Ákvörðun 1/2021: Auglýsingar á eftir barnaefni á RÚV – 28. júní 2021

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með birtingu auglýsinga í tengslum við Krakkafréttir, sjónvarpsþátt sem er ætlaður börnum yngri en 12 ára og er sýndur á RÚV.

Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar Sýnar hf. þar sem kvartað var yfir þeirri háttsemi Ríkisútvarpsins, sem viðgengist hefði a.m.k. frá 7. september 2020, að sýna auglýsingar strax í kjölfar Krakkafrétta, á virkum dögum milli kl. 18:55 og 19:00, í andstöðu við bannákvæði 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

Samkvæmt ákvæði 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 eru auglýsingar og fjarkaupainnskot óheimil í dagskrá sem ætluð er börnum 12 ára og yngri. Bannið hefst 5 mínútum áður en dagskrá hefst og stendur þar til 5 mínútum eftir að útsendingu slíkrar dagskrár lýkur.

Að mati fjölmiðlanefndar teljast Krakkafréttir til efnis sem ætlað er börnum yngri en 12 ára og er forsendur fyrir því mati nefndarinnar raktar í ákvörðuninni. 

Krakkafréttir voru sýndar beint á undan auglýsingatíma á RÚV, fjórum sinnum í viku frá nóvembermánuði 2015 til maímánaðar 2016 og frá hausti til vors ár hvert eftir það. Ekkert hefur þó komið fram sem bendir til þess að auglýsingunum hafi verið sérstaklega beint að börnum. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu hafa Krakkafréttir nú verið færðar framar í dagskrá RÚV og verða framvegis ekki sýndar beint á undan eða beint á eftir auglýsingatímum.

Niðurstaða fjölmiðlanefndar var að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með birtingu auglýsinga beint á eftir dagskrárliðnum Krakkafréttir á tímabilinu nóvember 2015 til maí 2021. Var Ríkisútvarpinu ohf. gert að greiða 1.000.000 kr. í stjórnvaldssekt.

Ákvörðun nr. 1/2021: Birting auglýsinga á eftir barnaefni á RÚV – 28. júní 2021