Álit 3/2019: Lottó-útdráttur Íslenskrar getspár á RÚV – 17. maí 2019

Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpinu ohf. bæri að flokka gjaldtöku fyrir útsendingu útdráttar Íslenskrar getspár og, eftir atvikum, annarrar happdrættis- og veðmálastarfsemi sem leyfi hefur lögum samkvæmt hér á landi, sem viðskiptaboð og tryggja að miðlun slíkra viðskiptaboða væri í samræmi við þær reglur sem um viðskiptaboð gilda samkvæmt 7. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 og lögum um fjölmiðla nr. 38/2011.

Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar frá Símanum hf., þar sem kvartað var yfir ætluðu broti Ríkisútvarpsins á reglum um hámarksauglýsingahlutfall innan klukkustundar með útsendingu Lottó-útdráttar Íslenskrar getspár. Í áliti fjölmiðlanefndar kemur fram að samkvæmt upplýsingum Ríkisútvarpsins hafi samanlögð lengd auglýsinga og Lottó-útdráttar, þess sem kvörtun Símans sneri að, ekki farið yfir átta mínútur á klukkustund. Hafi útsendingin þar með ekki verið í andstöðu við reglur um hámarkshlutfall auglýsinga innan klukkustundar.

Jafnframt kemur fram í áliti fjölmiðlanefndar að í ljósi þeirrar niðurstöðu að Lottó-útdrættir Íslenskrar getspár teljist til viðskiptaboða hafi Ríkisútvarpinu ohf. borið að setja og birta gjaldskrá vegna viðskiptaboða frá Íslenskri getspá og, eftir atvikum, annarri happdrættis- og veðmálastarfsemi sem leyfi hefur lögum samkvæmt hér á landi, þar sem jafnræðis gagnvart slíkum aðilum væri gætt, afsláttarkjör væru gagnsæ og stæðu til boða öllum viðskiptamönnum, sem hefðu lögbundið leyfi til happdrættis- og veðmálastarfsemi hér á landi.

Með vísan til hinnar löngu framkvæmdar, sem spannar nær 32 ár, að Ríkisútvarpið sendi út Lottó-útdrætti Íslenskrar getspár, og þeirrar sérstöðu og sérstakrar heimildar til starfsemi sem löggjafinn hefur veitt talnagetraunum Íslenskrar getspár með lögum nr. 26/1986 um talnagetraunir, sem nánar er útfærð í reglugerð nr. 1170/2012, ákvað fjölmiðlanefnd að falla frá ákvörðun um stjórnvaldssekt.

Álit 3/2019: Lottó-útdráttur Íslenskrar getspár á RÚV – 17. maí 2019