Ákvörðun 8/2018: Beiðni trúfélagsins Zuism um andsvar á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla, vegna umfjöllunar um félagið sem miðlað var á vefmiðlinum Vísi í nóvember 2018 – 26. nóvember 2018

Fjölmiðlanefnd hafnaði beiðni  trúfélagsins Zuism um andsvar vegna frétta sem birtust á Vísi 13. og 16. nóvember 2018.

Í niðurstöðu fjölmiðlanefndar segir að réttur til andsvara skv. 36. gr. laga um fjölmiðla lúti að því að leiðrétta staðreyndir en ekki að því að koma sjónarmiðum að með almennum hætti. Fjölmiðlaveitu sé heimilt að synja um andsvar fari andsvarið yfir þau mörk í tíma eða lengd sem talin séu nauðsynleg til að leiðrétta staðreyndir málsins, sem og ef í andsvarinu felist annað og/eða meira en slík leiðrétting.

Þær athugasemdir sem fram hafi komið af hálfu Zuism feli að mati fjölmiðlanefndar í sér annað og meira en að leiðrétta rangar staðreyndir fjölmiðilsins. Þá feli andsvarið ekki í sér leiðréttingu á ótvíræðum staðreyndavillum. Hluti andsvars hafi falið í sér ásakanir á hendur nafngreindum einstaklingum, sem fjölmiðlaveitu verði ekki gert að birta, án þess að nokkuð liggi fyrir um þær ásakanir, enda kynni það að fela í sér brot gegn lögvörðum hagsmunum þriðja aðila. Loks hafi andsvarið farið yfir þau mörk í lengd sem nauðsynleg geti talist til að leiðrétta staðreyndir.

Ákvörðun 8/2018 Beiðni trúfélagsins Zuism um andsvar á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla, vegna umfjöllunar um félagið sem miðlað var á vefmiðlinum Vísi í nóvember 2018 – 26. nóvember 2018