Hvernig skiptist birtingafé milli fjölmiðla 2017?

Fjölmiðlanefnd hefur tekið saman upplýsingar um skiptingu birtingafjár milli fjölmiðla árið 2017 en tölurnar byggja á upplýsingum frá stærstu birtingahúsum landsins: ABS fjölmiðlahúsi, Birtingahúsinu, MediaCom, H:N Markaðssamskiptum og Ratsjá Media (Ratsjá og Pipar-TBWA.) 

Birtingafé er það fé sem fyrirtæki verja til auglýsinga í fjölmiðlum. Samantekt fjölmiðlanefndar leiddi í ljós að árið 2017 ráðstöfuðu stærstu birtingahúsin á Íslandi auglýsingafé fyrir rúma fimm milljarða króna eða alls 5.415.658.414 sem var heldur lægri upphæð en árið 2016 þegar sömu birtingahús keyptu auglýsingar fyrir 5.512.108.040 kr. 

Niðurstöður um skiptingu birtingafjár fyrir árið 2017 sýna jafnframt að prentmiðlar héldu velli sem stærsti auglýsingavettvangurinn á íslenskum markaði, auk þess sem gera má ráð fyrir að hlutdeild þeirra hafi verið töluvert meiri en þessar tölur gefa til kynna, því að auglýsingar og kynningar eru í mörgum tilfellum keyptar milliliðalaust af prentmiðlunum sjálfum. Sjónvarp hlaut næststærsta hlutann af auglýsingakökunni, líkt og fyrri ár. Birtingahús ráðstöfuðu þó hlutfallslega minna fé til prentmiðla og sjónvarpsmiðla árið 2017 en 2016. Á móti var meira fé ráðstafað til útvarps, innlendra og erlendra vefmiðla og í flokkinn „annað“ en í þann flokk falla m.a. auglýsingar á útiskiltum og í kvikmyndahúsum.

Skipting birtingafjár milli miðla 2017 (smellið á myndir/töflur til að stækka)

Þegar auglýsingar á vefmiðlum eru teknar út fyrir sviga sést að hlutfallsleg skipting milli innlendra og erlendra vefmiðla breyttist lítillega frá fyrra ári, þegar hlutdeild erlendra vefmiðla var 17,6% en hlutdeild innlendra vefmiðla 82,4%. Árið 2017 var hlutdeild erlendra vefmiðla 20,9% á móti 79,1% hlutdeild innlendra miðla.

Skipting birtingafjár milli vefmiðla 2017

Til samanburðar má geta þess að á evrópskum auglýsingamarkaði er staðan nokkuð frábrugðin. Þar hlutu vefmiðlar stærstan skerf af auglýsingakökunni árið 2016, í fyrsta sinn, eða 5,4 milljörðum stærri hlut en sjónvarpsmiðlar sem báru þá næstmest úr býtum. Heildaraukning í auglýsingasölu á evrópskum markaði 2011-2016 nam 14% og var rakin til þess að meira fé var ráðstafað til auglýsingakaupa á vefmiðlum á þessu tímabili en áður. Nánari upplýsingar um stöðu og horfur á evrópskum auglýsingamarkaði má nálgast hér.

Skýrt skal tekið fram að samantekt fjölmiðlanefndar byggist eingöngu á upplýsingum um auglýsingakaup sem gerð eru fyrir milligöngu birtingahúsa en ekki á tölum vegna auglýsinga sem keyptar eru milliliðalaust af fjölmiðlunum sjálfum. Að sama skapi eru auglýsingar sem keyptar eru milliliðalaust af erlendum miðlum ekki inni í þessum niðurstöðum. Talið er að birtingahúsin ráðstafi um helmingi þess fjár sem fyrirtæki hér á landi verja til auglýsinga í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. 

Upplýsingar um skiptingu birtingafjár milli fjölmiðla geta gefið mikilvægar vísbendingar um stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði. Þetta er í fjórða sinn sem fjölmiðlanefnd birtir samantekt um skiptingu birtingafjár milli miðla. Fyrri niðurstöður eru aðgengilegar í ársskýrslum fjölmiðlanefndar, sem nálgast má á vef nefndarinnar.