Ákvörðun 3/2021: Skráningarskylda fjölmiðla og viðskiptaboð fyrir áfengi í hlaðvarpinu Dr. Football – 21. október 2021

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Doc Media slf., fjölmiðlaveita hlaðvarpsins Dr. Football, hafi brotið gegn reglum laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um skráningarskyldu fjölmiðla og bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi í hlaðvarpinu Dr. Football.


Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli ábendinga sem höfðu borist nefndinni vegna hlaðvarpsins Dr. Football. Í þeim var vakin athygli á því að hlaðvarpið væri ekki skráður fjölmiðill hjá Fjölmiðlanefnd og að viðskiptaboð fyrir áfengi væru áberandi í hlaðvarpinu.

Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að hlaðvarpið Dr. Football sé skráningarskyldur fjölmiðill í skilningi 1. mgr. 14. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Tilkynning um skráningu fjölmiðilsins Dr. Football barst Fjölmiðlanefnd 30. ágúst 2021. Í bréfi Fjölmiðlanefndar dags. 20. janúar 2021 hafði frestur til skráningar verið veittur til 29. janúar 2021 og með frummati nefndarinnar dags. 12. júlí 2021 hafði sá frestur verið framlengdur til 4. ágúst 2021. Var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að með því að sinna ekki skráningarskyldu sinni fyrir 4. ágúst 2021 hafi fjölmiðlaveita hlaðvarpsins Dr. Football, Doc Media slf., brotið gegn 1. mgr. 14. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011.

Jafnframt var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að umfjöllun um Ólafsson Gin í þáttum hlaðvarpsins Dr. Football sem gerðir voru aðgengilegir 1. október, 6. október, 8. október, 13. október, 15. október, 20. október, 22. október, 27. október og 29. október 2020 teljist til viðskiptaboða fyrir áfengi með yfir 2,25% áfengisstyrkleika og að Doc Media slf. hafi þar með gerst brotlegt við 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi.

Fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu. Við ákvörðun sektarfjárhæðar var tekið mið af tekjum af broti, umfangi og alvarleika þess og því að fjölmiðillinn Dr. Football varð ekki við ítrekuðum beiðnum Fjölmiðlanefndar um að skrá starfsemi sína og brást ekki við erindum nefndarinnar fyrr en stefnuvottur var sendur að heimili fyrirsvarsmanns hlaðvarpsins. Jafnframt var við ákvörðun sektarfjárhæðar litið til þess að félagið hefur nú uppfyllt kröfur um skráningu fjölmiðla og að Fjölmiðlanefnd hefur ekki áður birt álit eða ákvörðun vegna brota fjölmiðlaveitu hlaðvarpsins Dr. Football gegn lögum um fjölmiðla. Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 500.000 kr.

Ákvörðun 3/2021: Skráningarskylda fjölmiðla og viðskiptaboð fyrir áfengi í hlaðvarpinu Dr. Football – 21. október 2021