Álit 6/2019: Kostun sjónvarpsþáttanna Alla leið á RÚV – 2. júlí 2019

Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpinu hafi verið óheimilt að kosta sjónvarpsþættina Alla leið sem sýndir voru á RÚV 20. og 27. apríl og 4. og 11. maí 2019.

Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar Hringbrautar fjölmiðla ehf., þar sem kvartað var yfir því að Ríkisútvarpið hygðist brjóta gegn 2. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið með kostun sjónvarpsþáttanna Alla leið. Í þáttunum, sem sýndir voru á RÚV á fjögurra vikna tímabili í apríl og maí 2019, var farið yfir öll lögin sem keppa í Eurovision 2019, þau vegin og metin með aðstoð álitsgjafa og reynt að spá fyrir um gengi þeirra í keppninni. Þættirnir voru sýndir 13., 20. og 27. apríl og 4. og 11. maí og voru þættir nr. 2-5 kostaðir af ólíkum aðilum.

Í áliti fjölmiðlanefndar segir að í svörum Ríkisútvarpsins hafi verið vísað til fyrri samskipta við nefndina í tengslum við breytingar á auglýsingareglum RÚV árið 2017. Líkt og þá hafi komið fram, og vikið sé sérstaklega að í ákvörðun fjölmiðlanefndar nr. 1/2017, hafi RÚV tiltekið spjallþættina Alla leið sem dæmi um dagskrá sem heimilt væri að kosta þar sem þættirnir tengdust með beinum og afgerandi hætti kostuðum stórviðburðum, sem Söngvakeppnin og Eurovision-söngvakeppnin sannarlega væru. Hafi það engum mótbárum sætt af hálfu fjölmiðlanefndar og hafi Ríkisútvarpið því talið þáttinn falla undir undantekningarheimild laga til kostunar íburðarmikilla dagskrárliða. Vísaði Ríkisútvarpið m.a. til sjónarmiða um réttmætar væntingar vegna þessara fyrri samkipta við nefndina.

Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið er einungis heimilt að kosta íburðarmikla dagskrárliði annars vegar og innlenda íþróttaviðburði og umfjöllun um þá hins vegar. Í niðurstöðu fjölmiðlanefndar kemur fram að nefndin telji þættina Alla leið falla utan hugtaksins íburðarmikill dagskrárliður, þótt í þeim sé vissulega fjallað um hinn íburðarmikla dagskrárlið Eurovision-söngvakeppnina. Ekki sé um að ræða stórviðburð á borð við Eurovision-söngvakeppnina, HM eða EM í handknattleik eða knattspyrnu eða Ólympíuleika, heldur innlent dagskrárefni sem tekið er upp í sjónvarpssal, með litlum tilkostnaði. Ekki hafi komið fram nægilega haldbær rök sem réttlætt geti kostun þáttanna.

Það var því álit fjölmiðlanefndar að kostun þáttanna Alla leið 20. og 27. apríl og 4. og 11. maí 2019 hafi verið óheimil og að Ríkisútvarpið hafi brotið gegn 2. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 með kostun þeirra 20. og 27. apríl og 4. og 11. maí 2019.

Á grundvelli 3. mgr. 17. gr. laga um Ríkisútvarpið og sjónarmiða um réttmætar væntingar Ríkisútvarpsins um fyrirsjáanleika í stjórnsýsluframkvæmd, með vísan til fyrri samskipta við nefndina, var ákveðið að falla frá sektarákvörðun í málinu.

Álit 6/2019: Kostun sjónvarpsþáttanna Alla leið á RÚV – 2. júlí 2019