Regluverk um frelsi fjölmiðla

Fram undan eru ýmsar breytingar á Evrópuregluverki um fjölmiðla sem miða að því að vernda blaðamenn og styðja við frelsi fjölmiðla og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. En hvað er það í umhverfi fjölmiðla sem kallar á þessar breytingar og út á hvað ganga þær?

Hallað hefur á frelsi og sjálfstæði fjölmiðla í Evrópu af mörgum ástæðum á síðustu árum. Á það sérstaklega við um ríki eins og Ungverjaland og Pólland, þar sem stjórnvöld hafa gripið til umdeildra aðgerða gegn bæði einkareknum fjölmiðlum og almannaþjónustufjölmiðlum. Árið 2021 létust sex blaðamenn í Evrópu vegna starfa sinna,  netárásum á blaðamenn fjölgaði og 282 tilkynningar vegna mála sem talin voru skerða fjölmiðlafrelsi það ár voru skráðar á vefinn Vettvang til verndar blaðamönnum, sem Evrópuráðið heldur úti.

Fleira ógnar frelsi fjölmiðla og öryggi blaðamanna um þessar mundir. Heimsfaraldur kórónuveiru hafði neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi fjölmiðla um allan heim. Störfum í blaða- og fréttamennsku fækkaði og starfsöryggi fjölmiðlafólks minnkaði að sama skapi. Auglýsingafé hélt áfram að renna til bandarískra tæknifyrirtækja, aðallega Google og Meta (Facebook), og upplýsingaóreiða og hatursorðræða á netmiðlum ýtti undir pólitíska skautun í samfélagsumræðunni.

Tilhæfulausar málsóknir gegn blaðamönnum áhyggjuefni
Eitt af því sem valdið hefur áhyggjum margra sem fylgjast með stöðu og þróun fjölmiðlamála í Evrópu er fjöldi tilhæfulausra málsókna gegn blaðamönnum og öðrum þátttakendum í opinberri umræðu. Á ensku hafa slíkar málsóknir verið kallaðar „Strategic Lawsuits Against Public Participation“ eða SLAPP til styttingar. Fimmtán tilkynningar um slík mál bárust til Evrópuráðsins árið 2021 frá löndum eins og Króatíu, Búlgaríu, Möltu, Bretlandi og Rúmeníu. Bent hefur verið á að þótt ekki endi öll slík mál fyrir dómstólum sé kostnaður við að verjast meiðyrðamálsóknum víða svo hár að jafnvel hótanir um málsóknir geti verið nóg til að kæfa gagnrýna umræðu. Því geti óttinn við að fá á sig lögsókn valdið því að blaðamenn og aðrir veigri sér við að setja mál á dagskrá og taka þátt í opinberri umræðu um mál sem varðar almannahagsmuni.

Til að bregðast við tilhæfulausum málsóknum gegn blaðamönnum birti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins þann 27. apríl 2022 drög að tilskipun um vernd einstaklinga sem taka þátt í opinberri umræðu gegn bersýnlega tilefnislausum eða óréttmætum lögsóknum, en tilskipuninni og tilmælum um sama efni er ætlað að verja blaðamenn fyrir kælandi áhrifum meiðyrðamálssókna á tjáningarfrelsið. Þá birti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins haustið 2021 tilmæli um að vernda, valdefla og tryggja öryggi blaðamanna og annarra sem starfa í fjölmiðlum þar sem sérstök athygli er vakin á því að kvenkyns blaðamenn verða fremur fyrir árásum á netinu gagngert vegna starfa sinna en karlkyns kollegar þeirra. Evrópuráðið hefur einnig látið til sín taka í þessum efnum og hefur á síðustu mánuðum birt fjölda tilmæla um starfsumhverfi og frelsi fjölmiðla.

Nýtt regluverk um fjölmiðlafrelsi
Þann 16. september síðastliðinn dró til tíðinda þegar framkvæmdastjórn Evrópusambandins birti drög að reglugerð um frelsi fjölmiðla, European Media Freedom Act. Markmið regluverksins er að verja sjálfstæði og ritstjórnarlegt frelsi fjölmiðla í Evrópu, koma í veg fyrir samþjöppun eignarhalds og stuðla að fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Samhliða reglugerðinni voru gefin út leiðbeinandi tilmæli um ritstjórnarlegt sjálfstæði og gagnsæi eignarhalds fjölmiðla.

Í reglugerðardrögunum er meðal annars kveðið á um ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla, vernd heimildarmanna og bann við ólögmætu eftirliti með blaðamönnum með notkun njósnabúnaðar. Fram kemur að stjórnvöld í hverju aðildarríki skuli virða ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla. Í því felist bann við því að hafa afskipti af ritstjórnarstefnu og ritstjórnarákvörðunum fjölmiðla. Jafnframt felist í því bann við því að beita fjölmiðlafólk eða fjölskyldur þess þvingunar- og rannsóknarúrræðum í því skyni að knýja fólk til að veita upplýsingar um heimildarmenn sína, nema unnt sé að réttlæta slíkt með því að ríkari almannahagsmunir séu af því að verndinni verði aflétt en trúnaði haldið. Þá verður óheimilt að nota njósnabúnað af nokkru tagi til að hafa eftirlit með starfsmönnum fjölmiðla eða fjölskyldum þeirra, nema unnt sé að réttlæta eftirlitið með vísan til þjóðaröryggis eða rannsókna alvarlegra sakamála.

Í annan stað er kveðið á um sjálfstæði almannaþjónustufjölmiðla. Í því felst meðal annars að almannaþjónustufjölmiðlar eigi að miðla fjölbreyttum upplýsingum og skoðunum með hlutlægni að leiðarljósi, að stjórnir almannaþjónustufjölmiðla skuli skipaðar í opnu og gagnsæu ferli, að einungis megi víkja stjórnarmönnum frá störfum í fyrirfram skilgreindum undantekningartilvikum og að aðildarríki tryggi fullnægjandi og stöðuga fjármögnun almannaþjónustufjölmiðla án þess að vegið verði að ritstjórnarlegu sjálfstæði þeirra.

Í þriðja lagi eru fyrirmæli um sérstakar skyldur fjölmiðla sem miðla fréttum og fréttatengdu efni um gagnsæi eignarhalds fréttamiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði og skráningu hagsmuna sem haft geta áhrif á miðlun frétta og fréttatengds efnis. Fjölmiðlar sem miðla fréttum og fréttatengdu efni eiga að gera upplýsingar um raunverulega eigendur aðgengilegar almenningi, þar á meðal upplýsingar um hluthafa sem eru í aðstöðu til að hafa áhrif á starfsemi og stefnumótandi ákvarðanir fjölmiðilsins.

Jafnframt er í reglugerðardrögunum kveðið á um gagnsæi og hlutlægni við framkvæmd fjölmiðlamælinga og gagnsæi og sanngirni í auglýsingakaupum hins opinbera.

Loks fela drögin í sér að komið verði á fót nýjum samráðshópi eftirlitsaðila, The European Board for Media Services (EBMS), sem gegna mun ráðgjafarhlutverki gagnvart framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og stuðla að samvinnu eftirlitsstofnana á þessu sviði. Um leið verði lagður niður samráðshópur eftirlitsaðila á sviði hljóð- og myndmiðlunar, ERGA, sem Fjölmiðlanefnd  situr í fyrir hönd Íslands.

Skýr skilaboð til stjórnvalda, fjölmiðlafólks og almennings
Um er að ræða drög sem eiga eftir að fara í gegnum formlegt ferli innan Evrópusambandsins og því má gera ráð að þau eigi eftir að taka einhverjum breytingum. Gert er ráð fyrir að reglugerðin verði innleidd í landslög hér á landi þegar þar að kemur, þ.e. eftir að hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar. Í þessu samhengi skal þess getið að hér á landi voru reglur um gagnsæi eignarhalds fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði fréttamanna og vernd heimildarmanna fjölmiðla lögfestar með lögum um fjölmiðla nr. 38/2011.

Skiptar skoðanir eru um European Media Freedom Act. Heyrst hafa raddir um að með regluverkinu seilist Evrópusambandið of langt og að þrátt fyrir háleit markmið sé fyrst og fremst um pólitískt plagg að ræða. Margir hafa þó væntingar til þess að með hinni nýju löggjöf, verði hún samþykkt óbreytt, verði frelsi og ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla á evrópska efnahagssvæðinu betur tryggt. Í öllu falli er ljóst að reglugerðardrögin innihalda skýr skilaboð til stjórnvalda, fjölmiðlafólks og almennings um mikilvægi þess að standa vörð um frelsi og sjálfstæði fjölmiðla.

 

Höf: Heiðdís Lilja Magnúsdóttir
heiddis@fjolmidlanefnd.is