Álit 1/2021: Skráningarskylda fjölmiðla og viðskiptaboð fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi, sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi, í hlaðvarpinu Steve Dagskrá – 21. október 2021

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Steve Dagskrá ehf., fjölmiðlaveita hlaðvarpsins Steve Dagskrá, hafi brotið gegn reglum laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um skráningarskyldu fjölmiðla og bann við viðskiptaboðum fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi, sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi, í hlaðvarpinu Steve Dagskrá.


Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli kvörtunar f.h. Íslenskra getrauna þar sem kvartað var undan viðskiptaboðum fyrir vörumerki Coolbet á Íslandi. Með kvörtuninni fylgdu m.a. upplýsingar um umfjöllun um Coolbet í hlaðvarpinu Steve Dagskrá og hljóðbútur úr þætti hlaðvarpsins frá 15. september 2020. Að mati kvartanda væri um brot gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 að ræða um að óheimil séu viðskiptaboð og fjarkaup fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi. Óskaði Fjölmiðlanefnd í framhaldi kvörtunarinnar eftir upplýsingum og sjónarmiðum fyrirsvarsmanna hlaðvarpsins Steve Dagskrá vegna ætlaðra brota ásamt því að óska eftir því að hlaðvarpið yrði skáð hjá Fjölmiðlanefnd í samræmi við lög um fjölmiðla nr. 38/2011.

Í áliti Fjölmiðlanefndar kemur fram að hlaðvarpið Steve Dagskrá sé fjölmiðill sem beri að lúta skráningarskyldu samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Með því að sinna skráningarskyldu sinni ekki fyrir 2. september 2021, þrátt fyrir ítrekuð erindi Fjölmiðlanefndar þar sem bent var á skráningarskyldu hlaðvarpsins, hafi fjölmiðlaveitan Steve Dagskrá ehf. brotið gegn ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um skráningarskyldu fjölmiðla.

Jafnframt var það niðurstaða nefndarinnar að umfjöllun um Coolbet í þætti hlaðvarpsins Steve Dagskrá sem gerður var aðgengilegur 15. september 2020 teljist til viðskiptaboða og feli þar með í sér brot Steve Dagskrá ehf. gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við viðskiptaboðum fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi.

Fjölmiðlanefnd ákvað að falla frá sektarákvörðun í málinu með vísan til 1. málsl. 5. mgr. 54. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Við þá ákvörðun var tekið mið af því að fjölmiðlaveitan Steve Dagskrá ehf. brást við fyrsta erindi Fjölmiðlanefndar, þar sem vakin var athygli á því að starfsemi hlaðvarpa félli undir lög um fjölmiðla nr. 38/2011, og lét af þeirri hegðun sem var tilefni erindisins. Jafnframt var til þess litið að fjölmiðlaveitan skráði starfsemi hlaðvarpsins Steve Dagskrá degi eftir framlengdan lokafrest og að Fjölmiðlanefnd hefur ekki áður birt álit eða ákvörðun vegna brota Steve Dagskrár ehf. gegn ákvæðum laga um fjölmiðla.

Álit 1/2021: Skráningarskylda fjölmiðla og viðskiptaboð fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi, sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi, í hlaðvarpinu Steve Dagskrá – 21. október 2021