Ákvörðun 1/2022: Beiðni Vilhelms Róberts Wessman um andsvar á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla vegna umfjöllunar um hann á vef Mannlífs 29. janúar og 13. og 17. febrúar 2022 – 2. mars 2022

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Vilhelm Róbert Wessman eigi ekki frekari rétt til andsvara á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 vegna umfjöllunar Mannlífs um hann 29. janúar og 13. og 17. febrúar 2022.


Fjölmiðlanefnd barst kvörtun þann 21. febrúar 2022 frá Lögmannsstofunni Valdimarsson fyrir hönd umbjóðanda hennar, Vilhelms Róberts Wessman. Í kvörtuninni var krafist íhlutunar Fjölmiðlanefndar á hendur félaginu Sólartúni ehf., fjölmiðlaveitu Mannlífs, og Reyni Traustasyni vegna synjunar um andsvör við umfjöllunum Mannlífs um kvartanda sem birtust 27. og 29. janúar og 13. og 17. febrúar 2022. Var vísað til 36. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um rétt til andsvara.

Fjölmiðlanefnd taldi ekki með öllu skýrt hvaða andsvörum kvartandi vildi koma á framfæri og óskaði því eftir frekari upplýsingum. Í svarerindi kvartanda þann 23. febrúar 2022 voru tilgreind þau ummæli sem hann teldi vera röng og hvaða andsvörum hann vildi koma á framfæri. Kom fram í erindinu að umfjöllun á vef Mannlífs innihéldi fullyrðingar um að kvartandi eða einhver á hans vegum hafi verið viðriðinn meint innbrot á skrifstofur Mannlífs. Í greinum á vef Mannlífs væri því jafnframt haldið fram að kvartandi eða einhver á hans vegum hafi gögn undir höndum sem rekja mætti til hins meinta innbrots. Væru þessar fullyrðingar rangar að mati kvartanda. Jafnframt kom fram að grein Mannlífs sem birtist 27. janúar 2022 hafi verið sú eina sem hafi verið leiðrétt að hluta til eftir beiðni kvartanda þess efnis.

Í kjölfarið óskaði Fjölmiðlanefnd eftir sjónarmiðum Sólartúns ehf. vegna beiðni kvartanda um rétt til andsvara. Í svarerindi Sólartúns ehf. kom m.a. fram að félagið gæti ekki tekið undir beiðni kvartanda um andsvör. Í umfjöllunum á vef Mannlífs hafi margsinnis komið fram að kvartandi hafi lýst sig saklausan af umræddu innbroti.

Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram það mat nefndarinnar að lágmarkskröfur um andsvör teljast uppfylltar af hálfu Sólartúns ehf. með þeim fyrirvörum sem gerðir voru í umfjöllunum Mannlífs um kvartanda sem birtust þann 29. janúar og 13. og 17. febrúar 2022. Hafi athugasemdum kvartanda og, eftir atvikum, lögmanna kvartanda, þess efnis að hann hafni aðkomu að innbrotum á ritstjórnarskrifstofur Sólartúns ehf., verið komið á framfæri í umfjöllun Mannlífs um málið.

Ákvörðun 1/2022: Beiðni Vilhelms Róberts Wessman um andsvar á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla vegna umfjöllunar um hann á vef Mannlífs 29. janúar og 13. og 17. febrúar 2022 – 2. mars 2022