Myndmiðlar og innlendir vefmiðlar efstir á lista hjá birtingahúsunum 2020

Auglýsendur sem nýttu sér þjónustu hérlendra birtingahúsa vörðu mestu fé í sjónvarpsauglýsingar og auglýsingar á innlendum vefmiðlum árið 2020. Alls runnu 26% auglýsingafjár til myndmiðla og 21% til innlendra vefmiðla árið 2020.

Samantekt Fjölmiðlanefndar á upplýsingum um skiptingu auglýsingafjár byggist á upplýsingum frá stærstu birtingahúsunum hér á landi en ekki á auglýsingakaupum sem fram fóru milliliðalaust af fjölmiðlum og samfélagsmiðlum. Talið er sennilegt að birtingahús ráðstafi um helmingi þess fjár sem fyrirtæki hér á landi verja til auglýsinga í fjölmiðlum og öðrum miðlum. Þess skal getið að tölur fyrir árið 2021 liggja ennþá ekki fyrir.

Myndmiðlar fengu stærstu sneiðina

Myndmiðlar hlutu stærstan hluta eða 26% þess auglýsingafjár sem ráðstafað var af birtingahúsum árið 2020, þrátt fyrir að færri krónum væri varið til auglýsinga í myndmiðlum en árið á undan. Innlendir vefmiðlar hlutu næststærstan hluta auglýsingafjár árið 2020 eða um 21% en hlutur þeirra hækkaði um tæp fjögur prósentustig milli ára. 

Hlutur prentmiðla lækkar mikið milli ára

Prentmiðlar voru í þriðja sæti yfir vinsælustu auglýsingamiðlana árið 2020 á eftir myndmiðlum og innlendum vefmiðlum. Hlutur prentmiðla var um 17% og lækkaði um rúm fimm prósentustig frá árinu 2019. Í töflunni hér fyrir neðan má sjá að birtingahús hafa varið minna fé í auglýsingar í prentmiðlum á síðustu árum og hefur hlutur þeirra af heildarauglýsingakökunni lækkað um rúm tuttugu prósentustig frá árinu 2014. Hljóðmiðlar bættu við sig einu prósentustigi frá fyrra ári en þeir hafa haldið sínum hlut og verið á svipuðu róli síðustu sjö ár. Erlendir vefmiðlar héldu áfram að bæta við sig en hlutfall þeirra jókst um eitt prósentustig milli ára og var 13% árið 2020.

Skipting birtingafjár í  %
2014
2015
2016
2017
2018
2019
2020
Myndmiðlar
29,1%
28,2%
28,5%
25,1%
24,7%
25,6%
26,1%
Hljóðmiðlar
15,8%
16,8%
16,6%
18,6%
16,2%
15,7%
16,6%
Prentmiðlar
37,0%
34,0%
30,4%
28,0%
24,9%
22,4%
16,8%
Innlendir vefmiðlar
12,4%
15,0%
16,7%
17,9%
19,6%
17,2%
20,8%
Erlendir vefmiðlar
3,2%
3,3%
3,6%
4,7%
7,2%
11,9%
13,0%
Annað (útiskilti og bíó)
2,4%
2,7%
4,2%
5,7%
7,4%
7,1%
6,8%

Heildarupphæð lækkaði um milljarð á tveimur árum

Árið 2020 keyptu stærstu birtingahúsin á Íslandi auglýsingar fyrir samtals rúma fjóra milljarða kr. en til samanburðar var upphæðin rúmir fimm milljarðar kr. árið 2018.

Skipting birtingafjár í kr.
2017
2018
2019
2020
Myndmiðlar
   1.358.172.328
   1.262.493.994
   1.138.533.365
   1.084.322.880
Hljóðmiðlar
   1.008.159.090
       826.529.231
       700.384.798
       689.653.736
Prentmiðlar
   1.516.007.960
   1.269.508.113
       994.937.954
       698.312.829
Innlendir vefmiðlar
       967.309.845
       999.952.408
       767.084.891
       866.969.411
Erlendir vefmiðlar
       255.828.325
       366.663.092
       530.475.533
       539.118.958
Annað (útiskilti og bíó)
       310.180.866
       376.402.526
       317.253.926
       283.641.901
 
Samtala
   5.415.658.414
   5.101.549.364
   4.448.670.467
   4.162.019.715

Vefmiðlar

Innlendir og erlendir vefmiðlar hlutu samtals 33,8% þess auglýsingafjár sem ráðstafað var af birtingahúsunum 2020.

Auglýsingar á vefmiðlum í kr.
2017
2018
2019
2020
Innlendir vefmiðlar
       967.309.845
       999.952.408
       767.084.891
       866.969.411
Erlendir vefmiðlar
       255.828.325
       366.663.092
       530.475.533
       539.118.958
(erlendir og innlendir neytendur)
 
 
 
 
Samtala
   1.223.138.170
   1.366.615.500
   1.297.560.424
   1.406.088.369

Þegar auglýsingar á vefmiðlum eru skoðaðar sérstaklega kemur í ljós að innbyrðis skipting milli innlendra og erlendra vefmiðla hefur breyst nokkuð á síðustu árum. Innbyrðis, hlutfallsleg skipting þeirra á milli var um 62/38 árið 2020 (sjá töflu). Til samanburðar var innbyrðis, hlutfallsleg skipting á milli innlendra og erlendra vefmiðla um 80/20 árið 2014. Erlendir vefmiðlar virðast því vera í mikilli sókn en rétt er að taka fram að tölur fyrir erlenda vefmiðla eiga bæði við um auglýsingar fyrir innlenda og erlenda neytendur

Auglýsingar á vefmiðlum í %
2014
2015
2016
2017
2018
2019
2020
Innlendir vefmiðlar
79,6%
82,2%
82,4%
79,1%
73,2%
59,1%
61,7%
Erlendir vefmiðlar
20,4%
17,8%
17,6%
20,9%
26,8%
40,9%
38,3%
(erlendir og innlendir neytendur)
 
 
 
 
 
 
 
 

Samantekt Fjölmiðlanefndar er byggð á tölum frá eftirfarandi birtingahúsum: Pipar-TBWA og The Engine, Ratsjá, Birtingahúsinu, MediaCom, ABS fjölmiðlahúsi og H:N Markaðssamskiptum.

Upplýsingar um skiptingu birtingafjár milli fjölmiðla geta gefið mikilvægar vísbendingar um stöðu og þróun á fjölmiðlamarkaði. Þetta er í sjötta sinn sem Fjölmiðlanefnd birtir samantekt um skiptingu birtingafjár milli miðla. Fyrri niðurstöður eru m.a. aðgengilegar í ársskýrslum Fjölmiðlanefndar, sem nálgast má á vef nefndarinnar, undir flipanum „Um Fjölmiðlanefnd“.