Algengast að beiðni um að börn og ungmenni sendi af sér nektarmyndir komi frá ókunnugum einstaklingum á netinu

Fjögur af hverjum tíu börnum í 8.‐10. bekk hafa verið beðin um að senda af sér nektarmynd og rúmlega helmingur ungmenna á framhaldsskólaaldri. Á báðum skólastigum er mun líklegra að stelpur fremur en strákar hafi fengið beiðni um að senda eða deila af sér nektarmynd. Algengast er að beiðni um að börn og ungmenni sendi af sér nektarmyndir komi frá ókunnugum einstaklingum á netinu. Þetta á við um helming allra 13–18 ára barna sem hafa fengið beiðni um að senda af sér nektarmynd, 55% þolenda í 8.‐10. bekk grunnskóla og 49% í framhaldsskóla. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar um kynferðisleg komment og nektarmyndir meðal nemenda í elstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla.

Skýrslan er annar hluti af sjö og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 23 grunnskólum og 23 framhaldsskólum. Er þetta í fyrsta sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.

Stelpur eru mun líklegri en strákar til að hafa fengið kynferðislegt komment á netinu

Tæplega 20% nemenda í 8.‐10. bekk hafa fengið kynferðislegt komment á netinu síðastliðið ár. Hlutfallið meðal framhaldsskólanema er heldur hærra eða 29%. Meirihluti þátttakenda hefur hins vegar ekki fengið slíkar athugasemdir. Nokkur munur er á fjölda stráka og stelpna sem hafa fengið kynferðislegt komment á netinu síðastliðið ár. Í 8.‐10. bekk eru stelpur (23%) líklegri en strákar (14%) til þess að segjast hafa fengið slík komment. Munurinn milli kynja verður meiri með hækkandi aldri og í framhaldsskóla er hlutfall stelpna um tvöfalt hærra (39%) en stráka (19%).

Þriðjungi fannst viðbjóðslegt að fá kynferðisleg komment á netinu.

-Strákar líklegri til að finnast þau spennandi

Um helmingur þátttakenda sem fengu kynferðisleg komment á netinu valdi valmöguleikann „mér var sama“ til þess að lýsa upplifun sinni af því. Þriðjungi nemenda í 8.-10. bekk fannst viðbjóðslegt að fá slík skilaboð og 11% til viðbótar sögðust hafa fundið fyrir hræðslu. Á framhaldsskólastigi fannst 27% þátttakenda viðbjóðslegt að fá slík skilaboð og 9% fundu fyrir hræðslu. Mun fleiri stelpum en strákum finnst viðbjóðslegt að fá kynferðisleg komment á netinu. Í 8.‐10. bekk eru hlutföllin 43% stelpur og 17% strákar, en í framhaldsskóla eru hlutföllin 44% stelpur og 10% strákar. Einnig er algengara að stelpur á unglingastigi finni frekar fyrir hræðslu en strákar á sama aldri. Strákar eru hins vegar mun líklegri til að finnast kynferðisleg komment á netinu spennandi og/eða líka við þau, sérstaklega í framhaldsskóla en þriðjungi stráka (34%) líkar það á móti aðeins 3% stelpna.

Stelpur eru mun líklegri en strákar til að hafa fengið sendar nektarmyndir

Þriðjungur nemenda í 8.‐10. bekk grunnskóla hefur einhvern tíma fengið sendar nektarmyndir og í framhaldsskóla hefur rúmur helmingur nemenda fengið slíkar myndsendingar. Hærra hlutfall stelpna en stráka á báðum skólastigum hefur fengið sendar nektarmyndir. Í 8.-10. bekk hafa 25% stráka og 42% stelpna einhvern tíma fengið sendar nektarmyndir. Í framhaldsskóla hafa nær sjö af hverjum tíu stelpum fengið slíkar myndsendingar samanborið við fjóra af hverjum tíu strákum.

Rúmlega helmingur þeirra sem hafa fengið sendar nektarmyndir fékk þær frá ókunnugum

Um 7 af hverjum 10 stelpum og 3 af hverjum 10 strákum sem hafa fengið nektarmyndir sendar, fengu þær frá ókunnugum á netinu.Í 8.‐10. bekk fengu tveir af hverjum tíu nektarmyndir sendar frá vini sem er strákur, en einn af hverjum tíu frá vini sem er stelpa. Tæpur helmingur stráka í framhaldsskóla sem hafa móttekið nektarmyndir höfðu fengið myndirnar frá kærustu/kærasta sínum. Hlutfall stelpna sem höfðu fengið nektarmyndir frá kærasta/kærustu sinni er heldur lægra eða 37%. Í báðum aldurshópum eru stelpur aðeins líklegri en strákar til að hafa fengið nektarmyndir frá einhverjum sem þær þekkja af netinu eða stefnumótasíðum.

7 af hverjum 10 stelpum á framhaldsskólaaldri hafa fengið beiðni um að senda nektarmynd

Fjögur af hverjum tíu börnum í 8.‐10. bekk hafa verið beðin um að senda af sér nektarmynd og rúmlega helmingur allra þátttakenda í framhaldsskóla. Á báðum skólastigum er mun líklegra að stelpur fremur en strákar hafi fengið beiðni um að senda eða deila af sér nektarmynd. Tæplega 7 af hverjum 10 stelpum sem hafa fengið beiðni um nektarmynd fengu beiðnina frá ókunnugum á netinu, samanborið við 3 af hverjum 10 strákanna.

Tæplega 3 af hverjum 10 stelpum (18 ára og yngri) í framhaldsskóla hafa sent af sér nektarmynd en 2 af hverjum 10 strákum.

Stelpur eru heldur líklegri til að hafa sent eða deilt af sér nektarmynd undanfarið ár. Í 8.‐10. bekk hafa 12% stelpna sent slíka mynd en 8% stráka. Heldur fleiri þátttakendur í framhaldsskóla hafa sent af sér nektarmynd sl. ár, um þrjár af hverjum tíu stelpum og tveir af hverjum tíu strákum. Á báðum skólastigum höfðu 3% þátttakenda deilt, á síðasta ári, nektarmyndum eða myndskeiðum af öðrum en þeim sjálfum. Þá sögðust 2% þátttakenda í 8.-10. bekk og 3% í framhaldsskóla hafa móttekið greiðslu eða gjöf fyrir að hafa deilt af sér nektarmynd.