Álit 2/2019: Umfjöllun um Menn í vinnu ehf. á RÚV – 5. febrúar 2019

Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu að umfjöllun um starfsmannaleiguna Menn í vinnu ehf. í þáttum Kveiks og Kastljóss á RÚV í október 2018 hafi hvorki farið í bága við 27. gr. laga um fjölmiðla, um bann við hatursáróðri, né 26. gr. laga um fjölmiðla, um lýðræðislegar grundvallarreglur og hlutlægni í fréttum og fréttatengdu efni.

Umrætt félag hafði beint kvörtun til fjölmiðlanefndar vegna umfjöllunar RÚV um félagið sem miðlað var í fréttaskýringaþættinum Kveik 2. október 2018 og umræðuþættinum Kastljósi 4. október 2018. Þá kom fram í kvörtun að félagið teldi yfirlýsingu ritstjóra Kveiks á Vísi 3. október 2018 fara í bága við 26. gr. laga um fjölmiðla.

Í niðurstöðu fjölmiðlanefndar segir m.a. að með umfjöllun Kveiks og Kastljóss um starfsmannaleigur og aðbúnað erlendra starfsmanna hér á landi, hafi sjónum almennings og stjórnvalda verið beint að bágri stöðu og launakjörum erlends verkafólks á Íslandi. Um sé að ræða samfélagshóp sem ekki hafi átt háværa rödd í samfélagsumræðunni.  Hafi umfjöllun fréttamanna Ríkisútvarpsins falið í sér framlag til almennrar umræðu, sem varði almannahagsmuni og hafi sem slík átt erindi til almennings.

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum var það niðurstaða nefndarinnar að vinnubrögð fréttamanna Ríkisútvarpsins hafi verið í samræmi við hlutlægniskilyrði 26. gr. laga um fjölmiðla. Þá taldi fjölmiðlanefnd að ákvæði 27. gr. um hatursáróður tæki ekki til atvika málsins.

Álit 2/2019: Umfjöllun um Menn í vinnu ehf. á RÚV – 5. febrúar 2019