Ákvörðun 3/2022: Beiðni Vilhelms Róberts Wessman um andsvör á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla vegna umfjöllunar á vef Mannlífs 17. maí 2022 – 31. maí 2022

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sólartúni ehf. hafi verið heimilt að synja beiðni Vilhelms Róberts Wessman um andsvör vegna umfjöllunar á vef Mannlífs þann 17. maí 2022 á grundvelli b-liðar 2. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla.


Fjölmiðlanefnd barst kvörtun þann 24. maí 2022 frá Lögmannsstofunni Valdimarsson fyrir hönd umbjóðanda hennar, Vilhelms Róberts Wessman. Í kvörtuninni var krafist íhlutunar Fjölmiðlanefndar á hendur Sólartúni ehf., fjölmiðlaveitu Mannlífs, Reyni Traustasyni, ritstjóra, og Gunnhildi Kjerúlf Birgisdóttur, blaðamanni, vegna synjunar um andsvör við umfjöllun Mannlífs um kvartanda sem birtist 17. maí 2022. Var vísað til 36. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um rétt til andsvara.

Í kvörtuninni var vísað til umfjöllunar Mannlífs 17. maí 2022 undir fyrirsögninni „Lögreglan hefur enn ekki yfirheyrt Róbert Wessman: „Það er ekki búið að því““. Sama umfjöllun hafi jafnframt verið birt á ensku. Að mati kvartanda hafi Mannlíf farið með rangt mál í fyrrgreindri umfjöllun og ekki gætt að hlutleysi eða heimildum. Væri umfjöllunin bæði óvönduð og bersýnilega röng með annarlegan hvata að leiðarljósi að mati kvartanda. Umfjöllunin bæri þess merki að kvartandi hafi haft aðkomu að innbroti á skrifstofur Mannlífs og fullyrt væri að lögreglan ætti eftir að yfirheyra kvartanda vegna málsins. Hafi kvartandi krafist þess að Mannlíf myndi birta nánar tiltekin andsvör, bæði á íslensku og ensku, vegna umfjöllunarinnar en því verið synjað. Fór kvartandi því fram á að Fjölmiðlanefnd tryggði rétt hans til andsvara, sbr. 4. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla.

Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að í andsvörum kvartanda vegna umfjöllunar á vef Mannlífs þann 17. maí 2022 felist annað en að leiðrétta staðreyndir. Var það því niðurstaða nefndarinnar að Sólartúni ehf. hafi verið heimilt að synja kvartanda um birtingu andsvara vegna umfjöllunar Mannlífs, sbr. b-lið 2. mgr. 36. gr. laga um fjölmiðla.

Ákvörðun 3/2022: Beiðni Vilhelms Róberts Wessman um andsvör á grundvelli 36. gr. laga um fjölmiðla vegna umfjöllunar á vef Mannlífs 17. maí 2022 – 31. maí 2022