Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn 2. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 með kostun á þáttunum Tónaflóð um landið sem sýndir voru á RÚV sumrin 2020 og 2021.
Þættirnir Tónaflóð um landið voru í beinni útsendingu á RÚV og Rás 2 sumrin 2020 og 2021. Um var að ræða beina útsendingu frá sumartónleikum RÚV og Rásar 2 og voru þættirnir sendir út frá öllum landshlutum, einum í senn. Þar var lögð áhersla á íslenska tónlist og slagara sem tengdust viðkomandi landshlutum. Hljómsveitin Albatross bauð til sín þekktum og óþekktum söngvurum úr hverjum landshluta og voru áhorfendur í sal á meðan sóttvarnartakmarkanir leyfðu. Ferðinni í kringum landið lauk með Menningarnæturdansleik í Gamla bíói í Reykjavík.
Fjölmiðlanefnd barst ábending þann 25. febrúar
2022, þar sem vísað var til yfirlits yfir kostaða dagskrárliði á RÚV,
sem birt hafði verið í ársskýrslu RÚV fyrir rekstrarárið 2020. Fram kom að aðilinn sem ábendinguna sendi teldi nauðsynlegt að taka til gagngerrar skoðunar hvort allir dagskrárliðir sem kostaðir hefðu verið árið 2020 uppfylltu skilyrði fyrir kostun og heimild til þess að rjúfa dagskrá með auglýsingahléum. Var sérstaklega vísað til þess að þættirnir Tónaflóð gætu ekki talist íburðarmiklir dagskrárliðir í skilningi undantekningarákvæðis 2. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið.
Meginregla 2. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið
felur í sér að Ríkisútvarpinu er óheimilt að afla tekna með kostun
dagskrárefnis. Þó má víkja frá þeirri reglu í eftirfarandi tilvikum:
a. við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða, til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti
b. við útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá.
Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um Ríkisútvarpið eru nefnd dæmi um íburðarmikla dagskrárliði sem falla undir undantekningu frá banni við kostun dagskrárefnis en það eru t.d. útsendingar frá Ólympíuleikum, Evrópu- og heimsmeistarakeppni í handknattleik eða knattspyrnu og Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
Við meðferð málsins vísaði Ríkisútvarpið til þess að útsending RÚV og Rásar 2 frá árlegum útitónleikum Menningarnætur í Reykjavík í ágúst teljist vera íburðarmikill dagskrárliður, eins og fram komi í auglýsingareglum RÚV og RÚV Sölu. Ákveðið hafi verið sumarið 2020, meðal annars í ljósi þeirra aðstæðna sem þá ríktu, að fjölga tónleikum og færa þá landsbyggðinni. Hafi tónleikar verið haldnir víðs vegar um landið það sumar undir merkjum Tónaflóðs. Til hafi staðið að ljúka tónleikaröðinni með stórtónleikum frá Arnarhóli í Reykjavík á Menningarnótt en ekki hafi orðið af því vegna sóttvarnarráðstafana. Þess í stað hafi lokatónleikarnir farið fram í Gamla bíói. Hafi þættirnir Tónaflóð verið hugsaðir sem „safn tónleika í einu knippi“, þ.e. að litið hafi verið svo á að einstakir tónleikar væru samofnir útsendingu lokatónleika Menningarnætur og þannig hafi þeir verið taldir flokkast undir að vera íburðarmikill dagskrárliður. Jafnframt kom fram í svörum RÚV að eftir vandlega yfirlegu telji RÚV, eftir á að hyggja, að kostun Tónaflóðs 2020 og 2021 hafi ekki samrýmst auglýsingareglum RÚV og lögum nr. 23/2013. Hvorki hafi verið um að ræða þáttaröð sem talist geti íburðarmikill dagskrárliður samkvæmt lögum og skilgreiningu í auglýsingareglum RÚV, og hafi enda aldrei verið litið svo á, né geti einstakar útsendingar, að Menningarnótt frátalinni, talist íburðarmiklar eftir efni sínu. Þá hafi ekki verið rétt að líta á allar útsendingarnar sem eina samfellda heild, líkt og raunin hafi verið.
Að fengnum sjónarmiðum Ríkisútvarpsins í málinu var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að Ríkisútvarpið ohf. hefði brotið gegn 2. mgr. 7. gr. laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 með kostun þáttanna Tónaflóð sumrin 2020 og 2021. Taldi nefndin hæfilegt að stjórnvaldssekt vegna brotsins næmi 1.500.000 kr.