Álit 1/2023: Viðskiptaboð fyrir nikótínvörur á RÚV – 30. júní 2023

Fjölmiðlanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að Ríkisútvarpið ohf. hafi brotið gegn 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 með miðlun viðskiptaboða fyrir nikótínvörur á RÚV.


Málið var tekið til efnislegrar meðferðar á grundvelli áframsendra ábendinga frá Neytendastofu í mars 2023. Í ábendingunum var vakin athygli á því að á RÚV hefðu birst auglýsingar (viðskiptaboð) fyrir nikótínpúða frá versluninni Svens, sem er í eigu Svens ehf. Í kjölfar ábendinganna tók Fjölmiðlanefnd til skoðunar viðskiptaboð sem höfðu birst á miðlum Ríkisútvarpsins ohf.

Í áliti Fjölmiðlanefndar kemur fram að viðskiptaboð frá Svens á RÚV, sem voru vísun til annars vegar gamallar auglýsingar fyrir iPod/iTunes frá Apple og hins vegar vörukynningar Apple (lengri og styttri útgáfa), teljist til viðskiptaboða fyrir nikótínvörur og að með miðlun þeirra hafi Ríkisútvarpið ohf. þar með gerst brotlegt við þann hluta 4. mgr. 37. gr. laga um fjölmiðla sem bannar viðskiptaboð fyrir nikótínvörur.

Fjölmiðlanefnd ákvað að falla frá sektarákvörðun í málinu með vísan til 1. málsl. 5. mgr. 54. gr. laga um fjölmiðla. Við þá ákvörðun var tekið mið af því að Ríkisútvarpið ohf. hefur ekki áður brotið gegn lögum um fjölmiðla með miðlun viðskiptaboða fyrir nikótínvörur. Jafnframt var til þess litið að ekki hefur áður reynt á bann við viðskiptaboðum fyrir nikótínvörur, enda um nýlegar reglur að ræða, og atvika máls að öðru leyti.

Álit 1/2023: Viðskiptaboð fyrir nikótínvörur á RÚV – 30. júní 2023