Álit 1/2020: Brot Golfsambands Íslands á reglum um viðskiptaboð fyrir áfengi – 10. febrúar 2020

Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Golfsamband Íslands hafi brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með birtingu viðskiptaboða fyrir áfengi í 1. tbl. 2019 tímaritsins golf.is / Golf á Íslandi fyrir Sumarsólstöðumót Stella Artois sem fór fram 22. júní sl. á vegum Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar (GKG).


Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum þar sem kvartað var yfir ætluðu broti Golfsambands Íslands á ákvæði 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla um bann við birtingu viðskiptaboða fyrir áfengi með birtingu auglýsingar fyrir Sumarsólstöðumót Stella Artois í tímaritinu golf.is / Golf á Íslandi.
Í áliti fjölmiðlanefndar kemur fram að óvírætt sé að um auglýsingu er að ræða í skilningi 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um fjölmiðla. Vakin er athygli á vörutegund, sem inniheldur meira en 2,25% áfengisinnihald, með mynd af bjórglasi og bjórflösku merktum vörunni, og birtingu vörumerkis hennar greinilega í heiti golfmótsins í auglýsingunni, og neðst í hægra horni hennar. Einnig er vakin athygli á því í texta neðst í vinstra horni auglýsingarinnar að eftir umrætt golfmót verði boðið upp á léttar veitingar og „auðvitað Stella Artois!“. Auglýsing sú sem um ræðir sé því ekki einungis auglýsing fyrir golfmót, eins og Golfsamband Íslands hélt fram, heldur var henni að mati fjölmiðlanefndar ætlað að vekja sérstaka athygli á vörutegund og vörumerki Stella Artois. Þar sem sú vara er ekki boðin til sölu hér á landi með 2,25% eða minna áfengisinnihald er um áfengisauglýsingu að ræða. Að mati fjölmiðlanefndar féll því umrædd heilsíðuauglýsing fyrir Sumarsólstöðumót Stella Artois, sem fór fram 22. júní sl. á vegum GKG, og birtist í 1. tbl. 2019 tímaritsins golf.is / Golf á Íslandi, undir skilgreiningu 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla um viðskiptaboð fyrir áfengi.

Með vísan til þess að fjölmiðlanefnd hefur ekki áður birt álit eða ákvörðun vegna brota Golfsambands Íslands gegn ákvæðum laga um fjölmiðla, eðli brots, ávinnings af því og að sambandið muni sjá til þess að birting áfengisauglýsinga eigi sér ekki aftur stað í miðlum á þeirra vegum ákvað nefndin að falla frá sektarákvörðun í málinu. Í slíku tilviki er fjölmiðlanefnd heimilt að ljúka málsmeðferð með útgáfu álits sem birt er á vefsíðu hennar, sbr. 2. málsl. 5. mgr. 54. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

Álit 1/2020: Brot Golfsambands Íslands á reglum um viðskiptaboð fyrir áfengi – 10. febrúar 2020