Netflix uppfærir aldursmerkingar fyrir Ísland og setur myndtákn við efni

Notendur Netflix á Íslandi hafa hugsanlega veitt því athygli að efni streymisveitunnar hefur nú aðrar aldursmerkingar en áður og að myndtáknum, sem gefa til kynna af hverju efni hefur fengið ákveðið aldursmat, hefur verið bætt við.


Um miðjan febrúar lauk Netflix við að uppfæra aldursmerkingar á efni sem er aðgengilegt íslenskum notendum streymisveitunnar ásamt því að bæta við það svokölluðum myndtáknum. Breytingarnar má rekja til funda Fjölmiðlanefndar með Netflix en nefndin hafði veitt því athygli að aldursmerkingar á efni streymisveitunnar voru ekki í samræmi við aldursmatskerfið sem er notað á Íslandi. Kom í ljós að þær aldursmerkingar sem Netflix notaði fyrir Ísland voru byggðar á þeirra eigin kerfi í stað Kijkwijzer-aldursmatskerfisins sem stuðst er við hérlendis. Kijkwijzer-aldursmatskerfið byggir á stöðlum frá NICAM (Netherlands Institute for the Classification of Audiovisual Media) í Hollandi og hefur það verið innleitt í skoðunarkerfið á Íslandi. Í kerfi Netflix má t.d. finna aldursmerkingarnar 7+ og 13+ sem eru ekki til í Kijkwijzer-aldursmatskerfinu. Verður efni Netflix sem er aðgengilegt íslenskum notendum framvegis merkt í samræmi við Kijkwijzer-aldursmatskerfið.

Skoðunarkerfið sem er notað af ábyrgðaraðilum hérlendis vegna aldurs- og innihaldsmerkinga á kvikmyndum og tölvuleikjum er í umsjá FRÍSK, Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði. Félagið samræmir verklagsreglur á þessu sviði og heldur úti vefnum kvikmyndaskodun.is fyrir hönd félagsmanna sinna. Þar er hægt að leita að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og sjá aldursmörk viðkomandi kvikmyndar eða sjónvarpsþáttar og á hvaða þáttum það mat byggir. Félagsmenn FRÍSK eru flest kvikmyndahús, dreifingaraðilar og sjónvarpsstöðvar landsins.

Hvernig eru íslensku aldursmerkingarnar?

(mynd af vefnum kvikmyndaskodun.is)

Af merkingunum hér að ofan birtist „L“ aðeins öðruvísi á Netflix. Birtist það sem „Al“ sem þýðir „all ages“ eða að efnið sé leyft öllum aldurshópum. Aðrar merkingar eru eins en litirnir birtast þó ekki á Netflix.

Hvað eru myndtákn og hvernig líta þau út?

Eins og áður segir eru myndtákn (e. content pictograms) eða „efnisvísar“ notaðir til að gefa til kynna af hverju efni hefur fengið ákveðið aldursmat. Áhorfendur fá þannig að vita með táknrænum myndum hvað það er við efnið sem hefur áhrif á aldursmatið, t.d. ljótt orðbragð eða ofbeldi.

(mynd af vefnum kvikmyndaskodun.is)

Myndtáknin hér að ofan birtast örlítið öðruvísi á Netflix en merkja það sama.

Aldursmerkingar tölvuleikja

Kijkwijzer-kerfið hefur einnig verið útfært fyrir tölvuleiki undir nafninu PEGI, sem tölvuleikjaframleiðendur hafa komið sér saman um að nota.

(mynd af vefnum kvikmyndaskodun.is)