Leiðbeiningar um skráningu hlaðvarpa hjá Fjölmiðlanefnd

Þær tækniframfarir sem orðið hafa á síðustu árum hafa haft veruleg áhrif á fjölmiðlun og gert mörkin á milli fjölmiðlunar í hefðbundnum skilningi og annars konar miðlunar efnis óljósari. Þegar lög um fjölmiðla nr. 38/2011 (hér eftir lög um fjölmiðla) tóku gildi voru hlaðvörp fátíðari og smærri í sniðum en þau eru í dag. Flest þeirra voru í líkingu við hefðbundnar bloggsíður og algengt var að hlaðvörp tilheyrðu eða væru tengd stærri fjölmiðlum. Á síðustu árum hafa einstaklingar í auknum mæli sett á laggirnar sín eigin hlaðvörp, enda hefur það aldrei verið eins auðvelt. Hlaðvörp njóta sífellt meiri vinsælda og hefur markaðshlutdeild þeirra aukist í takti við það. Mörg þeirra hafa nú fjölda kostenda og/eða auglýsinga. Í sumum tilvikum hlusta þúsundir á hvern þátt og eru slík hlaðvörp í beinni samkeppni við aðra fjölmiðla um hlustendur og kostendur.

Fjölmiðlanefnd hafa borist fyrirspurnir, ábendingar og kvartanir vegna auglýsinga í íslenskum hlaðvörpum sem vakið hafa upp spurningar um starfsemi hlaðvarpa. Í ljósi leiðbeiningarskyldu stjórnvalda, sem m.a. er mælt fyrir um í 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, hefur Fjölmiðlanefnd ákveðið að gefa út leiðbeiningar um skráningu hlaðvarpa hjá nefndinni á grundvelli laga um fjölmiðla.

Leiðbeiningar um skráningu hlaðvarpa hjá Fjölmiðlanefnd á PDF-formi

Falla hlaðvörp undir lög um fjölmiðla?

Já. Hlaðvörp teljast til hljóðmiðlunar eftir pöntun, sbr. 24. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um fjölmiðla.

Teljast þá öll hlaðvörp sjálfkrafa til fjölmiðla í skilningi laga um fjölmiðla?

Nei. Líkt og á við um aðra miðla þurfa hlaðvörp að uppfylla skilyrði laganna og Fjölmiðlanefnd þarf að meta hvert tilvik fyrir sig. Mati Fjölmiðlanefndar er lýst nánar hér að neðan.

Til hvaða atriða lítur Fjölmiðlanefnd við mat á því hvort hlaðvarp teljist fjölmiðill í skilningi laga um fjölmiðla?

Við mat á því hvort hlaðvarp teljist fjölmiðill og sé þar með skráningarskylt hjá Fjölmiðlanefnd er litið til þess hvort hlaðvarpið uppfylli skilyrði laga um fjölmiðla eins og áður segir, sbr. 13. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna, þ.e. að:

  • Miðla með reglubundnum hætti til almennings efni er lýtur ritstjórn

Þrátt fyrir að uppfylla þetta skilyrði er ekki sjálfgefið að hlaðvarp teljist fjölmiðill í skilningi laga um fjölmiðla. Á því það sama við hlaðvörp eins og aðra miðla, t.d. vefmiðla. Í 2. gr. starfsreglna Fjölmiðlanefndar nr. 1363/2011 kemur t.a.m. fram að persónubundnar bloggsíður falli almennt utan hugtaksins fjölmiðill í skilningi laganna. Þá falla einstaklingsbundin og persónuleg samskipti á netinu, t.d. á vettvangi Facebook, einnig utan hugtaksins. Ólíklegt verður því að teljast að hlaðvarp sem svipar til bloggsíðu að efni til myndi teljast fjölmiðill í skilningi laga um fjölmiðla þótt það uppfylli skilyrði laganna. Auk skilyrða laganna lítur Fjölmiðlanefnd því einnig til annarra atriða við mat á því hvort miðill teljist fjölmiðill eða ekki og eigi að skrá sig hjá nefndinni. Í 2. gr. starfsreglna Fjölmiðlanefndar nr. 1363/2011 segir m.a. eftirfarandi:

Það er skýr vísbending um að miðlun efnis falli undir hugtakið fjölmiðill þegar fjölmiðlaveita[1] hefur það að atvinnu að miðla fjölmiðlaefni og ber þannig ábyrgð á ritstjórnarlegri skipan og endanlegri samsetningu fjölmiðilsins. Þjónusta sem ekki hefur þann megintilgang fellur á hinn bóginn sjaldnast undir hugtakið fjölmiðil í skilningi laganna.

Þau viðmið sem sett eru fram í starfsreglum Fjölmiðlanefndar eru frá 2011. Dæmin sem sett eru fram í reglunum tóku eðli máls samkvæmt ekki tillit til ófyrirséðra tæknibreytinga og miðlunarleiða sem áhrif kynnu að hafa á mat á því hvað telst vera fjölmiðill og hvað ekki. Fjölmiðlanefnd hefur því ekki aðeins horft til þeirra viðmiða sem getið er hér að framan heldur einnig horft til annarra atriða við mat á því hvort viðkomandi miðill teljist fjölmiðill í skilningi laga um fjölmiðla eða ekki. Hér er átt við atriði eins og viðskiptaboð[2], sem gefa einnig vísbendingu um hvort t.d. hlaðvarpi sé miðlað í atvinnuskyni, áhrif á samkeppnismarkaði, áskrift að efni og fleira. Örðugt er að setja fram tæmandi talningu atriða sem áhrif geta haft á það hvort miðill teljist fjölmiðill eða ekki í skilningi laga um fjölmiðla. Upp geta komið ýmis takmarkatilvik sem leysa þarf úr hverju sinni á grundvelli heildstæðs mats. Í tilviki hlaðvarpa eru það helst eftirfarandi atriði sem Fjölmiðlanefnd horfir til þegar skilyrði laga um fjölmiðla er uppfyllt:

  • Er fjárhagslegur ávinningur af miðlun efnis hlaðvarpsins með:
    • Auglýsingum, kostunum eða annars konar viðskiptaboðum?
    • Áskrift eða annars konar miðlun efnis gegn gjaldi?
    • Annars konar tekjuöflun, eins og styrkjum?

Ef fjárhagslegur ávinningur er af miðlun hlaðvarps er það sterk vísbending um að skrá beri hlaðvarpið sem fjölmiðil hjá Fjölmiðlanefnd. Nefndin metur þó alltaf hvert tilvik fyrir sig enda er hvorki hægt að sjá fyrir þau fjölmörgu atriði sem geta komið til greina við á mat því hvort um fjölmiðil er að ræða né þær nýju miðlunarleiðir og tegundir fjölmiðla sem framtíðin ber í skauti sér. Þessi nálgun endurspeglar vilja löggjafans eins og hann birtist í lögskýringargögnum með frumvarpi því sem varð að lögum um fjölmiðla. Til viðbótar við viðmiðið um fjárhagslegan ávinning hefur Fjölmiðlanefnd einnig eftirfarandi atriði til hliðsjónar við mat sitt, en ekki er um tæmandi talningu að ræða:

  • Hvers konar efni hlaðvarpið miðlar (ef um sambærilegt efni er að ræða og finna mætti í öðrum fjölmiðlum eru líkur til þess að hlaðvarpið teljist skráningarskylt)
  • Hver miðlar efni hlaðvarpsins (hlaðvörp ríkisstofnana og stéttarfélaga myndu t.d. ekki teljast skráningarskyld)
  • Hvort hlaðvarpið sé hluti af starfsemi fjölmiðlaveitu sem er skráð hjá Fjölmiðlanefnd (í slíkum tilvikum þarf ekki að skrá hlaðvarpið sérstaklega)
  • Útbreiðsla hlaðvarpsins og hlustun, ef slíkar upplýsingar liggja fyrir
[1] Fjölmiðlaveita er einstaklingur eða lögaðili sem starfrækir fjölmiðil, sbr. 15. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um fjölmiðla.
[2] Samkvæmt 40. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um fjölmiðla eru viðskiptaboð texti, myndir og/eða hljóð sem er ætlað að vekja, beint eða óbeint, athygli á vörum, þjónustu eða ímynd lögaðila eða einstaklings sem stundar atvinnustarfsemi og er miðlað gegn greiðslu eða öðru endurgjaldi eða til kynningar í eigin þágu. Til viðskiptaboða teljast m.a. auglýsingar, kostun og vöruinnsetning.

Hvernig á að skrá hlaðvarp hjá Fjölmiðlanefnd?

Ef hlaðvarpið þitt uppfyllir skilyrði laga um fjölmiðla og af því er fjárhagslegur ávinningur er það sterk vísbending um að skrá beri hlaðvarpið sem fjölmiðil hjá Fjölmiðlanefnd. Fjölmiðlanefnd metur síðan hverja beiðni um skráningu fyrir sig, m.a. með tilliti til ofangreindra atriða.

Hægt er að skrá hlaðvarp með rafrænum hætti með því að smella HÉR. Athugið að skrifa þarf undir með rafrænum skilríkjum. Einnig er hægt að fylla út eyðublað með því að smella HÉR og senda til Fjölmiðlanefndar.

Hvernig á að snúa sér ef óvissa er um hvort skrá eigi hlaðvarp hjá Fjölmiðlanefnd?

Best er að hafa samband við Fjölmiðlanefnd ef spurningar vakna með því að senda tölvupóst á postur@fjolmidlanefnd.is eða hringja í síma 415-0415.

Kostar að skrá hlaðvarp hjá Fjölmiðlanefnd?

Nei, skráning er gjaldfrjáls.

Aðrar algengar spurningar og svör

Skilgreiningin á hugtakinu fjölmiðill getur haft mikla þýðingu enda leiðir það til þess að ýmsar skyldur hvíla á þeim sem halda úti fjölmiðli samkvæmt ákvæðum laga um fjölmiðla ásamt ábyrgðarreglum í 50. og 51. gr. laganna. Hér að neðan verður leitast við að svara helstu spurningum sem gætu vaknað hjá hlaðvarpsstjórnendum um hvaða reglur gilda um hlaðvörp og hvaða skyldur hvíla á þeim sem halda úti hlaðvarpi:

Öll starfsemi sem fellur undir gildissvið laga um fjölmiðla og er ekki leyfisskyld er skráningarskyld, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga um fjölmiðla. Þau hlaðvörp sem teljast fjölmiðlar í skilningi laga um fjölmiðla eiga því að skrá sig hjá Fjölmiðlanefnd.

Með skráningu skulu fylgja upplýsingar um fjölmiðlaveitu, þ.e. hver starfrækir hlaðvarpið, þ.m.t. heiti, kennitölu, lögheimili, netfang og vefsetur, heiti fjölmiðils eða fjölmiðla, ábyrgðarmann, fyrirsvarsmann, ritstjórnar- eða dagskrárstefnu, kallmerki ef við á og eignarhald, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna. Allar breytingar sem kunna að verða á högum fjölmiðlaveitu og liggja til grundvallar skráningu ber að tilkynna til Fjölmiðlanefndar, sbr. 4. mgr. 14. gr. laga um fjölmiðla.

Framangreindar upplýsingar eru birtar á vefsíðu Fjölmiðlanefndar þar sem finna má lista yfir alla skráða fjölmiðla og fjölmiðlaveitur hjá nefndinni. Kennitölur einstaklinga eru þó ekki birtar. Ein forsenda þess að þessar upplýsingar eru gerðar aðgengilegar á vefsíðu nefndarinnar er sú að gagnsæi eignarhalds leiðir til þess að almenningur getur tekið afstöðu til þeirra upplýsinga, hugmynda og skoðana sem birtast í fjölmiðlum og er þannig lykilþáttur í því að efla lýðræðislega þátttöku og miðlalæsi almennings. Einnig er nauðsynlegt að almenningur hafi aðgang að upplýsingum um hver starfrækir skráða fjölmiðla og við hvern er hægt að hafa samband ef t.d. einhver telur að lögmætir hagsmunir sínir, einkum æra eða orðspor, hafi beðið tjón af því að rangt hafi verið farið með staðreyndir í fjölmiðli.

Já. Sömu lagaákvæði gilda um tjáningu í hlaðvörpum og alla aðra tjáningu, t.d. á netinu, í prentmiðlum eða annars staðar. Það er því ekki þannig að engar hömlur séu á því hvað megi segja í hlaðvörpum og hversu nærri einstaklingum megi ganga. Í lögum eru settar skorður við t.d. ærumeiðingum og brotum gegn friðhelgi einkalífs, hatursáróðri, hvatningu til refsiverðrar háttsemi og fleiru. Þessar reglur gilda óháð því hvort hlaðvörp teljast fjölmiðlar í skilningi laga eða ekki. Lög um fjölmiðla gilda hins vegar eingöngu um hlaðvörp sem teljast fjölmiðlar í skilningi laganna.

Nei. Bannað er að auglýsa áfenga drykki með yfir 2,25% áfengisinnihaldi, tóbaksvörur, rafrettur og áfyllingar fyrir þær, happdrættis- og veðmálastarfsemi, sem ekki hefur leyfi samkvæmt lögum hér á landi, og lyfseðilsskyld lyf, sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla. Sama gildir um önnur viðskiptaboð en með viðskiptaboðum er m.a. átt við auglýsingar, kostun og vöruinnsetningu. Sjá má nánar um þetta í leiðbeiningum fyrir fjölmiðla um bann við duldum viðskiptaboðum & kostun og vöruinnsetning í hljóð- og myndefni.

Já. Gæta þarf að því auglýsingar séu auðþekkjanlegar og skýrt afmarkaðar frá öðru efni hlaðvarpsins, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla. Auglýsingar sem ekki eru auðkenndar sem slíkar, og hlustendur ekki upplýstir um að um auglýsingu sé að ræða, teljast duldar auglýsingar. Duldar auglýsingar eru óheimilar, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Sama gildir um önnur viðskiptaboð en með viðskiptaboðum er m.a. átt við auglýsingar, kostun og vöruinnsetningu. Þetta má t.d. gera með auglýsingahléi eða einhvers konar tilkynningu þar sem heiti viðkomandi fyrirtækis eða vöru kemur fram. Ef efni hlaðvarps er kostað, þ.e. fyrirtæki eða einstaklingar fjármagna einstaka dagskrárliði, án þess að hafa áhrif á innihald þeirra, efnistök eða tímasetningu, verður að gæta þess að upplýsa hlustendur um að aðrir en fjölmiðillinn sjálfur hafi tekið þátt í fjármögnun á dagskrárefninu, sbr. 4. mgr. 42. gr. laga um fjölmiðla. Slíkt er hægt að gera t.d. í upphafi þáttar, á meðan honum stendur og/eða í lok hans. Sjá má nánar um þetta í leiðbeiningum fyrir fjölmiðla um bann við duldum viðskiptaboðum & kostun og vöruinnsetning í hljóð- og myndefni.

Sá sem heldur úti hlaðvarpi ber ritstjórnarlega ábyrgð á efni og efnisvali þess sé brotið gegn lögum um fjölmiðla. Ef efni hlaðvarps brýtur gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 gilda ábyrgðarreglur 50. gr. rati slík mál fyrir dómstóla. Samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar er það meginreglan að einstaklingur sem tjáir sig í eigin nafni, flytur eða miðlar efni sem hann hefur sjálfur samið eða flytur efni samið af öðrum, samkvæmt eigin ákvörðun, ber á því ábyrgð.

Brot gegn ákvæðum laga um fjölmiðla geta bæði varðað stjórnvaldssektum skv. 54. gr. laganna og refsingu skv. 56. gr. Heimildir Fjölmiðlanefndar til stjórnvaldssekta eiga aðeins við um brot gegn nánar tilgreindum ákvæðum sem rakin eru í 54. gr. Við ákvörðun sektar er m.a. tekið tillit til alvarleika brots og tekna af broti þegar það á við. Ef fallið er frá sektarákvörðun er Fjölmiðlanefnd heimilt að ljúka málsmeðferð með útgáfu álits sem birt er á vefsíðu nefndarinnar.

Já. Þeim sem starfrækir hlaðvarp sem telst fjölmiðill í skilningi laga um fjölmiðla ber að varðveita efni sem miðlað hefur verið í a.m.k. 18 mánuði frá því efninu var fyrst miðlað svo lengi sem það fari ekki í bága við réttindi rétthafa, sbr. 35. gr. laga um fjölmiðla. Varðveisluskyldan er mikilvæg, m.a. til þess að unnt sé að virða rétt aðila til andsvara, sbr. 36. gr. laganna. Einnig þarf Fjölmiðlanefnd að hafa aðgang að efni komi fram ábendingar eða kvartanir um ætluð brot gegn lögum um fjölmiðla.

Já. Óheimilt er að miðla efni sem getur haft skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna, einkum og sér í lagi efni sem felur í sér klám eða tilefnislaust ofbeldi. Þetta gildir einnig um auglýsingar og önnur viðskiptaboð og fjarkaup, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga um fjölmiðla. Í 1. mgr. 38. gr. laganna er að finna sérreglu um vernd barna gegn ótilhlýðilegum viðskiptaorðsendingum og fjarkaupum. Þar segir að viðskiptaboð og fjarkaup megi ekki vera þannig að þau geti valdið börnum siðferðilegum eða líkamlegum skaða. Óleyfilegt er t.d. að hvetja börn til þess að kaupa vörur eða þjónustu með því að notfæra sér reynsluleysi þeirra eða trúgirni. Sjá má nánar um þetta í leiðbeiningum fyrir fjölmiðla um vernd barna gegn skaðlegu efni og almenn viðmið um opinbera umfjöllun um börn.

Já. Samkvæmt 23. gr. laga um fjölmiðla er fjölmiðlaveitu skylt að senda Fjölmiðlanefnd árlega skýrslu sem hefur að geyma upplýsingar um m.a. rekstur, tíðni útgáfu, uppfærðar upplýsingar um eignarhald ef við á og fleira. Fjölmiðlanefnd sendir árlega tölvupóst á alla skráða fjölmiðla og óskar eftir skýrslunum og leiðbeinir um útfyllingu þeirra.