Ákvörðun nr. 2/2015 um sýningu á efni sem ekki er við hæfi barna fyrir vatnaskil á Stöð 2 Sport

Fjölmiðlanefnd tók þann 10. október 2014 til skoðunar útsendingu á dagskrárliðnum UFC Fight Night, sem sýndur var á Stöð 2 Sport laugardaginn 4. október 2014. Dagskrárliðurinn var sýndur í beinni útsendingu frá Svíþjóð og hófst útsending hans hér á landi kl. 19:00 eða þremur tímum fyrir vatnaskil, sbr. a-lið 2. mgr. 28. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Taldi nefndin að með útsendingunni hefði hugsanlega verið brotið gegn ákvæði 1. mgr. 28. gr. um vernd barna gegn skaðlegu efni.

Meðferð málsins og viðræður fjölmiðlanefndar við 365 miðla leiddu til sáttar í málinu, sem undirrituð var 17. mars 2015. Sáttin felur það í sér að 365 miðlar skuldbinda sig til þess að birta framvegis skýra viðvörun á undan sýningum frá keppnum í blönduðum bardagalistum (mixed martial arts, MMA), hvort heldur sem er í UFC mótaröðinni eða með öðrum hætti, og auðkenna efnið með sjónrænu merki, sem gefur til kynna að efnið sé ekki við hæfi barna, allan þann tíma sem efninu er miðlað. Sama regla skal gilda við sýningu 365 miðla frá keppnum í öðrum bardagaíþróttum, sem innihalda sýnilegt og verulegt ofbeldi sem talist getur skaðlegt velferð barna. 

Með þessum skilyrðum telur fjölmiðlanefnd að gætt sé jafnvægis milli sjónarmiða um vernd barna gegn fjölmiðlaefni sem skaðað getur velferð þeirra, tjáningarfrelsis og réttar barna og ungmenna til aðgangs að upplýsingum og efni af ýmsum uppruna í fjölmiðlum, sbr. 17. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem lögfestur var hér á landi með lögum nr. 19/2013.

Nefndin mun kynna inntak sáttarinnar fyrir öðrum myndmiðlum, sem miðla efni í línulegri dagskrá, og hvetja þá  til að fylgja sömu reglum við auðkenningu á bardagaíþróttum af því tagi sem hér hefur verið lýst.

Ákvörðun nr. 2/2015, dags. 23. mars 2015