Álit 5/2019: Umfjöllun um einkalíf einstaklings í frétt á vefmiðlinum Vísi – 30. apríl 2019

Fjölmiðlanefnd ákvað á fundi sínum 30. apríl 2019 að gefa út álit vegna umfjöllunar um einkalíf einstaklings í frétt, sem birt var undir fyrirsögninni […] á vefmiðlinum Vísi […] 2018.

Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar frá einstaklingi, sem taldi efni fréttar Vísis brjóta gegn rétti sínum til friðhelgi einkalífs. Fram kemur í áliti nefndarinnar að hún hafi samþykkt að taka málið til efnislegrar meðferðar, með vísan til starfsreglna nefndarinnar, þar sem meint brot virtist alvarlegt og að kvartandi hefði ríka hagsmuni af meðferð máls.

Í álitinu kemst fjölmiðlanefnd að þeirri niðurstöðu að Sýn hf. hafi brotið gegn 26. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með birtingu viðkvæmra persónugreinanlegra persónuupplýsinga um einstakling í fyrrgreindri frétt á Vísi.

Nákvæm persónulýsing gaf til kynna um hvern var fjallað
Í fréttinni hafi verið fjallað um ummæli sem fallið höfðu í lokuðum Facebook-hópum um einkalíf kvartanda, kynhegðun og heilsufar og hafi umfjöllunin þar með varðað viðkvæmar persónuupplýsingar um kvartanda. Skylda fjölmiðla til að virða friðhelgi einkalífs skv. 26. gr. feli í sér skyldu til að gæta sérstakrar varkárni við birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga.

Í frétt Vísis hafi verið nákvæm persónulýsing af kvartanda og hafi hann þar verið auðkenndur með þeim hætti að þeim sem þekktu til hans hafi verið unnt að átta sig á því um hvern var fjallað. Hafi samanlagðar breytur í þeim upplýsingum sem fram komu í umfjöllun Vísis gefið til kynna hver átti í hlut og teljist þær því persónugreinanlegar. Auk þess hafi nöfn Facebook-hópanna, þar sem kvartandi var nafngreindur og frekar rætt um hann, verið birt í frétt Vísis en af þeim sökum hafi lesendur fjölmiðilsins með raunhæfum úrræðum getað nálgast nafn kvartanda, mynd af honum og fleiri ummæli um hann á Facebook.

Birting viðkvæmra persónuupplýsinga varðaði ekki almannahagsmuni
Fram kemur í áliti nefndarinnar að frétt Vísis hafi að hluta fjallað um að tjáning á samfélagsmiðlum teljist opinber birting. Við meðferð málsins hafi komið fram að Sýn telji það atriði varða almannahagsmuni, þ.e. að almenningur geri sér grein fyrir ábyrgð sinni þegar fjallað sé um nafngreinda menn í lokuðum en fjölmennum Facebook-hópum. Í áliti fjölmiðlanefndar segir að fjölmiðlar gegni mikilvægu lýðræðishlutverki og þjóni upplýsingarétti almennings. Það merki þó ekki að engar hömlur séu á því hversu nærri einstaklingum megi ganga í fréttaumfjöllun. Birting hinna viðkvæmu, persónugreinanlegu upplýsinga um kvartanda verði hvorki réttlætt með vísan til lýðræðishlutverks fjölmiðlaveitunnar né upplýsingaréttar almennings. Ekki séu neinir almannahagsmunir í húfi í málinu sem réttlætt geti að gengið hafi verið á friðhelgi einkalífs kvartanda, með þeim hætti sem gert hafi verið í frétt Vísis.

Kvartandi ekki opinber persóna
Þá sé kvartandi ekki einstaklingur sem almennt geti talist þekktur í samfélaginu og gegni ekki opinberu hlutverki. Sjónarmið um lögmæta röskun á einkalífsvernd opinberra persóna eigi því ekki við um hann. Auk þess hafi hann sjálfur ekki vakið máls á einkahögum sínum í fjölmiðlum. Ummæli sem birt voru um meinta kynhegðun og heilsufar hans í frétt Vísis hafi ekki átt uppruna sinn hjá honum og hafi verið birt af öðrum án vitundar hans og án fyrirvara um sannleiksgildi þeirra. Hafi hann enga vitneskju haft um það að einkamálefni hans; kynhegðun og heilsufar, yrðu til umfjöllunar á opinberum vettvangi, fyrr en frétt Vísis birtist á vef fjölmiðilsins, og hafi fréttin ekki verið borin undir hann, þrátt fyrir að þær upplýsingar sem um hann birtust í fréttinni væru jafn ítarlegar og raun bar vitni. Fram kemur í álitinu að kvartandi hafni í grundvallaratriðum því sem fram hafi komið um hann í frétt Vísis.

Í niðurstöðu fjölmiðlanefndar segir að ekki verið færð fullnægjandi rök fyrir því af hálfu Sýnar að þörf hafi verið á birtingu nákvæmrar persónulýsingar á kvartanda, í tengslum við fyrrgreinda umfjöllun. Hafi umrædd persónulýsing ekki verið svo samofin fréttaefninu að ekki yrði greint þar á milli. 

Umfjöllun á samfélagsmiðlum takmarkar ekki skyldur fjölmiðla til sjálfstæðs mats
Í álitinu kemur jafnframt fram að fjölmiðlanefnd geti ekki fallist á að réttur einstaklinga til einkalífsverndar í fjölmiðlum skerðist sjálfkrafa við það að nöfn þeirra og/eða viðkvæmar persónuupplýsingar hafi birst í fjölmennum hópum á samfélagsmiðlum, með þeim hætti að birting slíkra upplýsinga á samfélagsmiðlum réttlæti birtingu þeirra í fjölmiðlum. Þótt almenna reglan sé sú að einstaklingar beri ábyrgð á orðum sínum á netinu, líkt og annars staðar, takmarki það ekki skyldur og ábyrgð fjölmiðlaveitunnar Sýnar til sjálfstæðs mats á grundvelli 26. gr. laga um fjölmiðla.

Loks segir í áliti fjölmiðlanefndar að engin viðurlög séu við brotum á ákvæði 26. gr. en fjölmiðlanefnd hafi heimild til að ljúka málum vegna brota á lögunum með birtingu álits skv. 3. mgr. 11. gr. laganna. Ákvæði 26. gr. feli ekki í sér heimild nefndarinnar til að mæla fyrir um að tiltekið afmarkað fjölmiðlaefni skuli fjarlægt af vef fjölmiðils sem miðlar efni sínu á netinu. Nefndin veiti einungis álit sitt á því hvort að tiltekið afmarkað fjölmiðlaefni fari í bága við 26. gr. laga um fjölmiðla í þeim málum sem talin séu gefa ástæðu til meðferðar með vísan til starfsreglna nefndarinnar. Álit fjölmiðlanefndar sé leiðbeinandi en ekki bindandi.

Álit 5/2019: Umfjöllun um einkalíf einstaklings í frétt á vefmiðlinum Vísi – 30. apríl 2019