Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi

Stofnað hefur verið tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi. Hlutverk tengslanetsins er að auðvelda upplýsingaskipti milli þeirra aðila sem vinna að upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi og greiða fyrir samstarfi meðlima. Aðilar tengslanetsins miðla þar þekkingu, rannsóknum, verkefnum og öðrum úrræðum sem tengjast tengslanetinu.

Upplýsinga- og miðlalæsi er mikilvægt til að efla gagnrýna hugsun þannig að almenningur geti dregið skynsamar ályktanir af þeim upplýsingum sem verða á vegi hans. Aðgangur að traustum upplýsingum er forsenda upplýstrar umræðu. Á síðustu árum hefur dreifing falsfrétta og upplýsingaóreiðu færst mjög í aukana á stafrænum miðlum á sama tíma og netið er að verða stærri og mikilvægari samskiptavettvangur í lýðræðislegri umræðu. Tæknibreytingar hafa gert það að verkum að auðveldara er að dreifa upplýsingum og að sama skapi erfiðara að greina uppruna og sannleiksgildi hinna ýmsu upplýsinga. Mikilvægi upplýsinga- og miðlalæsis hefur því aldrei verið meira.

Mótun á heildstæðri stefnu fyrir Ísland á sviði upplýsinga- og miðlalæsis

Ýmsar stofnanir, fyrirtæki og samtök hafa hingað til unnið þýðingarmikið starf tengt upplýsinga- og miðlalæsi á ólíkum sviðum. Má þar nefna Fjölmiðlanefnd með útgáfu fræðsluefnis um fjölmiðlalæsi, bókasöfn sem stuðla að upplýsingalæsi, Kvikmyndamiðstöð með verkefnum um myndlæsi að ónefndum grunn-, framhalds- og háskólum sem daglega fjalla um læsi í öllum þessum myndum. Til að hægt sé að móta heildstæða stefnu fyrir Ísland á sviði upplýsinga- og miðlalæsis, ná utan um þá þekkingu sem nú þegar er til staðar og ákveða forgangsröðun verkefna í þeirri mikilvægu vinnu sem framundan er, hefur verið  ákveðið að setja á laggirnar tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi að norrænni fyrirmynd. Ólíkir aðilar geta þannig upplýst um stefnu og fyrirhuguð verkefni þannig að hægt verði að fá yfirsýn um stöðu mála hér á landi.

Tilurð tengslanets um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi

Tillögu að stofnun tengslanets um upplýsinga- og miðlalæsi má rekja til þess lögbundna hlutverks Fjölmiðlanefndar að efla miðlalæsi og auka skilning á hlutverki og notkun ólíkra miðla meðal almennings. Með nýrri hljóð- og myndmiðlunartilskipun Evrópusambandsins (2018/1808/ESB), sem innleidd verður hér á landi með breytingum á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011 er gert ráð fyrir því að Fjölmiðlanefnd geri áætlun og ráðstafanir til að efla færni og miðlalæsi almennings. Samkvæmt tilskipuninni þarf að taka saman upplýsingar um fyrirhuguð verkefni og senda þriðja hvert ár skýrslu til Eftirlitsstofnunar EFTA um árangurinn.

Fulltrúar frá eftirfarandi aðilum komu að stofnun TUMA

Fjölmiðlanefnd, SAFT – samfélag, fjölskylda og tækni, Heimili og skóli, Kvikmyndamiðstöð, Landsbókasafn Íslands, Bókasafn Háskólans í Reykjavík, RÚV – Ríkisútvarpið, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samgöngu-og sveitarstjórnarráðuneytið, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið, Listaháskóli Íslands, Háskóli þriðja æviskeiðsins, aðilar frá Háskólasamfélaginu, Endurmenntun HÍ, Símenntun HA, RANNUM – Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun, Barnaheill, Landsnefnd UNESCO, Persónuvernd, Menntasvið Kópavogsbæjar, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Þjónustumiðstöð Breiðholts, AwareGO og RIFF- Reykjavík International Film Festival.

Skilgreining

Upplýsingalæsi- og miðlalæsi er hæfnin til að leita sér að, skilja, greina, meta og skapa upplýsingar á öruggan og skilvirkan hátt í gegn um mismunandi miðla og upplýsingaveitur.

Markmið

  • Að auka yfirsýn yfir þau verkefni sem nú er verið að vinna og miðla þekkingu og reynslu.
  • Að samræma aðgerðir og skapa tækifæri til samstarfs um sértækar aðgerðir.
  • Að forgangsraða verkefnum og móta heildstæða stefnu fyrir Ísland í góðu samstarfi allra aðila sem koma með einum eða öðrum hætti að upplýsinga- og miðlalæsi.
  • Að efla og þroska upplýsinga- og miðlalæsi almennings.