Umsóknir um sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla

Auglýst er eftir umsóknum einkarekinna fjölmiðla um sérstakan rekstrarstuðning sem veittur verður á árinu 2020. Umsóknir skulu sendar fjölmiðlanefnd fyrir 7. ágúst 2020.

Í 9. gr. laga nr. 37/2020 er mennta- og menningarmálaráðherra veitt heimild til að veita sérstakan rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla. Í greininni eru tilgreind nokkur skilyrði fyrir rekstrarstuðningi og einnig getið sérstakra atriða sem þurfa að koma fram í umsókn. Þá segir í 2. mgr.: „Við ákvörðun um fjárhæð sérstaks rekstrarstuðnings skal m.a. litið til launa, fjölda starfsmanna og verktakagreiðslna vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni á ritstjórnum árið 2019, útgáfutíðni og fjölbreytileika fjölmiðla. Endanlegt hlutfall ræðst af fjölda umsókna og skal setja hámark á stuðning til einstakra fjölmiðla. Úthlutun sérstaks rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla skal fara fram eigi síðar en 1. september 2020.“

Samkvæmt ákvæðum fyrrgreindrar 9. gr. laga nr. 37/2020 hefur mennta- og menningarmálaráðherra sett reglugerð nr. 670/2020 um fyrirkomulag sérstaks rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla. Til úthlutunar verða 400 millj.kr.

Í reglugerðinni eru tilgreind skilyrði fyrir styrkveitingum og er umsækjendum bent á að kynna sér þau. Einnig hvaða kröfur eru gerðar um gögn sem eiga að fylgja umsókn.

Einnig geta þeir sem starfrækja staðbundna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins sótt um styrk úr byggðaáætlun. Til ráðstöfunar úr byggðaáætlun eru 5 millj.kr. og ræðst styrkfjárhæð til hvers umsækjanda af fjölda gildra umsókna.

Umsóknargögn með leiðbeiningum eru neðar á síðunni. Sækja þarf skjölin, vista og fylla út í tölvu. Þegar umsóknareyðublaðið hefur verið útfyllt í tölvu þarf að prenta það út til undirritunar, skanna og senda ásamt viðauka og þeim fylgiskjölum sem beðið er um í umsókn. Mikilvægt er að öll fylgiskjöl fylgi með umsókn. Umsóknir skulu berast á netfang fjölmiðlanefndar, postur@fjolmidlanefnd.is, fyrir miðnætti 7. ágúst nk. Ef spurningar vakna um hvernig eigi að fylla umsóknina út er hægt að senda fyrirspurn á framangreint netfang.

Umsóknargögn:

Umsóknareyðublað vegna sérstaks rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla (smella til að sækja)

Viðauki við umsókn vegna fjölda starfsmanna og launakostnaðar (smella til að sækja)