Fjórðungur barna og ungmenna hefur séð ráðleggingar um hvernig hægt sé að grenna sig verulega (t.d. með lystarstoli eða búlimíu)

Undanfarið ár hefur tæpur þriðjungur 13–18 ára ungmenna séð umræður á netinu um ógnvekjandi eða ofbeldisfullar myndir þar sem verið er að meiða manneskjur eða dýr. Fjórðungur barna í 8.-10. bekk hefur séð umræðu um hvernig hægt sé að grenna sig verulega. Nálægt einn af hverjum fimm á þessum aldri hefur séð hatursskilaboð sem beindust að einstaklingum eða hópum (21%) og áætlanir um slagsmál (21%). Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar um fréttir, falsfréttir og skaðlega umræðu á netinu sem gefin er út í dag.

Skýrslan er sjötti hluti af sjö og byggir á niðurstöðum könnunarinnar „Börn og netmiðlar“ sem Menntavísindastofnun framkvæmdi fyrir Fjölmiðlanefnd í 23 grunnskólum og 23 framhaldsskólum meðal grunn- og framhaldsskólanema á aldrinum 9-18 ára . Er þetta í fyrsta sinn sem Fjölmiðlanefnd, í samstarfi við Menntavísindastofnun, birtir niðurstöður slíkrar umfangsmikillar könnunar. Fyrirhugað er að að gera sambærilega könnun á tveggja til þriggja ára fresti til að kanna miðlanotkun og færni barna og ungmenna þannig að hægt verði að bera saman niðurstöðurnar og hvernig notkun þróast.

Lestur frétta á netmiðlum og samfélagsmiðlum eykst með aldri

Sjónvarp er sá miðill sem börn og ungmenni á aldrinum 9-18 ára segjast helst nota til þess að fylgjast með fréttum. Með hækkandi aldri eykst hlutfall þeirra sem fylgjast með eða sjá fréttir oft eða stundum á fréttamiðlum á netinu úr 41% í 86%. Svipuð aukning samhliða hækkandi aldri má sjá við lestur frétta á samfélagsmiðlum. Um helmingur yngsta aldurshópsins sér aldrei fréttir á samfélagsmiðlum (49%) sem er skiljanlegt þar sem yngsti hópurinn notar síður samfélagsmiðla en tveir eldri aldurshóparnir. Hlustun á fréttir í hlaðvarpi og/eða útvarpi eykst nokkuð jafnt með aldri, frá 40% meðal yngstu þátttakenda í 56% í nemendur á framhaldsskólaaldri. Lítill hluti barna og ungmenna les fréttir oft í blöðum (3-5%). Tæplega 60% barna og ungmenna les aldrei fréttir í blöðum.

Íþróttafréttir vinsælastar meðal grunnskólanema en innlendar- og erlendar fréttir meðal framhaldsskólanema

Um helmingur grunnskólanema í 4.-7. bekk (47%) hefur áhuga á íþróttafréttum. Helmingi færri í þeim aldurshópi hafa áhuga á menningu og listum og afþreyingu/frægu fólki (23%). Í 8.-10. bekk eru íþróttafréttir einnig vinsælastar og þar á eftir afþreying/frægt fólk (39%) og erlendar fréttir (33%). Meðal framhaldsskólanema er mestur áhugi á innlendum fréttum (40%) og erlendum fréttum (39%) auk menningu og lista (28%). Hlutfall framhaldsskólanema sem segist hafa áhuga á íþróttafréttum er næstum helmingi lægra en meðal grunnskólanema.

Flestir gerðu ekkert þegar að þeir rákust á falsfrétt

Rúmlega helmingur grunnskólanema í 8.-10 bekk telur sig hafa séð falsfrétt á netinu sl. ár. Í framhaldsskóla eru 76% þátttakenda sem telja sig hafa séð falsfrétt. Töluvert hærra hlutfall nemenda í 8.-10. bekk (37%) en í framhaldsskóla (20%) eru ekki viss hvort þeir hafi séð falsfrétt. Langflest 13-18 ára barna sem höfðu séð frétt sem þau grunuðu að verið gæti falsfrétt gerðu ekkert. Í 8.-10. bekk eru það sjö af hverjum tíu þátttakendum og í framhaldsskóla um sex af   hverjum tíu svarendum. Fjórðungur þátttakenda í 8.-10. bekk sagðist hafa leitað frekari upplýsinga á netinu í þessum aðstæðum. Mun færri skoðuðu áreiðanlega fréttamiðla (9%).

Stelpur tvöfalt líklegri til að sjá ráðleggingar um hvernig þær geti grennt sig verulega

Fjórðungur barna og ungmenna á aldrinum 13-18 ára hefur séð ráðleggingar um hvernig hægt sé að grenna sig verulega (td. með lystarstoli eða búlimíu). Hlutfall stelpna sem hafa séð slíkar ráðleggingar er nálægt tvöfalt hærra en stráka, eða 30-35% samanborðið við 15-18%. Aðeins fleiri 8.-10. bekkingar (19%) en framhaldsskólanemar (16%) höfðu séð umræðu á netinu um leiðir til að skaða sig.

Ofbeldisfullar myndir og leiðir til að skaða sig

Tæplega þrír af hverjum tíu 13-18 ára nemendum hafa séð myndir á netinu undanfarið ár þar sem verið var að meiða einstaklinga eða dýr. Nokkuð hærra hlutfall stelpna en stráka hafði séð slíkar myndir, eða um þrjár af tíu stelpum samanborið við tvo af tíu strákum. Aðeins fleiri 8.-10. bekkingar (19%) en framhaldsskólanemar (16%) höfðu séð umræðu á netinu um leiðir til að skaða sig. Hlutfall stelpna var hærra en stráka sem höfðu séð slíka umræðu.

Hatursskilaboð sem beinast að ákveðnum einstaklingum eða hópum

Um 21% nemenda í 8.-10. bekk og 29% framhaldsskólanema hafa séð hatursskilaboð t.d. gegn fólki af öðrum uppruna, trúarbrögðum eða kynhneigð. Í 8.-10. bekk er hlutfall stelpna 2% hærra en stráka. Í framhaldsskóla er hlutfall strákanna 11% hærra en stelpna, þar hefur þriðjungur stelpna og fjórðungur stráka séð slík skilaboð.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á myndina af forsíðunni hér fyrir neðan