Hið mikilvæga hlutverk fjölmiðla í samkomubanni

Traustur og reglubundinn fréttaflutningur hefur sjaldan skipt samfélagið meira máli en einmitt nú þegar búið er að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna og koma á samkomubanni á Íslandi. Fjölmiðlar hafa það hlutverk að koma mikilvægum upplýsingum á framfæri við almenning, vinna fréttaskýringar og setja erlendar fréttir í íslenskt samhengi. Til þess að fjölmiðlar geti sinnt þessu hlutverki þarf að viðurkenna sérstöðu þeirra og tryggja að þeir hafi tekjur til að upplýsa, fræða og skemmta. 

Þann 6. mars lýsti ríkislögreglustjóri yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónuveirunnar. Tíu dögum síðar var síðan sett samkomubann sem gildir í fjórar vikur. Við lifum nú á tímum þar sem á fimmta þúsund manna eru í sóttkví, yfir 400 manns hafa smitast af veirunni og stór hluti vinnandi fólks starfar í fjarvinnu. Faglegir og sjálfstæðir fjölmiðlar hafa það mikilvæga hlutverk að koma áríðandi upplýsingum á framfæri við almenning og miðla fréttum um stöðu mála.

Þegar hagkerfið dregst hratt saman og tekjur fyrirtækja minnka eykst á sama tíma ásókn almennings í fréttir. Fréttaþörfin verður meiri á sama tíma og tekjur fjölmiðla dragast mikið saman því auglýsinga- og áskriftartekjur minnka með versnandi fjárhag bæði fyrirtækja og heimila. Á sama tíma birtast fréttir af óvenju mikilli upplýsingaóreiðu og falsfréttum um COVID-19 á samfélagsmiðlum þar sem markmiðið er að grafa undan trausti almennings á heilbrigðisyfirvöldum. Þetta gerist einmitt þegar traust almennings gagnvart stjórnvöldum þarf að vera sem best. Þarna gegna fjölmiðlar einnig lykilhlutverki.  

Góð frammistaða íslenskra fjölmiðla

Íslenskir fjölmiðlar hafa almennt staðið sig afburða vel á undanförnum vikum og flutt faglegar og vel unnar fréttir, þætti og miðlað upplýsingum sem eiga brýnt erindi við almenning. Bæði Ríkisútvarpið og Sýn flytja nú morgunútvarpsþætti sína í sjónvarpi, miðla heimilda- og fréttaskýringaþáttum um kórónuveiruna, auk þess sem RÚV táknmálstúlkar fréttatíma. Þá hafa fjölmiðlar verið með beinar útsendingar á vef og miðlað fjölbreyttu efni á miðlum sínum. Fjölmiðlar hafa einnig brugðist við stöðunni með því að auka við efni fyrir sístækkandi hóp fólks sem þarf að halda sig heima.

Alls staðar í heiminum eru fréttamiðlar nú að reyna sitt ítrasta til að uppfylla væntingar almennings á þessum fordæmalausum tímum. Það gera þeir á sama tíma og fjárhagsleg staða þeirra flestra var afar slæm áður en gripið var til samkomubanns og útgöngubanns. Nú dragast tekjur fjölmiðla í heiminum enn hraðar saman. Norska fjölmiðlastofnunin hefur brugðist við þessu ástandi með því að greiða styrki til norskra fjölmiðla út fyrr en ella til að létta undir með þeim í ljósi mikilvægrar samfélagslegrar stöðu þeirra. Danska fjölmiðlanefndin vísar á víðtækar fjárhagsaðgerðir stjórnvalda til handa fyrirtækjum þar í landi, sem fela í sér að bjóða upp á neyðarlán til fjölmiðla í fjárhagserfiðleikum, og er nefndin jafnframt að endurskoða forsendur þeirra styrkja sem búið er að úthluta. Í Svíþjóð var 600 millj. sænskra króna úthlutað til 72 fjölmiðla í byrjun mars. Þetta vekur upp spurningar um það hver staða íslenskra fjölmiðla er og verður næstu vikurnar á sama tíma og miðlarnir gegna þessu mikilvæga upplýsingahlutverki.

Blaðamenn ekki á lista yfir starfsfólk í framlínu

Hér á landi hefur verið gefinn út listi yfir það starfsfólk sem er í framlínu og á forgang um aukna skóla- og leikskólaþjónustu, frístundastarf fyrir börn í 1. og 2. bekk og dagforeldraþjónustu. Á listanum, sem er í sífelldri endurskoðun, er að finna hin ýmsu störf í stjórnsýslunni, störf hjá viðbragðsaðilum, heilbrigðisstarfsfólk og starfsmenn sem vinna hjá sveitarfélögunum. Hvergi er þó að finna blaða- og fréttamenn sem gegna ekki síður mikilvægu hlutverki við að miðla fréttum og upplýsingum til almennings. Líkt og norska fjölmiðlastofnunin hefur bent á ættu blaða- og fréttamenn að teljast til þess starfsfólks sem er í framlínu og ætti að hafa forgang um aukna skóla- og leikskólaþjónustu. Fjölmiðlanefnd hefur komið þeim ábendingum á framfæri við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra í þeirri von að blaða- og fréttamönnum verði bætt á listann.

Fjölmiðlanefnd telur ástæðu til að minna á það krefjandi hlutverk sem fjölmiðlar gegna nú. Við sem samfélag erum algjörlega háð því mikilvæga starfi sem unnið er á fjölmiðlum. Mikilvægt er að fjölmiðlar hafi bæði fjárhagslegt bolmagn og að blaða- og fréttamenn séu í aðstöðu til að sinna því mikilvæga starfi á umbrotatímum.

Greinin birtist á eldri vef fjölmiðlanefndar þann 20. mars 2020 og var uppfærð kl. 20 sama dag með eftirfarandi tilkynningu: Borist hefur staðfesting frá ríkislögreglustjóra um að fjölmiðlafólki hjá fréttastofum með skilgreinda ritstjórn hafi verið bætt á lista almannavarnadeildar yfir starfsfólk í framlínustörfum. Starfsfólk í framlínustörfum hefur forgang að grunn- og leikskólaþjónustu, frístundastarfi og þjónustu dagforeldra vegna kórónuveirunnar.