Úttekt á aðgengi almennings að sjónvarpsútsendingum

Fjölmiðlanefnd hefur látið framkvæma úttekt á aðgengi almennings að sjónvarpsútsendingum á grundvelli 7. mgr. 46. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011. Samkvæmt ákvæðinu skal jafnframt metið hvort aðstæður kalli á breytingar á ákvæðum VII. kafla laganna um flutningsreglur.

Úttektin er gefin út á skýrsluformi og markmið hennar er að varpa ljósi á og meta, eins og segir í fyrrgreindu ákvæði, hvort gera þurfi breytingar á ákvæðum laga um fjölmiðla um flutningsreglur. Miklar breytingar hafa átt sér stað á sviði sjónvarpsútsendinga frá því að lög um fjölmiðla tóku gildi. Línulegt áhorf í gegnum hefðbundið sjónvarp hefur í auknum mæli vikið fyrir ólínulegu áhorfi með tilkomu streymisveitna þar sem notendur geta nálgast mikið magn af fjölbreyttu efni þegar þeim hentar.

Skýrslunni er skipt í tvo hluta ásamt stuttum inngangi. Fyrri hluti hennar var unnin af verkfræðistofunni Mannviti fyrir Fjölmiðlanefnd. Þar er m.a. að finna umfjöllun um tæknilausnir, þróun útsendinga á sjónvarpsmerki almennt, þróun útsendinga á Íslandi, ásamt áhrifum nýrrar tækni á innlendan sjónvarpsmarkað. Einnig eru skilgreiningar á ýmsum tæknilegum hugtökum og búnaði sem snertir sjónvarpsútsendingar og hefur verið ráðandi í þróun útsendingamála fyrir sjónvarp síðustu ár.
Seinni hluti skýrslunnar var unnin af Lagastofnun Háskóla Íslands fyrir Fjölmiðlanefnd og inniheldur fræðilega úttekt á flutningsreglum VII. kafla laga um fjölmiðla. Í þeim hluta er m.a. umfjöllun um inntak og markmið reglubundinnar endurskoðunar skv. 7. mgr. 46. gr. laga um fjölmiðla, flutningsreglurnar, þ. á m. um almenn atriði, flutningsskyldu og flutningsrétt á myndefni ásamt málsmeðferð. Jafnframt eru m.a. reifaðar ýmsar ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar (nú Fjarskiptastofu) og dómar dómstóla þar sem álitaefni varðandi ákvæði VII. kafla laga um fjölmiðla
eru í forgrunni. Að lokum eru settar fram almennar ályktanir og ábendingar.

Skýrsluna má nálgast í heild sinni hér.