Persónuverndarstefna Fjölmiðlanefndar

Fjölmiðlanefnd leggur áherslu á að vernda persónuupplýsingar einstaklinga og virða réttindi þeirra. Í persónuverndarstefnu þessari eru m.a. veittar upplýsingar um það hvers konar persónuupplýsingar nefndin vinnur, í hvaða tilgangi það er gert, miðlun persónuupplýsinga af hálfu nefndarinnar og hvernig að öryggi þeirra er gætt í starfsemi hennar.

Persónuupplýsingar eru allar upplýsingar sem hægt er að tengja við tiltekinn einstakling, t.d. nafn, kennitala, fingrafar og netfang. Persónuverndarstefna þessi tekur því aðeins til einstaklinga en ekki lögaðila.

Fjölmiðlanefnd er ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer af hálfu nefndarinnar. Öll vinnsla persónuupplýsinga fer fram í samræmi við gildandi lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hverju sinni.

Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem annast eftirlit samkvæmt lögum um fjölmiðla nr. 38/2011, auk þeirra verkefna sem nefndinni eru falin í lögum um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 og lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum nr. 62/2006. Nefndinni er ætlað að efla fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum og standa vörð um tjáningarfrelsi og rétt almennings til upplýsinga. Nefndin skal sérstaklega stuðla að því að vernd barna sé virt.

Fjölmiðlanefnd er til húsa að Borgartúni 21, 105 Reykjavík. Sími nefndarinnar er 415-0415 og netfang hennar er postur@fjolmidlanefnd.is

Fjölmiðlanefnd hefur tilnefnt Heiðdísi Lilju Magnúsdóttur, lögfræðing hjá nefndinni, sem persónuverndarfulltrúa. Netfang persónuverndarfulltrúans er heiddis@fjolmidlanefnd.is. Þú getur einnig sent bréf til Fjölmiðlanefndar en þá skal umslagið vera merkt persónuverndarfulltrúanum.

Í flestum tilfellum fær Fjölmiðlanefnd persónuupplýsingar beint frá þér þegar:

  • Þú kvartar til Fjölmiðlanefndar, sendir inn fyrirspurn eða ábendingu.
  • Þú sækir um leyfi til hljóð- eða myndmiðlunar eða sækir um skráningu fjölmiðils, sem ekki þarfnast leyfis.
  • Þú hefur óskað eftir aðgangi að gögnum samkvæmt stjórnsýslulögum eða upplýsingalögum.
  • Þú hefur sótt um starf hjá Fjölmiðlanefnd, setið í Fjölmiðlanefnd eða Fjölmiðlanefnd hefur samið við þig um að sinna tímabundnum verkefnum fyrir nefndina.

Fjölmiðlanefnd tekur einnig við persónuupplýsingum frá öðrum en þér sjálfri/sjálfum í eftirfarandi tilvikum:

  • Þegar þú ert barn undir 13 ára aldri og forsjáraðili þinn kvartar til Fjölmiðlanefndar fyrir þína hönd. Þegar svo háttar til skal Fjölmiðlanefnd gera það sem sanngjarnt má telja í slíkum aðstæðum til að sannreyna að samþykki sé gefið eða heimilað af hálfu forsjáraðila.
  • Þú hefur verið tilgreindur sem fyrirsvarsmaður fjölmiðlaveitu og/eða ábyrgðarmaður fjölmiðils við skráningu fjölmiðlaveitu/fjölmiðils hjá Fjölmiðlanefnd.
  • Fjölmiðlanefnd hefur átt í samskiptum við fyrirtæki eða stjórnvald sem þú starfar fyrir og viðkomandi hefur gefið upp persónuupplýsingar um þig í svari sínu.
  • Sá sem beinir kvörtun eða öðru erindi til Fjölmiðlanefndar vísar til þín í samskiptum sínum við nefndina.
  • Fjölmiðlanefnd berst kvörtun yfir því að þú hafir brotið gegn lögum um fjölmiðla.
  • Fjölmiðlanefnd fær persónuupplýsingar þínar við rannsókn máls.
  • Fjölmiðlanefnd fær persónuupplýsingar þínar frá öðrum stjórnvöldum.
  • Þú kemur fram fyrir hönd fjölmiðils, fyrirtækis eða stjórnvalds, t.d. við svörun erinda, beiðni um upplýsingar o.s.frv.
  • Umsækjandi um starf vísar til þín sem meðmælanda.

Fjölmiðlanefnd er stjórnvald sem heyrir undir stjórnsýslulög nr. 37/1993 og upplýsingalög nr. 140/2012. Þú getur átt rétt að gögnum um þig sjálfa/sjálfan samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga, þar sem fjallað er um rétt aðila máls til aðgangs að málsgögnum, og einnig samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga. Hér getur verið skörun milli lagabálka sem meta verður hverju sinni.

Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum þýðir að skjöl, þar með taldar persónuupplýsingar, sem ekki eru vinnugögn, kunna að vera afhent þeim sem óskar eftir því. Í sumum tilfellum eru upplýsingar hins vegar trúnaðarmál og verða ekki afhentar. Til dæmis er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á, sbr. 9. gr. upplýsingalaga. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

a. Upplýsingar um eigendur og ábyrgðarmenn fjölmiðla

Fjölmiðlanefnd birtir upplýsingar um allar skráðar fjölmiðlaveitur og fjölmiðla á vef sínum, www.fjolmidlanefnd.is. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 21. gr. laga um fjölmiðla ber nefndinni að birta nafn þess sem tilkynnt hefur starfsemi sína eða hlotið leyfi, kennitölu, lögheimili, netfang og vefsetur og gildistíma leyfis þegar slíkt á við.

Upplýsingagjöf Fjölmiðlanefndar á vefnum felur einnig í sér að birta skal nöfn eigenda og ábyrgðarmanna allra skráðra fjölmiðla í íslenskri lögsögu, sbr. b- og e-lið 1. mgr. 21. gr. laga um fjölmiðla.

Í þeim tilvikum þegar einstaklingur, en ekki lögaðili, tilkynnir um starfsemi fjölmiðils, kann Fjölmiðlanefnd að vera skylt að birta upplýsingar um kennitölu, lögheimili, netfang og vefsetur viðkomandi einstaklings.

Heimilt er að vinna framangreindar upplýsingar vegna lagaskyldu sem hvílir á Fjölmiðlanefnd, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr. persónuverndarreglugerðar ESB 2016/679 (pvrg.), sbr. 3. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018. Framangreindar upplýsingar eru afhentar Fjölmiðlanefnd af hálfu viðkomandi fjölmiðlaveitu á grundvelli 2. mgr. 14. gr. eða 1. mgr. 17. gr. laga um fjölmiðla.

b. Birting ákvarðana og álita

Ákvarðanir og álit eru birt opinberlega á vef Fjölmiðlanefndar. Upplýsingar um viðkvæm einkamálefni einstaklinga, sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari, eru þó ávallt felldar út áður en ákvarðanir eða álit eru birt opinberlega á vefnum, sbr. h-lið 1. mgr. 21. gr. laga um fjölmiðla.

c. Upplýsingar um Fjölmiðlanefnd og starfsmenn nefndarinnar

Fjölmiðlanefnd birtir nöfn nefndarmanna og starfsmanna nefndarinnar á vef sínum, auk upplýsinga um störf þeirra, menntun og starfsreynslu, með þeirra samþykki, sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. pvrg., sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 90/2018.

Þú átt rétt á því að fá að vita hvaða persónuupplýsingar Fjölmiðlanefnd vinnur um þig og rétt á að fá aðgang og afrit af þeim persónuupplýsingum. Í sumum tilvikum geta undantekningar frá réttinum átt við, s.s. vegna réttinda annarra sem vega skulu þyngra, en almenna reglan er sú að veita skuli aðganginn.

Þú átt einnig rétt á því að óska leiðréttingar á persónuupplýsingum um þig, sem þú telur rangar. Þá getur þú beðið Fjölmiðlanefnd að bæta upplýsingum við þær persónuupplýsingar sem nefndin hefur um þig og þú telur ófullnægjandi.

Rétturinn til eyðingar eða rétturinn til að gleymast á ekki við um vinnslu persónuupplýsinga hjá Fjölmiðlanefnd, þar sem nefndin er bundin að lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 til að varðveita allar upplýsingar sem henni berast. Í persónuverndarlögum er sérstaklega tekið fram að réttur til eyðingar persónuupplýsinga og til að gleymast eigi ekki við þegar lög mæla fyrir um að upplýsingar skuli varðveittar. Þú átt þó rétt á að biðja um að vinnsla persónuupplýsinga um þig sé takmörkuð í ákveðnum aðstæðum.

Ef þú telur að Fjölmiðlanefnd hafi ekki unnið með lögmætum hætti með persónuupplýsingar þínar skalt þú hafa samband við persónuverndarfulltrúa stofnunarinnar.

a. Vefgreining. Fjölmiðlanefnd hefur í nokkur ár notað vefgreiningarforrit Google Analytics til þess að greina notkun á vef nefndarinnar. Tilgangur þess er að fá fram tölfræðiupplýsingar sem eru til dæmis notaðar til að varpa ljósi á það hversu margir heimsækja vef Fjölmiðlanefndar á ári hverju, hvaða undirsíður á vefnum notendur skoða helst og hvort þeir koma inn á gegnum vefinn beint eða í gegnum t.d. samfélagsmiðlana Facebook eða Twitter.  Persónuvernd hafði í árslok 2022 ekki tekið formlega afstöðu til lögmætis notkunar Google Analytics á íslenskum vefsíðum, þ.e. hvort notkun greiningarvélar Google samræmist persónuverndarlöggjöfinni með tilliti til reglna um flutning persónuupplýsinga til þriðju landa.

Sú vinnsla persónuupplýsinga sem fram fer í tengslum við vefgreiningu á vefsíðu Fjölmiðlanefndar, sbr. framangreint, styðst við heimild í f-lið 1. mgr. 6. gr. persónuverndarreglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 6. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, en samkvæmt þessum ákvæðum er heimilt að vinna með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt vegna lögmætra hagsmuna sem ábyrgðaraðili eða þriðji maður gætir, nema hagsmunir eða grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem krefjast verndar persónuupplýsinga vegi þyngra. Hinir lögmætu hagsmunir eru hér fólgnir í því að Fjölmiðlanefnd geti veitt notendum vefsíðunnar betri þjónustu og sinnt fræðslu- og leiðbeiningarhlutverki sínu betur. 

b. Vefkökur. Vefkökur (e. cookies) eru litlar textaskrár sem oft eru vistaðar á tölvunni þinni eða í öðrum snjalltækjum þegar þú heimsækir vefsíður. Vefur Fjölmiðlanefndar notar vefkökur sem nauðsynlegar eru fyrir virkni vefsins. Þá eru vefkökur jafnframt notaðar í þágu vefgreiningar, sbr. umfjöllun í kafla 9a hér að ofan.

a. Símtöl

Hvorki símanúmer þeirra sem hringja til Fjölmiðlanefndar né erindi eða símboð til starfsmanna Fjölmiðlanefndar með beiðni um að hringt verði í viðkomandi til baka eru skráð sérstaklega hjá nefndinni. Ekki er skráður fjöldi þeirra símtala sem Fjölmiðlanefnd berst í hverjum mánuði eða hversu lengi hvert símtal varir. Fjölmiðlanefnd tekur símtöl ekki upp.

Þegar þú kemur óformlegum ábendingum á framfæri við nefndina símleiðis eru þær skráðar í rafræna málaskrá Fjölmiðlanefndar, þar sem allar ábendingar eru skráðar og flokkaðar eftir árum. Nafn þitt og aðrar tengiliðaupplýsingar eru aðeins skráðar þar ef þú gefur þær sjálf/ur upp. Það er hins vegar ekki nauðsynlegt að gefa upp nafn eða aðrar persónugreinanlegar upplýsingar þegar ábendingum er komið á framfæri við nefndina.

Þegar þú hringir í Fjölmiðlanefnd í tengslum við tiltekið mál sem er til meðferðar hjá Fjölmiðlanefnd er efni símtalsins og tengiliðaupplýsingar þínar skráðar í minnisblað og vistað í rafrænni málaskrá nefndarinnar. Fjölmiðlanefnd er skylt samkvæmt upplýsingalögum að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega.

b. Tölvupóstur

Þegar þú hefur samband við Fjölmiðlanefnd í gegnum tölvupóst skaltu hafa í huga að tölvupósturinn þinn getur verið ódulkóðaður sem þýðir að mögulegt er fyrir óviðkomandi að lesa póstinn í sendingu. Því skaltu forðast það að tölvupósturinn innihaldi viðkvæmar persónuupplýsingar um þig sjálfa/n eða aðra. Ef þú þarft að senda Fjölmiðlanefnd gögn með viðkvæmum persónuupplýsingum er best að nota ábyrgðarpóst eða koma með gögnin á skrifstofu Fjölmiðlanefndar. Fjölmiðlanefnd sendir ekki viðkvæmar persónuupplýsingar í tölvupósti þar sem ekki er hægt að tryggja öryggi persónuupplýsinganna í slíkri sendingu.

Allur tölvupóstur sem Fjölmiðlanefnd berst er skimaður fyrir tölvuveirum og vistaður í málaskrá Fjölmiðlanefndar.

c. Bréfpóstur

Fjölmiðlanefnd varðveitir öll bréf sem nefndinni berast í skjalasafni sínu, auk þess sem öll bréf eru skönnuð og vistuð í rafrænu málaskrárkerfi.

d. Heimsókn á skrifstofu Fjölmiðlanefndar

Almennt tekur Fjölmiðlanefnd ekki á móti fólki á skrifstofu Fjölmiðlanefndar nema það eigi bókaðan fund. Þó er ávallt hægt að koma á skrifstofu nefndarinnar á skrifstofutíma og afhenda eða sækja gögn, t.d. leggja fram umsókn um skammtíma- eða almenn leyfi, tilkynna um skráningu fjölmiðla eða leggja fram kvörtun vegna mögulegra brota á lögum um fjölmiðla, lögum um Ríkisútvarpið eða lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum.

a. Fyrirspurnir og ráðgjöf

Þegar þú hefur samband við Fjölmiðlanefnd með fyrirspurn eða biður um ráðgjöf vinnur Fjölmiðlanefnd með persónuupplýsingar um þig til að geta svarað þér. Fjölmiðlanefnd vinnur eingöngu með upplýsingar sem nauðsynlegt er að vinna með til að geta svarað spurningum þínum. Til dæmis vinnur Fjölmiðlanefnd upplýsingar um netfangið þitt og nafn, kjósir þú að gefa það upp, þegar fyrirspurnum er svarað í tölvupósti.

Persónuupplýsingar í fyrirspurnum eru varðveittar í 30 ár  hjá Fjölmiðlanefnd en eftir þann tíma er gögnum skilað til Þjóðskjalasafns Íslands í samræmi við varðveisluskyldu samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn.

Heimilt er að vinna framangreindar upplýsingar vegna lagaskyldu sem hvílir á Fjölmiðlanefnd, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr. pvrg., sbr. 3. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018.

b.    Kvörtun til Fjölmiðlanefndar

Þegar Fjölmiðlanefnd vinnur úr kvörtunum eru unnar persónuupplýsingar í þeim tilgangi að beita opinberu valdi, sbr. e-lið 1. mgr. 6. gr. pvrg., sbr. 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018. Þær upplýsingar sem um ræðir geta t.d. verið tengiliðaupplýsingar og aðrar upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að vinna úr málinu, svo sem upplýsingar er varða meint brot fjölmiðla á friðhelgi einkalífs þess einstaklings sem kvartar til Fjölmiðlanefndar.

Persónuupplýsingar í kvörtunarmálum eru varðveittar í 30 ár hjá Fjölmiðlanefnd en eftir þann tíma er gögnum skilað til Þjóðskjalasafns Íslands í samræmi við varðveisluskyldu samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn.

Fjölmiðlanefnd er heimilt að vinna framangreindar upplýsingar vegna þess að það er nauðsynlegt við beitingu opinbers valds sem Fjölmiðlanefnd fer með sbr. e-lið 1. mgr. 6. gr. pvrg., sbr. 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018. Heimilt er að vinna viðkvæmar persónuupplýsingar í tengslum við kvartanir ef slík vinnsla er nauðsynleg af ástæðum sem varða verulega almannahagsmuni og fer fram á grundvelli laga, sbr. g-lið 2. mgr. 9. gr. pvrg., sbr. 7. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2018.

c. Leyfisveitingar og tilkynningar fjölmiðla um starfsemi

Þegar Fjölmiðlanefnd berst umsókn um almennt leyfi eða skammtímaleyfi til hljóð- eða myndmiðlunar eða tilkynning um skráningu fjölmiðils er unnið með persónuupplýsingar þess einstaklings sem sækir um leyfið, ef það við, og persónuupplýsingar fyrirsvarsmanns viðkomandi fjölmiðlaveitu, ábyrgðarmanns/manna og eigenda fjölmiðils/fjölmiðla. Umsækjanda um almenn og skammtímaleyfi til hljóð- og myndmiðlunar ber að afhenda Fjölmiðlanefnd upplýsingar um nöfn og heimilisföng ábyrgðarmanna og fyrirsvarsmanns, sbr. b-lið 1. mgr. 17. gr. laga um fjölmiðla. Þá ber umsækjanda um almenn leyfi og skammtímaleyfi að afhenda nefndinni vottorð um heimilisfesti, lögræði og búsforræði sitt og ábyrgðarmanna, sbr. 3. mgr. 17. gr. Fjölmiðlanefnd birtir nöfn, og eftir atvikum netföng, fyrirsvars- og ábyrgðarmanna og eigenda fjölmiðla á vef sínum en ekki aðrar persónuupplýsingar.

Öll vinnsla persónuupplýsinga í tengslum við leyfisveitingar og skráningu fjölmiðla byggist á lagaskyldu sem hvílir á Fjölmiðlanefnd, sbr. c-lið 1. mgr. 6. gr. pvrg., sbr. 3. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018.

d. Ábendingar

Fjölmiðlanefnd skráir allar ábendingar sem henni berast um möguleg brot á lögum um fjölmiðla, lögum um Ríkisútvarpið og lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, í málaskrárkerfi sitt. Berist ábendingin með tölvupósti er netfang og nafn sendandans skráð. Berist Fjölmiðlanefnd skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið hennar, áframsendir hún erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, að höfðu samráði við þann sem sendir erindið, sé þess kostur. Berist ábendingin símleiðis, án þess að þú gefir nafn þitt upp, er eingöngu efni ábendingarinnar skráð.

Ábendingar eru varðveittar í 30 ár hjá Fjölmiðlanefnd en eftir þann tíma er gögnum skilað til Þjóðskjalasafns Íslands í samræmi við skilaskyldu samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn.

Heimilt er að vinna framangreindar upplýsingar vegna þess að það er nauðsynlegt við beitingu opinbers valds sem Fjölmiðlanefnd fer með, sbr. e-lið 1. mgr. 6. gr. pvrg., sbr. 5. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018. Heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga er í g-lið 2. mgr. 9. gr. pvrg., sbr. 7. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2018.

a. Tilkynningar Fjölmiðlanefndar til Persónuverndar

Fjölmiðlanefnd tilkynnir Persónuvernd um öryggisbrot við meðferð persónuupplýsinga eigi síðar en 72 tímum eftir að brotsins verður vart. Eingöngu skal tilkynna Persónuvernd um öryggisbrot þegar líklegt er talið að öryggisbrotið leiði af sér áhættu eða mikla áhættu fyrir réttindi og frelsi einstaklings. Í slíkum tilkynningunum skulu koma fram upplýsingar um eðli öryggisbrots við meðferð persónuupplýsinga, nafn og samskiptaupplýsingar persónuverndarfulltrúa, líklegar afleiðingar öryggisbrots og þær ráðstafanir sem Fjölmiðlanefnd hefur gert eða fyrirhugar að gera vegna öryggisbrotsins, þ.m.t., eftir því sem við á, ráðstafanir til að milda hugsanleg skaðleg áhrif þess. Þegar áhrif áhættu fyrir einstaklinga í kjölfar öryggisbrots eru metin fer matið fram með hliðsjón af leiðbeiningum Persónuverndar um tilkynningar um öryggisbresti.

b. Tilkynningar Fjölmiðlanefndar til einstaklinga

Almennt þarf ekki að upplýsa einstaklinga um öll öryggisbrot. Ef líklegt er að öryggisbrot við meðferð persónuupplýsinga leiði af sér mikla áhættu fyrir réttindi og frelsi einstaklinga skal Fjölmiðlanefnd þó tilkynna hinum skráða um brotið án ótilhlýðilegrar tafar.

c. Tilkynningar vinnsluaðila til Fjölmiðlanefndar

Samningur Fjölmiðlanefndar við vinnsluaðila skal kveða á um að vinnsluaðilar aðstoði nefndina við að tryggja skyldur hennar, hvað varðar tilkynningu um öryggisbrot, séu uppfylltar, að teknu tilliti til eðlis vinnslunnar og upplýsinga sem vinnsluaðili hefur aðgang að. Vinnsluaðili skal tilkynna Fjölmiðlanefnd um það án ótilhlýðilegrar tafar ef hann verður var við öryggisbrot í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga. Líta skal svo á að Fjölmiðlanefnd hafi sem ábyrgðaraðili orðið vör við öryggisbrot þegar vinnsluaðili tilkynnir henni um það.

d. Skrá yfir öryggisbresti

Fjölmiðlanefnd skal skrá niður hvers kyns öryggisbresti sem verða við vinnslu persónuupplýsinga og tilgreina málsatvik í tengslum við viðkomandi brot, áhrif þess og þær aðgerðir til úrbóta sem gripið var til.

a. Starfsmenn

Fjölmiðlanefnd vinnur með persónuupplýsingar um starfsmenn sína til að geta greitt þeim laun fyrir störf sín. Tilteknar upplýsingar eru nauðsynlegar í því skyni, s.s. tengiliðaupplýsingar, launaflokkur, skattþrep, stéttarfélagsaðild, bankaupplýsingar, lífeyrissjóðsupplýsingar o.fl. Aðrar upplýsingar eru tengdar starfslýsingu starfsmanns.

Heimilt er að vinna framangreindar upplýsingar, þar sem það er nauðsynlegt til að efna samning sem hinn skráði er aðili að, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. pvrg., sbr. 2. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018. Heimilt er að vinna upplýsingar um stéttarfélagsaðild á grundvelli samþykkis starfsmanns, sbr. a-lið 2. mgr. 9. gr. pvrg., sbr. 1. tölul. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 90/2018.

Framangreindar upplýsingar eru skráðar á sérstakt svæði í málaskrá stofnunarinnar, sem eingöngu framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar hefur aðgang að.

b. Umsækjendur um störf

Fjölmiðlanefnd vinnur með persónuupplýsingar um þig þegar þú sækir um starf hjá nefndinni. Tilteknar upplýsingar eru nauðsynlegar við mat umsókna, s.s. tengiliðaupplýsingar, ferilskrá, kynningarbréf, upplýsingar um menntun, umsagnir þriðja aðila og önnur samskipti við umsækjendur.

Heimilt er að vinna framangreindar upplýsingar þar sem það er nauðsynlegt til að gera ráðstafanir að beiðni hins skráða áður en samningur er gerður, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. pvrg., sbr. 2. tölul. 9. gr. laga nr. 90/2018.

Framangreindar upplýsingar eru skráðar á sérstakt svæði í málaskrá stofnunarinnar, sem eingöngu framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar hefur aðgang að.

a. Upplýsingaöryggi

Fjölmiðlanefnd hefur sett sér upplýsingaöryggisstefnu og gert viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja viðunandi öryggi persónuupplýsinga og kerfa nefndarinnar.

b. Notkun vinnsluaðila

Tölvukerfi Fjölmiðlanefndar eru rekin innan stofnunarinnar og hjá Opnum kerfum. Opin kerfi þjónusta netafritun af útstöðvum og póstþjón.

Vefsíða Fjölmiðlanefndar er hýst hjá Tactica á Íslandi. Engin tenging er á milli vefsíðunnar og annarra tölvukerfa Fjölmiðlanefndar.

Skjala- og verkefnastjórnunarkerfið CoreData er þróað og rekið af CoreData Solutions.

Tímaskráning starfsmanna fer fram í Vinnustund, sem er hluti af Orra (fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins.) Þá er Fjölmiðlanefnd í greiðslu- og bókhaldsþjónustu hjá Fjársýslu ríkisins.

Starfsmenn Fjölmiðlanefndar sjá sjálfir um símsvörun fyrir nefndina. Allir starfsmenn Fjölmiðlanefndar hafa undirritað trúnaðaryfirlýsingu gagnvart nefndinni.