Ákvörðun 5/2021: Birting auglýsinga á undan barnaefni á RÚV – 21. október 2021

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með birtingu auglýsinga í tengslum við Sögur – verðlaunahátíð barnanna, dagskrárlið sem að mati nefndarinnar var ætlaður börnum yngri en 12 ára. Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar Sýnar hf.

Samkvæmt ákvæði 5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla eru auglýsingar og fjarkaupainnskot óheimil í dagskrá sem ætluð er börnum 12 ára og yngri. Bannið hefst 5 mínútum áður en dagskrá hefst og stendur þar til 5 mínútum eftir að útsendingu slíkrar dagskrár lýkur.

Að mati fjölmiðlanefndar telst dagskrárliðurinn Sögur – verðlaunahátíð barnanna til efnis sem er ætlað börnum yngri en 12 ára og eru forsendur fyrir því mati nefndarinnar raktar í ákvörðuninni.

Niðurstaða Fjölmiðlanefndar var að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn  5. mgr. 41. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með birtingu auglýsinga beint á undan dagskrárliðnum Sögur – verðlaunahátíð barnanna þann 5. júní 2021. Var Ríkisútvarpinu ohf. gert að greiða 500.000 kr. í stjórnvaldssekt.

Ákvörðun 5/2021: Birting auglýsinga á undan barnaefni á RÚV (Sögur – verðlaunahátíð barnanna) – 21. október 2021