Álit 1/2019: Kvörtun vegna umfjöllunar um trúfélagið Zuism á Vísi – 5. febrúar 2019

Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu að umfjöllun Vísis um trúfélagið Zuism hafi ekki farið í bága við 26. gr. laga um fjölmiðla um lýðræðislegar grundvallarreglur og hlutlægni í fréttum og fréttatengdu efni. Umrætt trúfélag hafði beint kvörtun til fjölmiðlanefndar vegna frétta Vísis um félagið sem birtar voru 13. og 16. nóvember 2018 og trúfélagið taldi fara í bága við 26. gr. laga um fjölmiðla.

Í niðurstöðu fjölmiðlanefndar segir m.a. að með hliðsjón af gögnum málsins telji nefndin ljóst að við vinnslu umræddra frétta hafi fréttamenn Vísis hafi reynt ítrekað að hafa uppi á forsvarsmönnum trúfélagsins Zuism til að gefa þeim færi á að koma upplýsingum og sjónarmiðum sínum á framfæri. Hins vegar hafi slíkar umleitanir engan árangur borið; skráð símanúmer á vegum félagsins hafi reynst óvirk og skilaboðum á samfélagsmiðlum hafi ekki verið svarað. Við vinnslu fréttarinnar hafi fréttamenn auk þess árangurslaust drepið á dyr á nokkrum stöðum, þar sem ætla mátti að forsvarsmenn félagsins gætu verið til húsa. Loks hafi forsvarsmaður félagsins hafnað viðtalsbeiðni fréttamanns Vísis eftir birtingu umræddra frétta og eftir að beiðni um andsvar barst frá félaginu.

Einnig segir í áliti fjölmiðlanefndar að með fyrrgreindum fréttum Vísis, um trúfélagið Zuism og endurgreiðslur ríkisins til félagsins, hafi ljósi verið varpað á ráðstöfun almannafjár; endurgreiðslur ríkisins til skráðra trúfélaga hér á landi. Hafi umfjöllun Vísis þannig falið í sér framlag til almennrar umræðu, sem varði almannahagsmuni og hafi hún sem slík átt erindi til almennings.

Álit 1/2019: Kvörtun vegna umfjöllunar um trúfélagið Zuism á Vísi  5. febrúar 2019