Fimmtungur birtingafjár í Danmörku fer til erlendra fyrirtækja


-Ný dönsk rannsókn á stöðu og gæðum danskra fjölmiðla og siðfræði í blaða- og fréttamennsku

Um 51% fjármagns sem varið er í vefauglýsingar í Danmörku rennur til erlendra fyrirtækja á borð við Google og Facebook. Þetta þýðir að 20% alls birtingafjár í Danmörku fer til erlendra fyrirtækja. Þessar staðreyndir og fleiri er að finna í nýrri og ítarlegri rannsókn, þar sem rýnt er í stöðu og þróun á dönskum fjölmiðlamarkaði. 

Menningarstofnun Danmerkur, Kulturstyrelsen, birti í síðustu viku tvær skýrslur undir yfirskriftinni „Mediernes udvikling i Danmark 2014“. Önnur heitir „Rapporten om Medieetik“ og fjallar um siðfræði blaða- og fréttamennsku á dönskum fjölmiðlum en hin heitir „Rapport om journalistiske kvaliteter“ og fjallar um inntak og efnisleg gæði danskra fjölmiðla. Í síðarnefndu skýrslunni er meðal annars fjallað um breytingar á fjölmiðlanotkun, efni, fjárhag fjölmiðla og fækkun starfsmanna á fjölmiðlum.

Færri greinar, meiri gæði

Niðurstöður sýna að framleiðsla fjölmiðlaefnis hefur dregist saman á hefðbundnum fjölmiðlum með þeim hætti að færri einingar verða til á hverri ritstjórn. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að framboð miðla hafi aukist á tímabilinu 1999-2012 og fleiri morgunblöð, sérblöð og sjónvarpsstöðvar komið á markað. En minna er meira: Þótt greinum og dagskrárliðum hafi fækkað hafa gæðin aukist. Skýrsluhöfundar segja meiri vinnu lagða í fjölmiðlaefni en áður og nefna viðskiptafréttir á tímabilinu 1999-2014 sem dæmi um þessa þróun. Fréttir úr viðskiptalífinu hafi orðið gagnrýnni á tímabilinu, auk þess sem þróunin hafi verið sú að byggja fréttir á fleiri heimildarmönnum. Vefmiðlar skera sig þó úr hópnum því þar eru fréttir almennt styttri og byggja á færri heimildum.

Stjórnmálamenn og almenningur ósammála um gæði fjölmiðla

Skýrsluhöfundar könnuðu hvaða dönsku fjölmiðlar skoruðu hæst á gæðaskalanum í huga almennings, blaðamannanna sjálfra og stjórnmálamanna. Í ljós kom að blaðamenn og stjórnmálamenn töldu efni í hefðbundnum morgunblöðum búa yfir meiri gæðum en sjónvarpsefni en almenningur var á gagnstæðri skoðun og gaf efni í sjónvarpi sinn gæðastimpil.  Þegar spurt var hvort gæði fréttamiðla hefðu aukist eða minnkað töldu blaðamennirnir sjálfir að staðan væri svipuð nú og áður og var almenningur sama sinnis. En stjórnmálamennirnir voru ekki á sömu skoðun og almenningur og fjölmiðlafólk: Meira en helmingur danskra stjórnmálamanna taldi gæði fréttamiðla þar í landi hafa dalað. Þrátt fyrir minnkandi tiltrú stjórnmálamanna á fjölmiðlum virðast þeir þó heldur hafa dregið úr kvörtunum til dönsku siðanefndarinnar. Árið 2012 bárust siðanefndinni mun færri kvartanir frá dönskum stjórnmálamönnum, stjórnmálaflokkum og opinberum starfsmönnum en fyrri ár. Um 30-40% þeirra sem kvörtuðu til dönsku siðanefndarinnar á tímabilinu 1992-2014 voru einstaklingar en kvörtunum lögaðila og fyrirtækja fjölgaði hlutfallslega á sama tímabili, úr 18% árið 1992 í 31% árið 2012. Þetta rekja skýrsluhöfundar til þess að viðskiptablaðamennsku hafi vaxið fiskur um hrygg, með tilheyrandi óvæginni umræðu um helstu persónur og leikendur í viðskiptalífinu.

Google og Facebook fá helming birtingarfjár á netinu

Tekjur danskra fjölmiðla drógust saman um 9% á tímabilinu 2008-2011 og bitnaði samdrátturinn fyrst og fremst á hefðbundnum prentmiðlum (dagblöðum, vikublöðum, tímaritum, héraðsfréttablöðum og auglýsingablöðum). Þá fór stór hluti birtingafjár úr landi eða 20% sem skýrist fyrst og fremst af því að auglýsingatekjur á netinu runnu í stórum stíl til erlendra fyrirtækja, á borð við Google, Facebook og Linkedin eða 51% birtingafjár á netinu. Gera skýrsluhöfundar ráð fyrir því að þessar tölur eigi eftir að hækka á næstu árum. Nánari upplýsingar um skiptingu birtingafjár og skýringarmyndir má nálgast hér.

Starfsfólki á fjölmiðlum fækkaði um 8% frá 2008-2011, sem jafngildir 2015 stöðugildum, en tæplega 25.000 manns störfuðu við danska fjölmiðla árið 2011, ýmist í fullu starfi eða hlutastarfi. Flestir Danir smelltu sér leið inn á netið í gegnum fartölvu árið 2013 eða 79% netnotenda þar í landi. Stafrænir símar voru næstvinsælastir en 56% netverja fóru á netið í gegnum síma á meðan einungis 34% notuðu sér spjaldtölvur til að tengjast óravíðáttum netsins.