Auglýst er eftir umsóknum einkarekinna fjölmiðla um rekstrarstuðning sem veittur verður á árinu 2022. Umsóknir skulu sendar Fjölmiðlanefnd og er umsóknarfrestur til og með 2. ágúst 2022.
Með breytingu á lögum um fjölmiðla nr. 38/2011, sem samþykkt var á Alþingi 25. maí 2021, var Úthlutunarnefnd veitt heimild til að ákvarða rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla. Úthlutunarnefnd skipa Árni Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður, Stefán Svavarsson endurskoðandi og Valgerður Anna Jóhannsdóttir, lektor við Háskóla Íslands.
Í X. kafla B laga um fjölmiðla, sbr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjölmiðla sem samþykkt var á Alþingi 25. maí 2021, og reglugerð nr. 770/2021 um rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla, eru tilgreind skilyrði fyrir rekstrarstuðningi til einkarekinna fjölmiðla og einnig getið sérstakra atriða sem þurfa að koma fram í umsókn. Er umsækjendum bent á að kynna sér þau og einnig hvaða kröfur eru gerðar um gögn sem eiga að fylgja umsókn. Samkvæmt lögunum sér Fjölmiðlanefnd um umsýslu umsókna og veitir Úthlutunarnefnd sérfræðiaðstoð eftir nánara samkomulagi.
Til úthlutunar árið 2022 verða 384,3 millj. kr. að frádreginni þóknun fyrir störf Úthlutunarnefndar og öðrum kostnaði við umsýslu. Í 62. gr. i. laga um fjölmiðla kemur fram að rekstrarstuðningur skuli að hámarki vera 25% af stuðningshæfum rekstrarkostnaði umsækjanda. Þá ráðist endanlegt hlutfall af umfangi og fjölda umsókna.
Umsóknargögn og leiðbeiningar eru neðar á síðunni. Sækja þarf skjölin, vista og fylla út í tölvu. Þegar umsóknareyðublaðið hefur verið útfyllt þarf að prenta það út til undirritunar, skanna og senda, ásamt viðauka og þeim fylgiskjölum sem beðið er um í umsókn. Mikilvægt er að öll fylgiskjöl fylgi með umsókn.
Umsóknir skulu berast á netfangið postur@fjolmidlanefnd.is fyrir miðnætti 2. ágúst nk. Ef spurningar vakna varðandi útfyllingu umsóknar má senda fyrirspurn á framangreint netfang.
Umsóknargögn:
Umsóknareyðublað vegna rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla 2022 (smella til að sækja)
Viðauki við umsókn vegna fjölda starfsmanna og launakostnaðar (smella til að sækja)
Skýrslugjöf fjölmiðla samkvæmt 23. gr. laga um fjölmiðla:
Skýrsluform fjölmiðla vegna skýrslugjafar fyrir rekstrarárið 2021