Ákvörðun 4/2021: Dulin viðskiptaboð, vöruinnsetningar, viðskiptaboð fyrir áfengi og kostað efni í þáttunum Rauðvín og klakar á Stöð 2 eSport og á Vísi – 21. október 2021

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sýn hf. hafi brotið gegn reglum laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um duldar auglýsingar, vöruinnsetningar, bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi og kostun efnis í þáttunum Rauðvín og klakar sem sýndir voru á Stöð 2 eSport og Vísir.is.


Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli ábendingar sem barst í nóvember 2020 þar sem vakin var athygli á myndefni á Stöð 2 eSport. Í ábendingunni kom m.a. fram að á Stöð 2 eSport mætti finna efni sem bryti gegn lögum um fjölmiðla nr. 38/2011. Í kjölfar ábendingarinnar tók Fjölmiðlanefnd til skoðunar myndefni á Stöð 2 eSport, þar á meðal þættina Rauðvín og klaka.

Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að framsetning og umfjöllun um áfengi í þáttum Rauðvíns og klaka sem sýndir voru á Stöð 2 eSport og Vísi 5. nóvember 2020, 12. nóvember 2020, 19. nóvember 2020, 26. nóvember 2020 og 3. desember 2020 teljist til viðskiptaboða og Sýn hf. hafi þar með gerst brotlegt við 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi.

Jafnframt var það niðurstaða nefndarinnar að með því að auðkenna ekki myndefni sem innihélt vöruinnsetningar í samræmi við d-lið 4. mgr. 39. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 hafi Sýn hf. gerst brotlegt við 2. mgr. 37. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 37. gr., með miðlun dulinna viðskiptaboða fyrir vörur frá Ölgerðinni og Freyju í þáttum Rauðvíns og klaka sem sýndir voru á Stöð 2 eSport og Vísi 19. nóvember 2020, 26. nóvember 2020, 3. desember 2020, 10. desember 2020, 11. febrúar 2021, 18. febrúar 2021, 25. febrúar 2021 og 8. apríl 2021. Í sömu þáttum hafi Sýn hf. með vöruinnsetningum fyrir vörur frá Ölgerðinni og Freyju gerst brotlegt við a-lið 4. mgr. 39. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um að vöruinnsetning megi ekki snerta innihald hljóð- og myndmiðlunarefnisins að öðru leyti (þ.e. ekki megi kynna viðkomandi vöru eða þjónustu með öðrum hætti en þeim að hún sjáist eða að vísað sé til hennar), við b-lið 4. mgr. 39. gr. sömu laga um að ekki skuli beinlínis hvatt til kaupa eða leigu á vörum eða þjónustu og við c-lið 4. mgr. 39. gr. sömu laga um að þær vörur sem um ræðir séu ekki settar fram á óþarflega áberandi hátt.

Að lokum var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að Sýn hf. hafi brotið gegn 1. og 3. mgr. 42. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011, annars vegar þar sem kostendur þáttanna Rauðvín og klakar, þ.e. Ölgerðin, Freyja og Domino‘s, höfðu áhrif á efnistök þátta sem sýndir voru á Stöð 2 eSport og Vísi 3. desember 2020, 18. febrúar 2021 og 8. apríl 2021, og hins vegar með miðlun á kostuðu efni sem fól í sér hvatningu til kaupa á vörum er stöfuðu frá kostendum í þáttum sem sýndir voru á Stöð 2 eSport og Vísi 3. desember 2020, 18. febrúar 2021 og 8. apríl 2021.

Fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu. Sýn hf. hafi áður brotið gegn 2. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við duldum viðskiptaboðum, 4. mgr. 37. gr. sömu laga um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi, 3. mgr. 42. gr. laga sömu laga um bann við hvatningu til kaupa á vörum kostanda í kostuðu myndefni og d-lið 4. mgr. 39. gr. sömu laga um skyldu til að auðkenna myndefni sem inniheldur vöruinnsetningu. Um leið var litið til atvika máls að öðru leyti og þess að um væri að ræða tilraunaverkefni í sjónvarpi hér á landi, sjónvarpsþætti þar sem efnistök væru að mörgu leyti óhefðbundin, á sjónvarpsstöð sem er til þess fallin að höfða sérstaklega til ungs fólks og vekja athygli á rafíþróttum sem áhugamáli og íþróttagrein. Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 500.000 kr.

Ákvörðun 4/2021: Dulin viðskiptaboð, vöruinnsetningar, viðskiptaboð fyrir áfengi og kostað efni í þáttunum Rauðvín og klakar á Stöð 2 eSport og á Vísi – 21. október 2021