Upplýsingaóreiða á ófriðartímum var yfirskrift málstofu sem Háskólinn á Bifröst stóð fyrir í dag í samstarfi við Blaðamannafélag Íslands og Fjölmiðlanefnd. Upplýsingaóreiða hefur farið vaxandi undanfarinn áratug. Þessi varahugaverða þróun, sem m.a. má rekja til aukinnar útbreiðslu samfélagsmiðlunar, hefur nú snúist til enn verri vegar með innrás Rússa í Úkraínu.
Á málstofunni var fjallað um upplýsingaóreiðuna og líkleg áhrif hennar á vestræn lýðræðisríki, m.a. út frá meginreglunni um mikilvægi lýðræðislegrar og gagnsæjar umræðu. Frummælendur á málstofunni voru Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, Eiríkur Bergmann, prófessor við Háskólann á Bifröst og Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands. Fyrirspurnum og umræðum stýrði Njörður Sigurjónsson, prófessor og forseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst.

Áróður sem mikilvægt vopn í stríði
„Við gerum okkur e.t.v. ekki grein fyrir því hvað það eru mikil forréttindi að búa í ríki þar sem almennt ríkir traust fyrr en traustið er horfið,“ sagði Elfa Ýr Gylfadóttir framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar í erindi sínu Áróður sem mikilvægt vopn í stríði. Með innrás Rússa í Úkraínu í febrúar á þessu ári hófst ný flóðbylgja upplýsingaóreiðu yfir Evrópu. Í ljós hefur komið að fjölmargir sem voru móttækilegir fyrir Covid-19 upplýsingaóreiðu á Vesturlöndum, m.a. frá Rússum, fóru að bergmála rússneskum áróðri. Þennan áróður má að einhverju leyti rekja aftur til þeirra áróðursbragða sem notuð voru í kalda stríðinu (1947-1991) en hafa nú verið uppfærð til að gagnast í upplýsingasamfélagi 21. aldar.
Lýðræðið og réttarríkið
Frjálslynd lýðræðisríki geta aldrei brugðist við áróðri og upplýsingaóreiðu með sama hætti og einræðisríki. Á Vesturlöndum þarf að virða réttarríkið, mannréttindi og lýðræðið. Ef tekin er ákvörðun um að skerða tjáningarfrelsið þarf það að vera af brýnni nauðsyn, t.d. vegna þjóðaröryggis, en þá þarf jafnframt að gæta meðalhófs.
Málstofuna í heild sinni má finna hér: