Fjölmiðlanefnd hefur afhent menningar- og viðskiptaráðherra skýrslu um framkvæmd laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, 2013-2023. Skýrslan er unnin á grundvelli VII. bráðabirgðaákvæðis laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013. Gert er ráð fyrir að skýrsla Fjölmiðlanefndar verði kynnt á Alþingi í haust, í samræmi við fyrirmæli laganna.
Lög um Ríkisútvarpið tóku gildi 22. mars 2013 og eru því tíu ár liðin frá gildistöku laganna hér á landi. Í skýrslu Fjölmiðlanefndar er einkum fjallað um helstu álitaefni sem upp hafa komið við framkvæmd laganna. Skýrslan veitir góða yfirsýn yfir framkvæmd einstakra lagaákvæða, þjónustusamninga sem gerðir hafa verið á grundvelli laganna og meðferð kvartana og ábendinga til Fjölmiðlanefndar. Einnig er farið yfir helstu niðurstöður árlegs mats Fjölmiðlanefndar á almannaþjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins.
Þá hefur skýrslan að geyma umfjöllun um meginsjónarmið að baki fjölmiðlun í almannaþágu og umfjöllun um aðdraganda þess að sett voru lög um Ríkisútvarpið árið 2013 en með þeim brugðust íslensk stjórnvöld við tilteknum kröfum Eftirlitsstofnunar EFTA.
Í skýrslunni áréttar Fjölmiðlanefnd mikilvægi þess að umræða um stöðu og hlutverk Ríkisútvarpsins fari fram með hliðsjón af reynslu nágrannaríkja, fjölmiðlarannsóknum og þeim breytingum sem orðið hafa á fjölmiðlanotkun, tækniumhverfi, dreifileiðum og samkeppnisumhverfi fjölmiðla um allan heim.
Skýrsla Fjölmiðlanefndar um framkvæmd laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, 2013-2023.