Bretar íhuga styrki til fjölmiða

Í nýrri skýrslu (e. Cairncross Review) er fjallað um þær áskoranir sem breskir fjölmiðlar standa frammi fyrir vegna minnkandi tekna af auglýsingum og áskriftartekjum.  Skýrslan er unnin af Dame Frances Cairncross sem skipuð var af breskum stjórnvöldum á síðasta ári með það að markmiði að koma með tillögur um það hvernig hægt sé að tryggja faglega fjölmiðlun í Bretlandi til framtíðar. Skýrslan var gefin út í dag, 12. febrúar.

Skýrsluhöfundur telur að fækkun blaðamanna sem starfa á héraðsfréttamiðlum skili sér í lýðræðiskreppu. Bent er á að rannsóknarblaðamennska kosti mikla fjármuni og erfitt sé að fjármagna hana með auglýsingum og áskriftum. Slíkan markaðsbrest í framboði á faglegum fréttum er varða almannahag sé aðeins hægt að leiðrétta með opinberu inngripi. Þó að flest blöð, sem gefin séu út á landsvísu, og staðbundnir miðlar séu reknir með hagnaði þá fari stærsti hlutur hagnaðarins hjá mörgum útgefendum í að greiða niður skuldir eða lífeyrisskuldbindingar. Því hafi útgefendur verið að segja upp fólki, loka skrifstofum um allt land og hafi haft lítið aflögu til fjárfestinga og til að ráðast í nýsköpun sem nauðsynleg sé vegna mikilla tæknibreytinga.

Í skýrslunni er bent á að áskriftum dagblaða, bæði þeirra sem gefin eru út á landsvísu og staðbundinna miðla, hafi fækkað um helming frá árinu 2007 til ársins 2017 og fækki enn. Auglýsingatekjur prentmiðla hafi jafnframt minnkað um 69% á einum áratug. Mun færri starfi nú sem blaðamenn en áður, árið 2007 hafi stöðugildi verið 23.000 en nú séu þau aðeins 17.000 og fækki enn ört.

Skýrsluhöfundur hefur einnig miklar áhyggjur af útbreiðslu falsfrétta og telur nauðsynlegt að breska ríkisstjórnin marki stefnu um miðlalæsi til að tryggja að breskur almenningur geti metið hvort heimildir séu traustar, en rannsóknir sýna að fjórðungur Breta veit ekki hvernig eigi að finna staðfestingar á því að upplýsingar séu réttar. Fréttir eru í auknum mæli valdar af algóriþmum samfélagsmiðlanna og leitarvélanna sjálfra og birtast í fréttaveitum og leitargluggum notenda.

Í skýrslunni er lagt til að yfirburðir Facebook og Google á auglýsingamarkði verði rannsakaðir sérstaklega. Þá leggur skýrsluhöfundur einnig til að sett verði á laggirnar ný eftirlitsstofnun sem eigi að hafa það hlutverk að hafa eftirlit með sambandi fjölmiðla og tæknirisa, þar sem þeir hafi nú þegar tekið til sín stóran hluta af því auglýsingafé sem áður hafi verið notað til að greiða fyrir blaða- og fréttamennsku.

Lögð er áhersla á að styrkja verði faglega blaða- og fréttamennsku í Bretlandi en ekki dagblaðaiðnaðinn eins og hann er í dag. Bent er á að ekki eigi að styrkja gamaldags viðskiptamódel, heldur nýsköpun í fjölmiðlun. Helsu tillögur sem settar eru fram í skýrslunni eru:

  • Beinir styrkir til staðbundinna fréttamiðla með það að markmiði að styðja við blaða- og fréttamennsku og lýðræði.
  • Að samkeppnisyfirvöld hefji rannsókn á yfirburðastöðu Facebook og Google á auglýsingamarkaði og hvort félögin séu í raun í markaðsráðandi stöðu.
  • Að útgefendur og tæknirisar setji sér reglur sem tryggi að stóru tæknifyrirtækin meðhöndli útgefendur á sanngjarnan hátt. Eftirlitsstofnun fái það hlutverk að tryggja eftirfylgni með reglunum.
  • Að stjórnvöld setji sér stefnu um miðlalæsi til að vinna gegn útbreiðslu falsfrétta.
  • Að markaðsáhrif BBC verði skoðað og hvort breska ríkisútvarpið geti gert meira til að styrkja svæðisbundna einkamiðla, m.a. með því að hlekkja á síður þeirra og deila tæknilegri sérþekkingu.
  • Skattaafsláttur verði veittur fyrir útgefendur sem fjárfesta í blaðamennsku sem hefur það að markmiði að vinna að almannahag.
  • Að nýsköpun verði styrkt.
  • Að lækka virðisaukaskattsprósentu á áskriftum á netinu þannig að hún sé til samræmis við virðisaukaskattsprósentu blaðaáskrifta.

Til upplýsingar þá eru engir beinir ríkisstyrkir veittir til einkarekinna fjölmiðla í Bretlandi. Blaðaútgefendur fá þó óbeina ríkisstyrki þar sem ekki þarf að greiða virðisaukaskatt af áskriftartekjum af prentmiðlum.

Skýrsluna er að finna hér