Ákvörðun 2/2021: Dulin viðskiptaboð og hlutfall viðskiptaboða innan klukkustundar í þáttunum Einfalt að eldast og Allt annað líf á Hringbraut – 21. október 2021

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hringbraut-Fjölmiðlar ehf. hafi brotið gegn reglum um dulin viðskiptaboð og hlutfall viðskiptaboða innan klukkustundar í þáttunum Einfalt að eldast og Allt annað líf, sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í október 2019 og mars 2020. Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli ábendingar til nefndarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 eru dulin viðskiptaboð óheimil. Dulin viðskiptaboð eru „kynning í máli eða myndum á vörum, þjónustu, heiti, vörumerki eða starfsemi aðila sem framleiðir vöru eða veitir þjónustu í dagskrárliðum þegar slík kynning er til þess ætluð af hálfu fjölmiðlaþjónustuveitanda að þjóna auglýsingamarkmiðum og gæti villt um fyrir neytendum að því er eðli hennar varðar.“

Þá er viðskiptaboðum markaður ákveðinn tímarammi samkvæmt lögum um fjölmiðla. Fram kemur í 2. mgr. 41. gr. laganna að hlutfall auglýsinga og fjarkaupainnskota innan hverrar klukkustundar megi ekki fara yfir 20% eða tólf mínútur.

Að mati Fjölmiðlanefndar brutu Hringbraut-Fjölmiðlar ehf. gegn 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla með miðlun dulinna viðskiptaboða fyrir vörur og þjónustu KCM Clinic og HEI Medical Travel í þáttunum Allt annað líf sem sýndir voru á sjónvarpsstöðinni Hringbraut 10. og 17. mars 2020. Jafnframt er það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að Hringbraut-Fjölmiðlar ehf. hafi brotið gegn 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla með miðlun þeirra viðskiptaboða fyrir vörur og þjónustu Helgafell Rentals sem ekki voru skýrlega auðkennd í þættinum Einfalt að eldast á sjónvarpsstöðinni Hringbraut 22. október 2019. Eru forsendur fyrir því mati raktar í ákvörðuninni.

Loks er það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að þátturinn Einfalt að eldast og þættirnir Allt annað líf teljist í heild sinni til viðskiptaboða. Hafi Hringbraut-Fjölmiðlar ehf. brotið gegn 2. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla með miðlun þáttanna á Hringbraut, þar sem hámarkshlutfall auglýsinga innan hverrar klukkustundar hafi farið yfir 20% eða 12 mínútur. Var Hringbraut-Fjölmiðlum ehf. gert að greiða 750.000 kr. í stjórnvaldssekt fyrir hvorn þátt/þáttaröð, alls 1.500.000 kr.

Ákvörðun 2/2021: Dulin viðskiptaboð og hlutfall viðskiptaboða innan klukkustundar í þáttunum Einfalt að eldast og Allt annað líf á Hringbraut – 21. október 2021