Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sólartúni ehf., fjölmiðlaveitu Mannlífs, verði ekki gert að birta andsvör Ómars R. Valdimarssonar samkvæmt kvörtun vegna umfjöllunar um hann á vef Mannlífs þann 18. febrúar 2022.
Fjölmiðlanefnd barst kvörtun þann 23. febrúar 2022 frá Lögmannsstofunni Valdimarsson fyrir hönd umbjóðanda hennar, Ómars R. Valdimarssonar. Í kvörtuninni var krafist íhlutunar Fjölmiðlanefndar á hendur Sólartúni ehf. og Reyni Traustasyni vegna synjunar um andsvör við umfjöllun Mannlífs um kvartanda sem birtist á miðlinum þann 18. febrúar 2022. Var vísað til 36. gr. laga um fjölmiðla um rétt til andsvara. Að mati kvartanda hafi umfjöllun Mannlífs þjónað þeim eina tilgangi að sverta mannorð hans. Umfjöllunin væri bæði röng og óvönduð og ekki væri gætt að hlutleysi eða heimildum. Hafi kvartandi óskað eftir leiðréttingu og reynt að koma á framfæri andsvörum en án árangurs. Í kvörtuninni var gerð nánari grein fyrir því hvaða andsvörum kvartandi vildi koma á framfæri vegna umfjöllunar Mannlífs.
Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram það mat nefndarinnar að lágmarkskröfur um andsvör teljast uppfylltar af hálfu Sólartúns ehf. hvað varðar athugasemdir kvartanda sem settar eru fram í kvörtunarlið 1.1. með þeim fyrirvara sem settur er við umfjöllun Mannlífs. Varðandi athugasemdir kvartanda í kvörtunarliðum 1.2. og 1.3. felur krafa hans í sér annað en að leiðrétta staðreyndir þar sem ekki er um ótvíræðar staðreyndavillur að ræða að mati Fjölmiðlanefndar. Verður Sólartúni ehf. því ekki gert að birta andsvör þau sem tilgreind eru í kvörtun.