Hverjar eru skyldur fjölmiðla í aðdraganda kosninga? Hvaða lagareglur gilda um kosningaumfjöllun fjölmiðla hérlendis og erlendis? Hvernig hefur framkvæmdin verið og hverju þarf að breyta?
Fundur fólksins er lífleg þriggja daga hátíð um samfélagsmál í Norræna húsinu og næsta nágrenni þess dagana 11.-13. júní. Á henni verður boðið til samtals á milli almennings, stjórnmálamanna og frjálsra félagasamtaka, þar sem rætt verður um pólitíska hugmyndafræði á eilítið annan hátt en færi gefst á í pólitísku þrasi hversdagsins.
Á dagskránni verða fundir, málþing, tónlistaratriði og líflegar uppákomur frá morgni til kvölds, bæði innan- og utandyra.
Fjölmiðlanefnd skipuleggur málstofu í hátíðarsal Norræna hússins föstudaginn 12. júní undir yfirskriftinni „Hverjar eru skyldur fjölmiðla í aðdraganda kosninga?“ Málstofan hefst klukkan 14 og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Þátttakendur eru:
Katrín Jakobsdóttir, þingmaður og fyrrv. mennta- og menningarmálaráðherra.
Finnur Beck, formaður nefndar mennta- og menningarmálaráðherra um aðgang stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga sem skilaði tillögum 2013.
Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttamaður á Ríkisútvarpinu.
Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, lögfræðingur fjölmiðlanefndar.
Málstofustjóri er Arna Schram, nefndarmaður í fjölmiðlanefnd. Miðað er við að málstofan standi til kl. 15.