Ákvörðun 5/2019: Brot Garðapóstsins á reglum um viðskiptaboð fyrir áfengi – 19. desember 2019

Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Valdimar Tryggvi Kristófersson, ábyrgðarmaður og eigandi Garðapóstsins, hafi brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með birtingu viðskiptaboða fyrir áfengi fimmtudaginn 6. júní 2019 í 22. tbl. 30. árg. Garðapóstsins, fyrir Sumarsólstöðumót Stella Artois sem fór fram 22. júní 2019 á vegum Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar.

Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum þar sem kvartað var yfir ætluðu broti Garðapóstsins á ákvæði 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla um bann við birtingu viðskiptaboða fyrir áfengi með birtingu auglýsingar fyrir Sumarsólstöðumót Stella Artois í Garðapóstinum. Í ákvörðun fjölmiðlanefndar kemur fram að ótvírætt sé að um auglýsingu er að ræða í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um fjölmiðla og þar með viðskiptaboð, sbr. 40. tölul. 1. mgr. 2. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að engar bjórflöskur eða bjórglös sjáist sé vakin athygli á vörutegund sem inniheldur meira en 2,25% áfengisinnihald með því að birta vörumerki hennar greinilega í heiti golfmótsins í auglýsingunni, og neðst í hægra horni hennar. Einnig sé vakin athygli á því í texta neðst í auglýsingunni að eftir umrætt golfmót yrði boðið upp á léttar veitingar og „auðvitað Stella Artois!“. Auglýsingin sé því ekki einungis auglýsing fyrir golfmót, eins og ábyrgðarmaður og eigandi Garðapóstsins taldi sig vera að auglýsa, heldur var henni ætlað að vekja sérstaka athygli á vörutegund og vörumerki Stella Artois. Að mati nefndarinnar féll því umrædd heilsíðuauglýsing fyrir Sumarsólstöðumót Stella Artois, sem fór fram 22. júní sl. á vegum GKG, og birtist fimmtudaginn 6. júní sl. í 22. tbl. 30. árg. Garðapóstsins, undir skilgreiningu 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla um viðskiptaboð fyrir áfengi.

Fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu í ljósi málatilbúnaðar ábyrgðarmanns Garðapóstsins. Bar einnig að líta til þess að ekki var um fyrsta brot að ræða. Við ákvörðun sektar var einnig tekið mið af tekjum Garðapóstsins af brotinu, sbr. 4. mgr. 54. gr. laga um fjölmiðla. Með vísan til framangreinds, eðli brots og ávinnings af því taldi fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 50.000 kr.

Ákvörðun 5/2019: Brot Garðapóstsins á reglum um viðskiptaboð fyrir áfengi – 19. desember 2019