Fjölmiðlanefnd tók þann 10. október 2014 til skoðunar sýningu á auglýsingastiklu úr kvikmyndinni Borgríki 2, sem sýnd var á Stöð 2 Sport laugardaginn 4. október 2014. Auglýsingastiklan var sýnd í auglýsingahléi sem gert var á útsendingu dagskrárliðarins UFC Fight Night á Stöð 2 Sport., sem hófst kl. 19.00 og lauk skömmu fyrir kl. 21.00. Taldi nefndin að með sýningu auglýsingastiklunnar hefði hugsanlega verið brotið gegn ákvæði 1. mgr. 28. gr. laga um fjölmiðla um vernd barna gegn skaðlegu efni. Samkvæmt vatnaskilaákvæði fjölmiðlalaga er eingöngu heimilt að sýna efni, sem ekki er við hæfi barna, í línulegri dagskrá eftir kl. 22 á föstudags- og laugardagskvöldum og eftir kl. 21 önnur kvöld vikunnar og til 5 á morgnana.
Myndin sem stiklan vísaði til er íslensk kvikmynd, bönnuð börnum innan 16 ára. Í auglýsingastiklunni brá fyrir ofbeldi og ógnandi tilburðum með skotvopn, sem og meðferð fíkniefna í tengslum við kynferðislegar athafnir. Efni hennar og framsetning, þar með talið hljóð og klipping, var að mati fjölmiðlanefndar til þess fallið að vekja ótta hjá ungum og/eða viðkvæmum börnum. Við meðferð málsins óskaði fjölmiðlanefnd sérstaklega eftir aldursmati NICAM í Hollandi, sem stendur að baki Kijkwijzer-aldursmatskerfinu og er samningsaðili FRÍSK (Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði). Niðurstaða mats NICAM var að ofbeldisatriði í þeirri kynningarstiklu sem um ræðir leiddu til 12 ára aldursmats.
Í vatnaskilaákvæði laga um fjölmiðla er enginn greinarmunur gerður á efni sem fengið hefur aldursmatið „6“ og „16“ ára. Fjölmiðlanefnd hefur túlkað vatnaskilaákvæðið svo að það taki til efnis sem er ekki við hæfi barna yngri en 12 ára. Efni með aldursmatið „12“ og hærra er því óheimilt að sýna fyrir vatnaskil.
Var það niðurstaða fjölmiðlanefndar að þar sem nefnd auglýsingastikla úr Borgríki 2 var sýnd á laugardagskvöldi fyrir kl. 22:00, eða fyrir þau tímamörk vatnaskila sem miðað er við í lögum um fjölmiðla, hafi 365 miðlar brotið gegn ákvæði 1. og 2. mgr. 28. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.
Við meðferð málsins féllust 365 miðlar á að birting auglýsingastiklunnar hafi verið í andstöðu við ákvæði fjölmiðlalaga. Jafnframt kom fram að 365 miðlar hafi komið upp verklagi innan fyrirtækisins sem eigi að tryggja að slíkt hendi ekki aftur. Með vísan til þess og til 1. málsl. 5. mgr. 54. gr. laga um fjölmiðla hefur fjölmiðlanefnd ákveðið að falla frá sektarákvörðun í málinu.