Ákvörðun 5/2022: Viðskiptaboð fyrir áfengi og viðskiptaboð fyrir veðmálastarfsemi í hlaðvarpinu Þungavigtin á Vísi – 24. ágúst 2022

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Sýn hf. hafi brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með miðlun viðskiptaboða fyrir annars vegar áfengi og hins vegar fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi, sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi, í hlaðvarpinu Þungavigtin á Vísi.


Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli ábendinga sem bárust Fjölmiðlanefnd í nóvember 2021 þar sem vakin var athygli á því að í hlaðvarpinu Þungavigtin á Vísi mætti finna auglýsingar fyrir Víking Lite og Coolbet. Með þeim væri brotið gegn ákvæðum laga um fjölmiðla um bann við áfengisauglýsingum og auglýsingum fyrir veðmálastarfsemi. Í kjölfar ábendinganna tók Fjölmiðlanefnd hlaðvarpið til skoðunar.

Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að viðskiptaboð fyrir vörutegundirnar Víking Lite, Víking Lite Jóla og Víking Lite Lime í hlaðvarpinu Þungavigtin teljist til viðskiptaboða fyrir áfengi og að með miðlun þeirra í þáttum hlaðvarpsins á tímabilinu 30. september 2021 til og með 4. janúar 2022 hafi Sýn hf. sem fjölmiðlaveita þar með brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla sem bannar slík viðskiptaboð.

Jafnframt var það niðurstaða Fjölmiðlanefndar að umfjöllun í hlaðvarpinu Þungavigtin um fatnað merktan Coolbet, í þeim þáttum sem nefndin athugaði, væri til þess fallin að vekja, beint eða óbeint, athygli á vörum, þjónustu eða ímynd veðmálasíðunnar Coolbet. Fjölmiðlanefnd tekur ekki undir þau sjónarmið Sýnar hf. að með umræddum viðskiptaboðum frá Coolbet hafi einungis verið auglýstar „fatalínur“ Coolbet en ekki veðmálastarfsemi. Er það vel þekkt að fyrirtæki og aðrir aðilar merki fatnað með vörumerki sínu og heiti í markaðslegum tilgangi. Jafnframt var umræðan í Þungavigtinni um vörumerkið Coolbet oft tengd við veðmál. Var umfjöllun um „fatalínur“ frá Coolbet ætlað að þjóna auglýsingamarkmiðum og vekja athygli á veðmálastarfsemi Coolbet að mati Fjölmiðlanefndar. Hafi Sýn með miðlun viðskiptaboða fyrir Coolbet í þáttum hlaðvarpsins á tímabilinu 22. október 2021 til og með 4. janúar 2022 því brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla sem bannar viðskiptaboð fyrir happdrættis- og veðmálastarfsemi sem ekki hefur leyfi lögum samkvæmt hér á landi.

Fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu. Sýn hf. hafi áður brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla. Jafnframt var litið til eðli brota Sýnar hf. og atvika máls að öðru leyti. Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 1.000.000 kr.

Ákvörðun 5/2022: Viðskiptaboð fyrir áfengi og viðskiptaboð fyrir veðmálastarfsemi í hlaðvarpinu Þungavigtin á Vísi – 24. ágúst 2022