Ákvörðun 6/2022: Miðlun erlends efnis án íslensks texta eða tals á sjónvarpsstöðinni Omega – 27. október 2022

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Kristniboðskirkjan Omega hafi brotið gegn 2. mgr. 29. gr. laga fjölmiðla nr. 38/2011 með miðlun erlends efnis án íslensks texta eða tals á sjónvarpsstöðinni Omega.


Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli ábendinga sem bárust Fjölmiðlanefnd í ágúst 2022 þar sem vakin var athygli á því að sjónvarpsstöðin Omega hefði miðlað erlendu efni án íslensks texta eða tals, a.m.k. frá seinni hluta júlí til byrjun ágúst 2022, í andstöðu við 29. gr. laga um fjölmiðla.

Í ákvörðun Fjölmiðlanefndar kemur fram að samkvæmt athugun Fjölmiðlanefndar á grundvelli afrita af dagskrá sjónvarpsstöðvarinnar Omega á tilteknum dögum, sem Fjölmiðlanefnd óskaði eftir við meðferð málsins og Kristniboðskirkjan Omega afhenti nefndinni, hafi nokkru magni af erlendu dagskrárefni verið miðlað á sjónvarpsstöðinni Omega án íslensks texta eða tals. Athugun Fjölmiðlanefndar leiddi jafnframt í ljós að slíku efni væri ennþá miðlað daglega á sjónvarpsstöðinni. Að mati Fjölmiðlanefndar ættu þær undanþágur frá textun hljóð- og myndefnis á erlendu máli sem tilgreindar eru í 29. gr. laga um fjölmiðla ekki við um sjónvarpsstöðina Omega og því væri um brot að ræða gegn 2. mgr. þeirrar greinar.

Fjölmiðlanefnd taldi ekki ástæðu til að falla frá sektarákvörðun í málinu. Kristniboðskirkjan Omega hafi áður brotið gegn 2. mgr. 29. gr. laga um fjölmiðla, sbr. ákvörðun Fjölmiðlanefndar nr. 3/2013. Jafnframt var litið til eðli brota Kristniboðskirkjunnar Omega og atvika máls að öðru leyti. Taldi Fjölmiðlanefnd hæfilegt að sektin næmi 350.000 kr.

Fjölmiðlanefnd beindi því einnig til Kristniboðskirkjunnar Omega, í ljósi þess að sjónvarpsstöðin Omega miðlaði áfram erlendu efni án íslensks texta eða tals, að fjölmiðlaveitan tryggði að umrætt efni yrði framvegis í samræmi við 29. gr. laga um fjölmiðla ellegar hætti miðlun þess fyrir 10. nóvember 2022, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um fjölmiðla.

Ákvörðun 6/2022: Miðlun erlends efnis án íslensks texta eða tals á sjónvarpsstöðinni Omega – 27. október 2022