Álit 2/2021: Skráningarskylda fjölmiðla, viðskiptaboð fyrir áfengi og viðskiptaboð fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi, sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi, í hlaðvarpinu FantasyGandalf (síðar The Mike Show) – 21. október 2021

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hugi Halldórsson, fjölmiðlaveita hlaðvarpsins FantasyGandalf (síðar The Mike Show), hafi brotið gegn reglum laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um skráningarskyldu fjölmiðla, bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi og bann við viðskiptaboðum fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi, sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi, í hlaðvarpinu FantasyGandalf (síðar The Mike Show). Starfsemi hlaðvarpsins hefur verið hætt samkvæmt upplýsingum í síðasta þætti þess sem birtur var 27. september 2021.


Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli ábendingar sem barst fyrst þann 20. desember 2019 þar sem athygli Fjölmiðlanefndar var vakin á því að hlaðvarpið FantasyGandalf (síðar The Mike Show) væri ekki skráður fjölmiðill hjá nefndinni. Ábendingin til Fjölmiðlanefndar var ítrekuð stuttu seinna og var þá jafnframt á það bent að umfjöllun um veðmálafyrirtækið Coolbet, sem viðkomandi teldi vera ólögmæt viðskiptaboð, væru áberandi í hlaðvarpinu.

Í áliti Fjölmiðlanefndar kemur fram að hlaðvarpið FantasyGandalf (síðar The Mike Show) hafi verið fjölmiðill sem borið hafi að lúta skráningarskyldu samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Var það jafnframt niðurstaða Fjölmiðlanefndar að með því að sinna ekki skráningarskyldu sinni hafi fjölmiðlaveita miðilsins brotið gegn 1. mgr. 14. gr. laganna nr. 38/2011.

Jafnframt var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að umfjöllun um veðmálafyrirtækið Coolbet í þætti hlaðvarpsins FantasyGandalf (síðar The Mike Show), sem gerður var aðgengilegur 19. nóvember 2020, hafi talist til viðskiptaboða og þar með falið í sér brot gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við viðskiptaboðum fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi.

Loks var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að umfjöllun um BOOM bjór í þætti hlaðvarpsins FantasyGandalf  (síðar The Mike Show) dags. 19. nóvember 2020 hafi talist til viðskiptaboða fyrir áfengi og falið í sér brot gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um bann við viðskiptaboðum fyrir áfengi.

Fjölmiðlanefnd ákvað að falla frá sektarákvörðun í málinu með vísan til 1. málsl. 5. mgr. 54. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Við þá ákvörðun var tekið mið af því að stjórnendur hlaðvarpsins FantasyGandalf  (síðar The Mike Show) brugðust við fyrsta erindi Fjölmiðlanefndar, þar sem vakin var athygli á því að starfsemi hlaðvarpa félli undir lög um fjölmiðla nr. 38/2011. Framsetningu viðskiptaboða var breytt og miðlun ólögmætra viðskiptaboða fyrir veðmálastarfsemi, sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi, var hætt skömmu eftir móttöku erindis nefndarinnar eða um áramótin 2020-2021. Jafnframt var litið til þess að Fjölmiðlanefnd hefur ekki áður birt álit eða ákvörðun vegna brota fjölmiðlaveitu FantasyGandalf (síðar The Mike Show) gegn lögum um fjölmiðla. Loks var tekið mið af því að hlaðvarpið FantasyGandalf (síðar The Mike Show) hefur hætt starfsemi sinni og ber því ekki lengur að lúta skráningarskyldu fjölmiðla samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um fjölmiðla.

Álit 2/2021: Skráningarskylda fjölmiðla, viðskiptaboð fyrir áfengi og viðskiptaboð fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi, sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi, í hlaðvarpinu FantasyGandalf (síðar The Mike Show) – 21. október 2021