar sem byggir á því að blöðin setji sér eigin reglur. Svipaður samningur hafði áður verið gerður um hlutverk ríkisfjölmiðilsins BBC.
Fjármögnuð af fjölmiðlafyrirtækjum
Ný siðanefnd, IPSO, var stofnuð 8. september sl. og var siðanefndin Press Complaints Commission lögð niður. Starfsemi IPSO er fjármögnuð af fjölmiðlafyrirtækjunum sjálfum og hefur nefndin það markmið að sjá til þess að prentmiðlar standist kröfur Leveson skýrslunnar um gæði og siðferðileg viðmið í blaðamennsku. Um leið hefur formaður nefndarinnar varað við því að almenningur geri sér of miklar væntingar í þeim efnum. IPSO sækir hins vegar ekki umboð sitt til „Royal Charter“ samningsins og hefur ekki sóst eftir viðurkenningu á grundvelli hans. Þess skal getið að IPSO hefur eingöngu eftirlit með prentmiðlum í breskri lögsögu en fjölmiðlaeftirlitið Ofcom hefur áfram eftirlit með hljóð- og myndmiðlum, eins og verið hefur.
Gagnrýnd af Hacked Off samtökunum
IPSO nefndin hefur verið harðlega gagnrýnd, m.a. af þeim einstaklingum sem telja breska blaðamenn hafa brotið gróflega á friðhelgi síns einkalífs. Þar á meðal eru J.K. Rowling, Hugh Grant og foreldrar Milly Dowler, sem öll eru meðlimir í Hacked Off aðgerðasamtökunum. Telja þau starfsemi IPSO nefndarinnar ekki trúverðuga, þar sem hún gangi í raun út á það að fjölmiðlar hafi eftirlit með sjálfum sér.
Gagnrýnin hefur þó ekki hindrað meirihluta breskra dagblaða og tímarita í að skrá sig hjá IPSO og lúta þannig eftirliti nefndarinnar. Á meðal dagblaða sem ekki hafa slegist í þann hóp eru Financial Times, The Guardian og The Independent.