Upplýsinga- og miðlalæsisvika í fyrsta skipti á Íslandi 13.-17. febrúar

Sérstök fræðsluvika tileinkuð upplýsinga- og miðlalæsi verður haldin í fyrsta skipti á Íslandi vikuna 13.-17. febrúar. Fordæmi eru fyrir slíkum vikum í öðrum löndum og hefur vinnuhópurinn sem stendur að verkefninu verið í góðu samstarfi við KAVI í Finnlandi og Medietilsynet í Noregi við undirbúning. Markmiðið er að gera vikuna að árlegum viðburði þar sem lögð verður áhersla á vitundarvakningu á mikilvægi upplýsinga- og miðlalæsis ásamt því að bjóða upp á nýtt fræðsluefni með mismunandi þema milli ára.

Upplýsinga- og miðlalæsi er hæfnin til að leita sér að, skilja, greina, meta og skapa upplýsingar á öruggan og skilvirkan hátt í gegnum mismunandi miðla og upplýsingaveitur. Ein stærsta samfélagsbreyting sem orðið hefur er að eiga sér stað nú á upplýsingaöld. Hún birtist í þeim áskorunum sem tæknin færir okkur og við sem samfélag þurfum að læra að bregðast við henni, öðlast sífellt nýja þekkingu og færni í að sýna ábyrga og viðeigandi hegðun í netheimi.

Nýtt fræðsluefni til að aðstoða kennara við að eiga samtal við nemendur um ábyrga síma- og netnotkun

Í vikunni verður nýtt fræðsluefni í miðlalæsi fyrir miðstig grunnskóla (5.-7. bekkur) kynnt til sögunnar og gert aðgengilegt öllum skólum á landinu.

Samtal – Aldursmerkingar – Fréttir & falsfréttir – Hatur & áreiti – Klám

Um er að ræða 6 stutt fræðslumyndbönd með mismunandi þema sem tengist miðlalæsi. Hverju myndbandi fylgja umræðupunktar og kennsluleiðbeiningar til þess að aðstoða kennara við að eiga samtal við nemendur um ábyrga síma og netnotkun.

  • Samtal um samfélagsmiðla
  • Samfélagsmiðlar og aldursmerkingar
  • Fréttir og falsfréttir
  • Hatur og áreiti á netinu
  • Áhorf á klám á netinu
  • Líðan og samfélagsmiðlar

Eftir að hafa horft á myndböndin og tekið samtal um hvert og eitt þeirra gerir hver bekkur fyrir sig sáttmála þar sem nemendur sjálfir setja sér reglur og ramma um notkun á símum og samfélagsmiðlum eða uppfæri eldri sáttmála bekkjarins. Fræðsluefnið byggir á niðurstöðum víðtækrar rannsóknar Fjölmiðlanefndar og Menntavísindastofnunar Háskóla Íslands á börnum og netmiðlum.

Málþing um upplýsinga- og miðlalæsi í Grósku 16. febrúar

Í upplýsinga- og miðlalæsisvikunni verður haldið málþing í fyrirlestrarsal Grósku í Vatnsmýri 16. febrúar kl. 9:00-12:00. Dagskráin verður kynnt síðar en þar munu sérfræðingar á mismunandi sviðum miðlalæsis (upplýsinga-, mynd- og fjölmiðlalæsis) vera með erindi, ásamt gestafyrirlesara frá Írlandi. Málþingið verður aðgengilegt í streymi fyrir þau sem komast ekki á staðinn.

Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi á Íslandi

Tengslanet um upplýsinga- og miðlalæsi (TUMI) stendur að vikunni með styrk frá Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og Sóley, styrktarsjóði á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Eftirfarandi stofnanir, ráðuneyti, fyrirtæki og samtök eiga fulltrúa í tengslanetinu:

Fjölmiðlanefnd, SAFT & Heimili og skóli, Menntasvið Kópavogsbæjar, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Mixtúra, Kvikmyndamiðstöð, Landsbókasafn Íslands, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, RÚV – Ríkisútvarpið, Menntavísindastofnun Háskóla Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið, Listaháskóli Íslands, Háskóli þriðja æviskeiðsins, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Endurmenntun HÍ, Símenntun HA, RANNUM – Rannsóknarstofa í upplýsingatækni og miðlun, Barnaheill, Landsnefnd UNESCO, Persónuvernd, Þjónustumiðstöð Breiðholts, Samstarfshópur um stafræna borgaravitund, Upplýsing – félag bókasafns- og upplýsingafræða, Félag framhaldsskólabókasafna, Samtök forstöðumanna almenningsbókasafna, AwareGO, Embætti Landlæknis og RIFF- Reykjavík International Film Festival.