Ný skýrsla: Upplýsingaóreiða og skautun í íslensku samfélagi

Upplifun á hatursfullum ummælum, einelti eða áreiti og hótunum um ofbeldi á netinu hækkar milli ára á Íslandi í nýrri skýrslu Fjölmiðlanefndar sem nefnist „Upplýsingaóreiða og skautun í íslensku samfélagi“. Ögranir og/eða háð hafði þá neikvæð áhrif á þátttöku tæplega helmings þátttakenda (43%) í umræðum á netinu. Það veldur áhyggjum að svo hátt hlutfall fólks í samfélaginu upplifi óöryggi í umræðum á netinu og haldi sig að einhverju leyti til hlés.

Við stöndum á ákveðnum krossgötum. Sem þjóð erum við nýkomin út úr heimsfaraldri kórónuveirunnar. Þegar við vorum rétt farin að sjá fyrir endann á veirufaraldrinum réðust Rússar inn í Úkraínu. Síðustu ár hafa því einkennst af ákveðinni óvissu og ókyrrð í samfélaginu. Þegar óvissa ríkir reynir almenningur að leita sér upplýsinga sem hægt er að treysta. En á óvissutímum opnast jafnframt möguleiki fyrir ýmsa aðila á að fylla upp í tómarúmið með falsupplýsingum og upplýsingaóreiðu.

Fleiri upplifa hatursfull ummæli, einelti og hótanir

Það vakti athygli í síðustu rannsókn Fjölmiðlanefndar árið 2021 hversu mikill munur var á niðurstöðum könnunar á Íslandi og í Noregi varðandi upplifun fólks á hatursfullum ummælum, einelti, ögrunum og hótunum um ofbeldi á netinu. Á myndinni hér fyrir neðan eru bláu súlurnar íslenskar tölur og þær rauðu eru norskar tölur. Þegar niðurstöðurnar úr þessari rannsókn (ljósbláu súlurnar) eru bornar saman við eldri tölur kemur í ljós aukning í þremur af fjórum liðum. Hærra hlutfall hefur nú upplifað hatursfull ummæli, einelti eða áreiti og hótanir um ofbeldi.

Ógn við lýðræði að hópur fólks dragi sig úr umræðunni vegna ögrana og/eða háðs

Ögranir og/eða háð hafði neikvæð áhrif á þátttöku tæplega helmings þátttakenda (43%) í rannsókninni. Alls sögðust 15% hafa brugðist við með þeim hætti að vera varkárari í að lýsa skoðunum sínum á netinu, 8% leituðu frekar í umræður í lokuðum hópum og 15% hættu að taka þátt í umræðum á netinu. Það veldur áhyggjum að svo hátt hlutfall fólks í samfélaginu upplifi óöryggi í umræðum á netinu og dragi sig að einhverjum hluta til hlés. Með því skapast hættan á því að samtalið á netinu endurspegli ekki samfélagið sem heild því hluti fólks treystir sér ekki til þess að taka þátt. Hættan er að þessi hópur upplifi sig sem raddlausan og bældan og þar með ekki með sama tilverurétt á netinu og annað fólk. Það hefur áhrif á samfélagssáttmálann og lýðræðislega umræðu.

Samsæriskenningar vaxandi vandamál

Á síðustu árum hafa hinar ýmsu samsæriskenningar orðið vaxandi vandamál á alþjóðavettvangi. Rannsóknir benda til þess að meirihluti fólks trúi á að minnsta kosti eina samsæriskenningu og að sumir hópar séu móttækilegri fyrir samsæriskenningum en aðrir. Það eru ekki ýkja margar rannsóknir sem gerðar hafa verið á bæði tegund og umfangi samsæriskenninga og lengst af þóttu slíkar rannsóknir e.t.v. ekki nauðsynlegar þegar verið var að kanna viðhorf almennings. Á síðustu árum hefur þótt mikilvægara en áður að kortleggja upplýsingaóreiðu og tilvist slíkra kenninga.

Hvaða hópa mislíkar fólki við í samfélaginu?

Spurt var hvort fólki mislíkaði mjög við tiltekna hópa í samfélaginu. Þeim sem svöruðu því játandi gafst kostur á að merkja við ólíka hópa. Listinn var byggður á rannsókn sænska SOM-institutet sem tilheyrir Gautaborgarháskóla. Þær breytingar voru gerðar við íslenska staðfærslu sænsku rannsóknarinnar að sænskum stjórnmálaflokkum var skipt út fyrir íslenska stjórnmálaflokka. Þá var ekki spurt um Sama í íslensku könunnuninni en þess í stað spurt um Pólverja, þar sem þeir eru langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Loks var í íslensku könnuninni einnig spurt um talsmenn útgerðarinnar/sjávarútvegsfyrirtækja og um blaða- og fréttamenn vegna fréttaflutnings síðustu missera. Reynt var að hafa könnunina eins samanburðahæfa við niðurstöður sænsku rannsóknarinnar og hægt var en þó þannig að hún endurspeglaði íslenskan veruleika.

Athygli vekur að þeir hópar í samfélaginu sem fólki mislíkar mjög virðast einkennast af tilteknum skoðunum. Þetta er í fullu samræmi við niðurstöður sænsku könnunarinnar. Mun fleirum líkar illa við vopnasafnara hér á landi en í Svíþjóð. Hugsanlega má rekja þennan mismun milli landa til fréttaflutnings í fjölmiðlum síðustu mánuði af söfnun og meðferð skotvopna hér á landi. Bláu súlurnar á myndinni hér fyrir neðan eru niðurstöður íslensku rannsóknarinnar. Til samanburðar eru appelsínugul strik í bláu súlunum en þau sýna hvernig Svíar svöruðu sömu spurningum.